Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 13:53:10 (5770)


     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Aðeins til skýringar. Umræða um þetta mál hefur dregist verulega vegna þess að beðið var eftir nærveru ráðherra en ég gerði hins vegar ekki kröfu um það í dag þar sem mér er mjög umhugað um að fá þetta mál til nefndar. Ég hélt þeirri kröfu raunar ekki til streitu þó ég telji það mjög miður hve margir ráðherrar hafa misst af þessari mjög svo gagnlegu atvinnumálaumræðu. Mér finnst þetta afskaplega mikið mál og í rauninni var ýmislegt í henni sem ráðherrar hefðu þurft mjög á að halda að heyra.
    Auk þess vil ég taka undir það að allar almennar aðgerðir í atvinnumálum, aðgerðir stjórnvalda, mundu að sjálfsögðu bæta mjög úr skák fyrir þann hóp sem hér er sérstaklega rætt um, atvinnulausar konur á Suðurnesjum. Ég hef lagt mikla áherslu á að hluti af þeim aðgerðum sem grípa þarf til eru almenns eðlis. Aðrar eru sértækar. Þetta er grundvallaratriði vegna þess að öðruvísi verða þessi mál ekki leyst af nokkru viti.