Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 14:13:57 (5775)


     Árni R. Árnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 18. þm. Reykv. benti réttilega á að við hefðum mátt vera viðbúnir samdrætti á umsvifum varnarliðsins. Það er rétt. Það er langt síðan Suðurnesjamenn hafa vakið athygli á því. Ég vil spyrja þingheim: Hvers vegna haldið þið að þingmenn sem búa á Suðurnesjum hafi um árabil vakið máls á þáltill. og öðrum málflutningi um að stofna til fríhafnar við flugvöllinn? Það er aðeins á síðustu árum að eitthvað markvert hefur verið gert í þessu máli en þingsaga þess er komin á þriðja áratug. Gætið að því. Allan þennan tíma hefur aldrei verið unnið handtak til að markaðssetja Keflavíkurflugvöll sem er auðvitað langmesta samgönguæð á Norðurlöndum að Kastrup frátöldum. Auðvitað hljóta þar að vera veruleg og margbreytileg atvinnutækifæri ef við berum okkur eftir þeim. Við þekkjum það öll að okkar eigin atvinnulíf er einhæft. Ef við viljum fjölbreytni, og það er það sem ég álít að við þurfum, þurfum við að hafa okkur eftir fjárfestum. Keflavíkurflugvöllur er sennilega einn besti möguleiki okkar í þessu sambandi en við höfum ekki haft okkur eftir þessum viðskiptavinum. Því miður. Í þessu, eins og svo mörgu öðru, höfum við verið hrædd við fólk af öðru þjóðerni svo undarlegt sem það er. Um leið og við teljum okkur gjarnan í almennum umræðum best af öllum erum við samt sem áður hrædd við að eiga samskipti við aðra sem er undarleg þversögn.
    Það var minnst á ferðaþjónustu. Hún er mjög vaxandi sproti í atvinnumálum á Suðurnesjum. Fyrir örfáum árum unnu Suðurnesjamenn fáein störf til að þjóna ferðamönnum. Þau eru þegar orðin fjölmörg.