Atvinnumál á Suðurnesjum

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 14:16:04 (5776)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að atvinnuþróun á Suðurnesjum hefur verið áhyggjusamleg undanfarin missiri. Sem betur fer hefur aðeins ræst úr á síðustu mánuðum. Í mars var greinilegt að atvinnuástand batnaði nokkuð en það breytir því ekki að við þurfum að tryggja þarna grundvöll atvinnunnar eins og í landinu öllu og þar er mjög mikilvægt að líta til nýrra lausna. Það hefur sannarlega verið gert í stjórnartíma þessarar ríkisstjórnar og áfram verður að því unnið. Ég ætla ekki að fjölyrða um þær sérstöku ástæður sem til þess hníga að atvinnuástand hefur verið óvenjuerfitt á Suðurnesjum að undanförnu. Þær skýringar hafa verið margendurteknar og snúast m.a. um breytingarnar í sjávarútveginum, tilflutning aflaheimilda en líka þær sérstöku aðstæður sem verða af því að Keflavíkurflugvöllur og það sem honum tengist gegnir mjög mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu. Þar þarf að fylgjast mjög vel með breytingum og bregðast við þeim í tæka tíð.
    Ég vil aðeins nefna okkur atriði sem ég tel að horfi til heilla og framfara í þessum efnum á Suðurnesjum sérstaklega. Hér hefur ferðaþjónustan þegar verið nefnd og þar eru án alls efa vaxandi möguleikar sem fyrst og fremst hljóta að byggjast á framtaki og frumkvæði heimamanna með stuðningi almannavaldsins. Þá vil ég benda á starfrækslu viðhaldsstöðvar Flugleiða sem mun aukast mjög á þessu ári þegar í notkun verður tekin ný viðhaldsstöð. Þar munu flytjast um 130 ný stöðugildi á Suðurnesin. Ef vel tekst til með þessi viðhaldsverkefni er jafnframt að því stefnt að skapa þar fleiri flugvirkjum vinnu í framtíðinni og Flugleiðir hafa í hyggju að leita nýrra verkefna í viðhaldi erlendra flugvéla.
    Þá nefni ég saltverksmiðjuna á Reykjanesi sem hefur þegar hafið störf og þegar hún verður komin í fullan rekstur munu starfa þar um eða yfir 30 manns. Þá bendi ég á að í Los Angeles eru nú 15 starfsmenn í þjálfun og námi á vegum fyrirtækisins Kögunar hf. sem mun annast rekstur hins nýja ratsjáreftirlitskerfis í landinu. Þessir starfsmenn flytjast heim og hefja þar störf á árinu 1994. Aðsetur þeirra verður líklega á Keflavíkurflugvelli. Þar gæti heildarstarfsmannafjöldinn orðið lauslega áætlað um 40 manns. Líklegt er að þessum störfum tengist enn fleiri störf. Ég nefni pappírspokaverksmiðju sem tók nýlega til starfa í Njarðvík. Þar munu vinna 10--15 manns og hugað er að samstarfi við erlend fyrirtæki.
    Ég nefni að sjálfsögðu að fram undan er, þegar lengra er horft, álver á Keilisnesi um leið og ástandið í efnahagsmálum heimsins vænkast. Nýlega hafa komið fram staðfestingar á því að það er álit okkar samstarfsaðila að hvergi í Evrópu sé betra að byggja upp orkufrekan iðnað en einmitt á Suðurnesjum. Á vegum iðnrn. hefur verið unnin ítarleg greinargerð um fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli og það er til athugunar á vegum ríkisstjórnarinnar, bæði almennt og einnig um sérstök verkefni. Við eigum að skoða þessa hluti í víðara samhengi og sjá það skýrt að með notkun nýrrar tækni í fjarskiptum getur einmitt verið möguleiki á því að nýta okkar stöðu og sambönd landsins í alþjóðlegum viðskiptum og þjónustu í banka- og fjármálastarfsemi auk hvers konar samgönguþjónustu.
    Allt eru þetta mál sem tengjast í viðskiptasamningum okkar við önnur lönd. Þess vegna eru það einna stærstu atvinnumálin fyrir okkur nú í næstu framtíð að vel takist til um samningana við Evrópubandalagið innan hins Evrópska efnahagssvæðis og um breytingarnar á GATT-samstarfinu sem nú eru í bígerð. Við gætum orðið bækistöð fyrir fyrirtæki vestan hafs sem vilja eiga viðskipti í Evrópu og við eigum að vinna að því markvisst innan lands að skapa almenn skilyrði fyrir atvinnurekstur og hlúa að nýjum hugmyndum til þess að örva frumkvæði fólks sem vill setja á stofn nýjan atvinnurekstur. Einmitt í því skyni hefur iðnrn. undirbúið sérstakt kynningarefni fyrir þá sem vilja brydda upp á nýjungum í framleiðslu vöru eða þjónustu og stofna ný fyrirtæki. Þessi verkefni öll verða þó marklítil ef ekki tekst að varðveita þann stöðugleika í efnahagslífinu er, sem betur fer, hefur náðst og hefur nýlega verið staðfestur með giftusamlegum hætti í kjarasamningum sem væntanlega nást á grundvelli þeirrar miðlunartillögu sem þar er fram komin. Það er ákaflega mikilvægt að kjarasamningarnir stuðli að framhaldi stöðugleikans. Það eru ekki ómerkileg tíðindi að Íslendingar skuli nú vera í hópi þeirra Evrópuþjóða sem hafa lægsta verðbólgu og mestan stöðugleika í gengi og verðlagi. Það er á þeim grundvelli sem við fáum nýja viðspyrnu fyrir atvinnulífið á Suðurnesjum og annars staðar. En einmitt í tengslum við gerð kjarasamninganna núna hefur ríkisstjórnin lýst því yfir að hún sé reiðubúin, í ljósi þess hversu alvarlega horfir í atvinnumálum, til að

ganga til samstarfs um atvinnumálin við Alþýðusambandið og vinnuveitendur með þátttöku sveitarfélaganna. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að í framhaldi af gerð kjarasamninga er ríkisstjórnin reiðubúin að stofna samstarfsnefnd um atvinnumál með þessum aðilum sem hafi það að leiðarljósi að treysta undirstöðu hagvaxtar og atvinnuöryggis. Í þessum efnum verður hugað að stefnumörkun og aðgerðum er örvi framleiðslu og atvinnustarfsemi í landinu til lengri tíma litið. Fyrst í stað verður megináherslan lögð á aðgerðir til að bæta atvinnuástandið þegar á þessu ári.
    Ríkisstjórnin er reiðubúin til að beita sér fyrir samstarfi allra aðila, þar á meðal í atvinnulífi og á fjármagnsmarkaði, til þess að nefndin geti unnið markvisst að verkefni sínu. Þessi yfirlýsing mun verða staðfest á næstu dögum með skipan þeirrar nefndar sem ég ætla að verði komin til starfa í næstu viku. Sú nefndarskipan er að mínu áliti vísbending um það að samstarf og samstaða hafi náðst með ríkisstjórninni og aðilunum á vinnumarkaðinum um að treysta atvinnuna í landinu. Þar eru kjarasamningarnir, sem nú eru í sjónmáli, ekki veigaminnsta innleggið.
    Með þessum orðum, virðulegi forseti, hef ég lokið mínu máli.