Þróunarátak í skipasmíðaiðnaði

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 14:50:02 (5779)

     Guðjón Guðmundsson :
    Herra forseti. Hér á Alþingi hafa í vetur ítrekað orðið umræður um stöðu skipasmíðaiðnaðarins og ekki að ástæðulausu því að þessi iðngrein hefur átt á brattann að sækja á undanförnum árum. Skipasmíðastöðvarnar hafa átt í miklum erfiðleikum og starfsmönnum hefur fækkað jafnt og þétt. Sum fyrirtæki í greininni hafa hætt starfsemi og hjá flestum þeirra sem enn eru starfrækt hefur orðið mikil fækkun starfsmanna.
    Fyrir um 10 árum voru 1.000 ársverk í íslenskum skipasmíðastöðvum. Ekki veit ég nákvæmlega um fjölda þeirra í dag en ég hygg að þeim hafi fækkað um allt að því helming. Það er auðvitað margt sem veldur þessum samdrætti og erfiðleikum hjá skipasmíðastöðvunum, m.a. breytingar sem orðið hafa hjá útgerðinni með kvótakerfinu og samdrætti í afla, erfið samkeppnisstaða gagnvart skipasmíðastöðvum þeirra þjóða sem ríkisstyrkja þessa iðngrein sem stundum hefur leitt til þess að íslensku stöðvarnar hafa freistast til þess að bjóða allt of lágt í verk til að ná í verkefni og halda starfseminni gangandi. Þá hafa íslensku stöðvarnar ekki, þrátt fyrir margítrekaðar óskir, fengið að sitja við sama borð og erlendar hvað varðar ábyrgðir íslenskra banka vegna viðgerðarverkefna og hafa forráðamenn skipasmíðastöðvanna ítrekað lýst óánægju sinni með það eins og gefur að skilja.
    Það er mín skoðun að langvarandi áhugaleysi íslenskra stjórnvalda eigi einnig nokkurn þátt í því hvernig komið er fyrir þessari grein og ég verð að segja það að þó að ég fagni áhuga flm. þessa frv þá hefði ég kosið að hv. þm. Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon, sem báðir voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn, hefðu þá beitt sér af krafti til stuðnings þessari iðngrein.
    Ég ætla ekki að halda því fram að stjórnvöld hafi ekkert gert í málefnum skipasmíðaiðnaðarins þó að mér finnist áhuginn oft hafa mátt vera meiri. Þáv. hæstv. iðnrh., Friðrik Sophusson, beitti sér fyrir því að enskt ráðgjafarfyrirtæki gerði úttekt á íslenskum skipasmíðastöðvum og tillögur um stefnumótun bæði fyrir einstök fyrirtæki og iðngreinina í heild. Og í tíð núv. hæstv. iðnrh., Jóns Sigurðssonar, var þessu verki lokið og enska fyrirtækið Appeldore skilaði ítarlegum skýrslum þar sem fram komu margar ágætar ábendingar. Þá hefur einnig á undanförnum árum nokkrum nýsmíða- og endurbótaverkefnum sem ríkið hefur haft með að gera verið beint til innlendra skipasmíðastöðva.
    Hv. þm. Svavar Gestsson vitnaði í framsöguræðu sinni og í samþykkt aðalfundar Félags dráttarbrauta og skipasmiðja á síðasta ári þar sem glöggt kom fram ástand þessarar greinar við ríkisstjórnarskiptin í fyrra. En í tíð núv. ríkisstjórnar hefur loksins verið tekið á þýðingarmiklum málum sem allt of lengi hafa vafist fyrir stjórnvöldum. Þannig hefur hæstv. sjútvrh. Þorsteinn Pálsson beitt sér fyrir því að lánshlutföllum Fiskveiðasjóðs Íslands hefur verið breytt þannig að lánveitingar til innlendra skipasmiðja verða miklu hærri en til erlendra. Og Alþingi hefur nýlega samþykkt lög sem heimila erlendum fiskiskipum að landa afla og leita þjónustu hér á landi en það hefur lengi verið baráttumál Félags dráttarbrauta og skipasmiðja sem telur að þetta geti leitt til stóraukinna viðskipta við erlend skip og aukinna viðskipta þeirra við íslenskar skipasmiðjur og aðra þjónustuaðila. Því miður urðu þau lög reyndar ekki eins afdráttarlaus og gert var ráð fyrir í frv. hæstv. sjútvrh. eftir þær breytingar sem gerðar voru á frv. í meðferð Alþingis en samt eru lögin spor í rétta átt.
    Því hefur verið haldið fram nokkuð lengi, líklega í sjö eða átta ár að ekki þyrfti að byggja fleiri fiskiskip fyrir Íslendinga. Flotinn væri þegar allt of stór og íslenskar skipasmiðjur yrðu því að snúa sér að öðrum verkefnum ef þau fyndust. Samt er það nú svo að allar götur síðan hafa skipasmíðastöðvar víða um heim, aðallega þó í Noregi, verið að smíða ný fiskiskip fyrir Íslendinga á sama tíma og íslensku stöðvarnar hafa verið því sem næst verkefnalausar og starfsemi þeirra dregist jafnt og þétt saman. Hámarki nær þessi starfsemi líklega um þessar mundir en nú munu í smíðum skip erlendis fyrir a.m.k. 3--4 milljarða en ekkert hér innan lands. Ég verð að segja að það er grátlegt að horfa á eftir þessum verkefnum úr landi, ekki síst vegna þess að það er óumdeilt að þau skip sem byggð hafa verið hér heima standast fyllilega samkeppni við það besta sem kemur erlendis frá.
    Það er mikilvægt að þessi iðngrein, skipasmíðar og skipaviðgerðir, nái að snúa vörn í sókn og ég tel að það sé í raun síðustu forvöð vegna þess að haldi þróun síðustu ára áfram þá leggst þessi iðngrein af á allra næstu árum. Ég tel að það yrði óbætanlegt tjón fyrir þessa þjóð sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi. Þar með mundi glatast sú mikla reynsla og þekking sem Íslendingar hafa aflað sér á þessu sviði á síðasta aldarfjórðungi jafnframt því sem viðgerðarþjónusta við flotann mundi skerðast verulega.
    Ég vil einnig minna á og taka undir með hv. flm. Svavari Gestssyni að skipasmíðastöðvarnar hafa verið mjög afkastamiklar í iðnmenntun og stór hluti þeirra málmiðnaðarmanna, sem lokið hafa iðnnámi síðasta aldarfjórðung, hafa verið iðnnemar hjá þessum fyrirtækjum auk iðnnema í ýmsum öðrum greinum svo sem í rafvirkjun og trésmíði.
    Í því frv. sem hér er til umræðu er ýmislegt athyglivert og reyndar hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd því sem gert er ráð fyrir í 2. gr. varðandi lánshlutfall Fiskveiðasjóðs, eins og ég nefndi hér áðan, þó lánshlutfallið sé kannski ekki nákvæmlega það sama og hér er gert ráð fyrir.
    Ég vil sérstaklega taka undir 6. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir að íslenskum skipasmíðastöðvum sé gefinn kostur á að taka þátt í útboði áður en gerður er samningur um nýsmíði eða meiri háttar viðgerðir erlendis. Fyrir líklega 10 eða 15 árum voru í gildi reglur líkar þessu hvað varðaði viðgerðarverkefni þó ekki væru þær lögbundnar. Þá fékkst ekki fyrirgreiðsla til að fara með slík verk úr landi nema íslenskum fyrirtækjum hefði áður verið gefinn kostur á að taka þátt í tilboði. Þetta gafst allvel en síðan smáslaknaði á þessum reglum og á síðustu árum hefur þetta verið alveg frjálst.
    Ég er þeirrar skoðunar að það verði með einhverjum hætti að skapa þær aðstæður að íslenskur skipaiðnaður komist yfir þá erfiðleika sem að honum hafa steðjað að undanförnu. Það er skoðun margra að niðurgreiðslur í samkeppnislöndum okkar verði aflagðar á næstu árum og þegar það verður munu íslensku skipasmíðastöðvarnar verða fyllilega samkeppnisfærar við erlendar hvað verð varðar. Það má því alls ekki gerast að þessi iðngrein líði undir lok.
    Í tíð núv. ríkisstjórnar hafa verið stigin mikilvæg skref til stuðnings skipasmíðaiðnaðinum, eins og ég nefndi hér áðan, með breytingum á lánshlutföllum Fiskveiðasjóðs og setningu laga um heimild til erlendra skipa að landa hér afla og sækja þjónustu. Þetta er hvort tveggja mjög mikilvægt og hefur verið baráttumál samtaka skipasmíðastöðvanna í fjölda ára. En það er ýmislegt fleira sem þarf að gera og ég tek undir þá sjálfsögðu ósk íslenskra skipasmíðastöðva að sitja við sama borð og erlendar hvað varðar bankaábyrgðir vegna viðgerðarverkefna og einnig að stöðvunum sé gefinn kostur á að bjóða í stærri verk áður en um þau er samið erlendis.
    Ég tel fulla ástæðu til að skoða nánar þær hugmyndir sem fram koma í 3. og 4. gr. þessa frv. um úreldingu og jöfnunargjald. Þetta eru athyglisverðar tillögur sem full ástæða er að skoða nánar að mínu mati.
    Ástand og horfur eru þannig í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir að trúlega verður ekki mikið um stór nýsmíða- eða viðgerðarverkefni á næstunni og það er því mikilvægara en nokkru sinni áður að halda þessum verkum hér heima og vonandi taka allir aðilar höndum saman til að svo megi verða.