Þróunarátak í skipasmíðaiðnaði

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 14:58:53 (5780)

     Jóhann Ársælsson :
    Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu frv. Ég tel að iðnaðartækifæri í skipasmíðum séu einhver þau bestu sem möguleiki er á á Íslandi og það sé mikið slys hvernig hefur farið fyrir skipasmíðaiðnaðinum hér á undanförnum árum þar sem samdráttur hefur orðið geysilega mikill. Í skipasmíðum og þjónustu við útgerðaraðila eru fólgin einhver mestu iðnaðartækifæri á heimamarkaði sem Íslendingar eiga. Stefna stjórnvalda hlýtur þess vegna að verða að miða að því að nýta sér þessa möguleika til að skapa atvinnutækifæri í landinu. Íslenskur skipaiðnaður hefur átt við mikla erfiðleika að etja að undanförnu. Það hefur verið mikill samdráttur, bæði í nýsmíðum og viðgerðum og fyrirtæki, sem hafa hætt rekstri, eins og hv. 1. flm. nefndi hér áðan, eru orðin a.m.k. fjögur. Reynsla, þekking og þjálfun hefur glatast til mikils tjóns fyrir alla þessa starfsemi. Á sama tíma hafa mörg skip verið smíðuð og töluverður hluti viðhalds og endurbóta farið fram erlendis. Tómlæti stjórnvalda og jafnvel neikvæð afstaða sumra forustumanna í sjávarútvegi virðast hafa verið ráðandi á undanförnum árum. Það er löngu tímabært að stjórnvöld vinni markvisst að því að snúa þessari öfugþróun við.
    Aðalástæða þess hvernig komið er er mikill stuðningur stjórnvalda í samkeppnislöndum okkar við skipasmíðaiðnað þar. Það mun vera niðurgreiðsla upp á líklega 12% í Noregi, eftir því sem okkur er sagt, og um 28% í EB-löndunum.
    Það slysaðist þannig til í sambandi við þessa hugsanlegu EES-samninga að ef þeir verða að veruleika þá hefur ekki tekist að rétta hlut skipasmíðaiðnaðarins í þeim. Ég ætla að vitna hér, með leyfi forseta, í forustugrein Landssambands iðnaðarmanna í 2. tbl. Iðnaðaðarins en þar stendur:
    ,,Á einu sviði, sem mikilvægt er fyrir íslenskan iðnað, stóð ágreiningur allt fram á síðustu stundu, en það eru ríkisstyrkir til skipasmíða. Hjá EB eru í gildi svonefnd 7. tilskipun um ríkisstyrki til skipasmíða. Auk þess að setja ákveðið hámark á heildarfjárhæð ríkisstyrkja sem hlutfall af samningsverði felur þessi tilskipun í sér að styrkir sem raska innbyrðis samkeppni milli skipasmíðastöðva í aðildarlöndunum eru bannaðir. Í þessu felst með öðrum orðum að þegar um er að ræða samkeppni milli fyrirtækja í aðildarlöndunum geta fyrirtæki ekki náð til sín smíðasamningum í krafti hærri ríkisstyrkja en keppinautarnir. Slíkir samningar eru einfaldlega bannaðir. Það var því afar eftirsóknarvert fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað að öðlast með EES-samningum aðild að þessari tilskipun. Í því hefði falist þýðingarmikil vörn gegn því að fyrirtæki í öðrum EES-löndum, t.d. Noregi, á Spáni og í Portúgal, haldi áfram að undirbjóða íslenskar skipasmíðastöðvar í krafti ríkisstyrkja. Í ljósi þessa lagði Landssamband iðnaðarmanna ríka áherslu á það við íslensk stjórnvöld að tryggð yrði fullgild aðild að 7. tilskipuninni.
    Nú liggur niðurstaða um ríkisstyrki til skipasmíða sem teljast verður mjög mikil vonbrigði fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað. Ekki náðist samkomulag um það að 7. tilskipunin yrði hluti af EES-samningi. Ekki náðist heldur samkomulag um bókun sem talist getur góð trygging fyrir því að EFTA-ríkjunum gefist síðar kostur á aðild að nýrri tilskipun EB um sama efni. Með samningnum fylgja einungis tvær stuttar bókanir um þetta efni. Önnur er sameiginleg og segir einfaldlega að á meðan 7. tilskipunin er í gildi nái hinar almennu reglur samningsins um bann við ríkisstyrkjum (nema þeir séu sérstaklega leyfðir) ekki til skipasmíða. Ríkisstyrkir til skipasmíða verða með öðrum orðum leyfðir innan EES og engar ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif þeirra á samkeppnisskilyrði fyrirtækja.
    Hins vegar er mjög almennt orðuð yfirlýsing frá EB um það að bandalagið stefni að því að lækka ríkisstyrki til skipasmíða. Við ákvörðun um það hvort og hvenær nýjar reglur verða settar um ríkisstyrki til skipasmíða þegar 7. tilskipunin rennur út muni bandalagið meta samkeppnisskilyrði í skipasmíðaiðnaði á öllu EES-svæðinu, hafa samráð við EFTA-ríki og taka mið af viðleitni á alþjóðavettvangi í því að draga úr ríkisstyrkjum.``
    Svo endar þessi forustugrein svona:
    ,,Það þarf mikla bjartsýni til þess að ætla að íslenskum skipasmíðaiðnaði verði mikið hald í þessari bókun. Boltinn er því enn sem fyrr hjá íslenskum stjórnvöldum. Ætla þau á einhvern hátt að mæta miklum ríkisstyrkjum í samkeppnislöndum íslensks skipasmíðaiðnaðar eða horfa aðgerðarlaus á það að margra milljarða framleiðslutækifæri fari úr landi vegna óeðlilegra viðskiptahátta samkeppnisþjóða? Höfum við svo marga góða kosti í atvinnumálum að við höfum efni á að láta íslenskan skipasmíðaiðnað lognast út af vegna þess að keppinautarnir hafa rangt við?``
    Ég held að þetta segi allt sem segja þarf um það hlutverk sem íslensk stjórnvöld hljóta að eiga núna, þ.e. ef þau ætla sér að tryggja framtíð þessa iðnaðar í landinu. Það hlutverk er að sjá til þess að skipasmíðaiðnaðurinn rétti úr kútnum og að hann geti staðið af sér þann tíma sem það tekur að fá þessa samkeppnisaðstöðu lagfærða. Ég tel reyndar að við hefðum fyrir langa löngu getað tryggt samkeppnisaðstöðu okkar gagnvart Noregi. Það er ekki það mikið sem þar hallast á og ég tel að þau atriði, sem eru nefnd í frv. sem hér er til umræðu, mundu alveg geta rétt það af sem þar hallast á. Ég vil nefna sem dæmi að ef það hefðu verið í gildi einhvers konar reglur um útboð, þá tel ég nánast víst að það verkefni sem hv. 1. flm. nefndi áðan, þ.e. smíði á tveimur skipum í Noregi fyrir Kristján Guðmundsson á Rifi, hefði orðið íslensk framleiðsla því að það kom í ljós þegar sjútvn. heimsótti skipasmíðastöðina á Akureyri og við spurðum sérstaklega hvort þeir hefðu fengið tækifæri til að bjóða í þetta verkefni þá sögðu þeir okkur að þeir hefðu frétt af þessu á skotspónum en aldrei fengið tækifæri til að bjóða í verkið. Það segir sitt um þessa hluti. Þegar forstjóri stöðvarinnar heyrði um það verð sem hefði verið samið um fyrir þessi skip þá taldi hann mjög líklegt að þeir hefðu getað samið á þessu verði.
    Ég tel að reglur um þetta séu mjög nauðsynlegar og geti komið í veg fyrir þá óheillaþróun sem hér hefur verið. En þessar reglur þurfa að vera ítarlegar og það þarf að tryggja að þessum útboðum sem fara fram verði síðan fylgt eftir með því að þessi verk verði ævinlega gerð upp, bæði þau sem fara fram innan lands og þau sem fara fram erlendis, þannig að menn sjái hvernig raunveruleikinn verður, hvort tilboð standast og hver kostnaður viðkomandi fyrirtækja verður af þessum tilboðum eða verkefnum.
    Það er margt sem hægt er að hugsa sér að geti orðið verkefni íslensku skipasmíðastöðvanna á næstunni. En eitt af þeim stærstu sem maður getur ímyndað sér er verkefni sem væri í því fólgið að stækka ýmis skip vegna fullvinnslu í borð. Við sjávarútvegsnefndarmenn höfum fengið skýrslu þar sem farið er yfir hugmyndir í sambandi við endurskoðun, eða endurbætur réttara sagt, á flotanum og hvað það mundi gefa af sér að fullvinna um borð í þessum fullvinnsluskipum, sem svo eru kölluð, allan úrgang sem núna fer í hafið. Það mundi vera um helmingur af því sem um borð kemur sem fer aftur í hafið af því sem menn veiða úr sjónum.
    Niðurstaða þessarar skýrslu, sem ég hef því miður ekki tekið með mér, er sú að það sé mjög arðbært fyrirtæki að lengja a.m.k. 14 af minni togurunum og að breyta hinum stærri þannig að menn geti unnið um borð meltu og fullunnið þar með 96% af því sem núna er fleygt í sjóinn. Þetta er verkefni sem mundi geta kostað í kringum, ef ég man rétt, um 3,2 milljarða og þar af mundu lengingarnar sem verið er að tala um, einar og sér geta kostað 700--800 millj. a.m.k. Þarna væri á ferðinni að mér finnst tækifæri fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar og möguleiki fyrir íslensk stjórnvöld með því að tryggja að þetta verkefni verði innlent verkefni. Þetta yrði sem sagt vítamín handa íslenskum skipasmíðaiðnaði.
    Auðvitað er þetta ekki eina verkefnið. Þetta land á alveg óskaplega mikið undir útgerðinni og það auðvitað gengur ekki til lengdar að láta fiskiskipin drabbast niður og eldast. Við verðum auðvitað að endurnýja þau. Bátaflotinn er nánast allur úreltur. Togaraflotinn, þ.e. ísfisktogaraflotinn er allur meira og minna úreltur. Það þarf auðvitað að fara að endurnýja þessi skip og við höfum ævinlega lent í því að þetta hefur komið í skriðum. Nú hefur þetta dregist um langa tíð og það sem mun gerast einhvern tímann á næstu árum er að þessi blaðra springur. Menn verða að fara að endurnýja mjög hratt og þá er þessi sama hætta sem vofir yfir, þ.e. að það verði það mikið álag á íslenskum skipasmíðastöðvum, ef þær þá eru samkeppnisfærar þegar þessi tími rennur upp, að sú krafa verði uppi að menn fái að fara utan með þessi verkefni.
    Að mínu viti er það hlutverk stjórnvalda að stuðla að því að svona ástand komi helst aldrei upp og að eitthvert skipulag sé á þessum málum þannig að hægt sé að skipuleggja fram í tímann verkefni skipasmíðastöðvanna og að flotanum sé haldið við í landinu. Menn þurfi ekki að fá á sig skriðu af innfluttum skipum og alla þá fjárfestingu sem því fylgir eins og hefur verið í gegnum tíðina.
    Það er eitt sem mig langar til að spyrja vegna þess að nú ber svo við að hæstv. iðnrh. er hér staddur og mér finnst það mjög mikilvægt vegna eins af þeim atriðum sem kemur fram í frv., þ.e. þess atriðis að útlánareglum Fiskveiðasjóðs verði breytt. Það hefur komið fram að sjútvrh. hafi beitt sér fyrir því að þessum útlánareglum verði breytt. En það vakti sérstaka athygli mína í umræðum hér í þinginu um daginn um þáltill. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, að hæstv. sjútvrh. komst svona að orði, með leyfi forseta:
    ,,En það er auðvitað sérstaklega athyglisvert að þingmaður Alþfl.`` --- þá er hann að tala um hv. 7. þm. Reykv. --- ,,skuli koma hér upp og lýsa yfir stuðningi við tillögu Alþb. um að stöðva frekari frystitogarakaup í ljósi reynslunnar. Ég hef haft af því nokkrar áhyggjur að þessi þróun yrði of ör. Ég beitti mér þess vegna fyrir því að lánveitingar í Fiskveiðasjóði yrðu takmarkaðar þegar í ljós kom að sjóðstjórnin hafði veitt nokkuð mikil lán til nýrra verkefna á þessu sviði. Þegar til átti að taka ákvað hæstv. viðskrh. hins vegar að opna allar flóðgáttir fyrir erlendri lántöku til þess að fjölga frystitogurum.`` --- Þetta sagði hæstv. sjútvrh. og mig langar til þess að fá að vita það hjá hæstv. iðnrh. úr því hann er hér staddur hvernig eiginlega þessi mál standa í dag. Er það raunverulega þannig að þessari breytingu á útlánareglum Fiskveiðasjóðs hafi verið mætt með einhverjum öðrum hætti þannig að það eru opnar, eins og hæstv. sjútvrh. sagði, allar flóðgáttir fyrir innflutning á skipum erlendis frá vegna þess að hæstv. iðnrh. hafi einhvern veginn komið því þannig fyrir að menn gætu farið sínu fram?
    Mig langar til þess að segja vegna þess nýmælis sem er í frv. um að beita einhvers konar jöfnunargjaldi, að ég sé við það ýmsa kosti og ég sé ekkert óeðlilegt við það og tel reyndar að það sé skylda okkar að láta ekki vaða yfir okkur með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum með því að nota niðurgreiðslur og aðrar slíkar aðferðir til þess að taka af okkur þessi iðnaðartækifæri sem við eigum og eru okkar stærstu iðnaðartækifæri á innanlandsmarkaði, þá eigum við auðvitað að nota svona aðferðir.

Við eigum hreint alls ekki að sleppa þessum iðnaðartækifærum sem við höfum. Við höfum líka notað svona aðferðir. Ég er með fyrir framan mig Stjórnartíðindi B 62/1991 en þar kemur fram að jöfnunartollur skal vera 38 kr. fyrir hvert kg af kökum. Er einhver ástæða til að nota frekar jöfnunargjald til að íslenskir bakarar fái að baka kökur en að íslenskir skipasmiðir fái að smíða skip? Mér er spurn.