Röð mála á dagskrá og viðvera ráðherra og stjórnarþingmanna

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 15:54:31 (5787)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég sé mig knúna til að gera athugasemd við þingsköp eins og þinghald hefur verið í dag og raunar undanfarnar vikur. Hér hefur sú stjórn verið tekin upp í þinginu að hirða ekkert um röð mála heldur safna saman annars vegar stjórnarfrumvörpum og stjórnartillögum og hins vegar þingmannatillögum. Ljóst var, þegar við komum saman til fundar í dag, að nú átti að koma frá, þ.e. leyfa hv. þm. að tala fyrir sínum málum, og þegar sú umræða hófst var enginn hæstv. ráðherra á þessum merka árs afmælisdegi ríkisstjórnarinnar viðstaddur. Það var dálítið átakanlegt þar sem fyrsta mál á dagskrá var atvinnumál á Suðurnesjum. Umræður sem síðar spunnust um atvinnumál í landinu almennt fundust okkur ekki vera í sem bestu lagi. Enginn ráðherra hlýddi á þessa umræðu sem var raunar framhald af umræðu sem áður hafði verið hafin. Það hlýtur að vera ástæða til að mótmæla þessu vinnulagi harðlega. Auðvitað er ljóst að hér sitja engir í salnum nema þeir sem ætla að tala fyrir sínum málum, hvorki ríkisstjórnin né stjórnarþingmenn hirða hætis hót um að hlýða á mál stjórnarandstöðuþingmanna. Ég vil undanskilja einn hv. þm. sem virðist líta á það sem skyldu sína að sitja fyrir allan þingflokk Sjálfstfl. en það er hv. 4. þm. Reykv., Eyjólfur Konráð Jónsson. Aðrir hv. þm. sjást hér mjög lítið. Úr því að út í þessa umræðu er komið hlýt ég að tala um það hér að einhver hluti af ástæðunni fyrir þessu er sá nýi háttur sem hér hefur komið upp á hinu háa Alþingi að hv. þm. eru í atvinnu sinni út í bæ. Slíkt var næstum óheyrt þegar ég kom hér inn á þing fyrir nær 13 árum.
    Hæstv. forseti. Ef enginn annar gerir athugasemd við þetta þá hlýt ég að verða til þess. Þetta vinnulag er auðvitað óþolandi. Mönnum er safnað saman svona einu sinni í viku til að greiða atkvæði. Um þennan hátt er orð haft á norrænum þjóðþingum. Þar er talað um að nú eigi ,,stemmekvæget`` að koma, þ.e. atkvæðanautin. Fólk sem situr nær aldrei í þingsölum, hefur ekki blaðsnifsi á borðum sínum og veit ekkert um hvað það er að greiða atkvæði eins og því miður hefur þegar komið fram í þinginu í vetur.
    Hæstv. forseti. Við, sem viljum veg Alþingis meiri en núv. stjórn sýnist vilja, hljótum að mótmæla þessu vinnulagi og óska eftir því að aftur verði upp tekinn sá háttur að mestan part verði fylgt þeirri reglu að mál séu tekin fyrir í númeraröð. Auðvitað hefur ríkisstjórn ævinlega haft í vinsamlegu samstarfi við forseta sinn, nokkurn forgang, vegna þess að auðvitað er eðlilegt að ríkisstjórnin komi málum sínum fram. En það er fullkomlega óboðlegt fyrir okkur sem sitjum hér --- og á dagskrá í dag eru 16 mál og við vorum búin að ljúka umræðu um tvö --- að þegar hæstv. samgrh. svífur í salinn er samstundis öllu ýtt aftur fyrir og farið að ræða 12. mál á dagskrá.
    Þetta hefur e.t.v. komið fyrir áður. Þó er ég hrædd um að hæstv. samgrh. hefði mótmælt þessu harðlega í tíð síðustu ríkisstjórnar. Átti hann þá ófá erindi við forseta. En ef þetta á að ganga til svona þá skora ég á hv. þm. að mótmæla þessari stjórn þingsins. Við þetta verður engan veginn unað, þetta er móðgun við hv. þm., þetta er móðgun við þjóðina, sem getur nú fylgst með hverju orði sem hér er sagt í sölum Alþingis, og ég tel það með öllu óboðlegt að bjóða okkur upp á þetta vinnulag.