Röð mála á dagskrá og viðvera ráðherra og stjórnarþingmanna

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 16:06:00 (5792)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég held að það sé þarft að ræða vinnubrögð og ég ætla að leggja örfá orð inn í þessa umræðu um vinnubrögð þingsins.
    Það er rétt sem hefur komið fram að margar tillögur þingmanna hafa beðið mjög lengi. Misbrestur hefur verið á því að farið sé eftir röð þingmála. Hins vegar vil ég taka fram að ég held að ástæða fyrir þeim vandkvæðum sem hér hafa verið sé m.a. sú að blandað er saman stjfrv. og þingmannamálum á alla daga vikunnar. Ég held satt að segja að gamla fyrirkomulagið hafi reynst betur að mörgu leyti og að það sé til bóta að hafa hér þáltill. á dagskrá einhverja ákveðna daga án þess að stjfrv. fari að þvælast þar inn á milli og að ríkisstjórnin verði að sætta sig við það eins og fyrri ríkisstjórnir gerðu eða hafa þá sér fundi á þeim dögum. Nú er þetta allt í bland og ég held að þetta sé hlutur sem formenn þingflokka og forsætisnefnd ættu að ræða um að fenginni reynslu af þinghaldinu í vetur.
    Ég vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Ég held að það sé mjög áríðandi að teknar verði upp alvarlegar viðræður um framkvæmd þinghaldsins í ljósi þeirrar reynslu sem hefur verið liðinn vetur. Maður heyrir oft að talað er um að sérstaklega hafi verið mikið um utandagskrárumræður og þingskapaumræður í vetur. Ég held að þetta sé mjög orðum aukið. Utandagskrárumræður og þingskapaumræður hafa alltaf verið margar. Sú mikla breyting sem orðið hefur er sú að það eru 63 þingmenn í sömu deildinni alla daga sem þing er haldið og það er mikil breyting frá því sem var. Það er full þörf á því að ræða um framkvæmd þinghaldsins í framhaldi af því.