Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 16:12:11 (5794)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir er samið af nefnd sem var skipuð hinn 28. ágúst sl. til að endurskoða hafnalög og er lagt fram með lítils háttar breytingum frá áliti nefndarinnar en er í höfuðdráttum samhljóða því.
    Í þessari nefnd áttu sæti Árni M. Mathiesen alþingismaður, Guðmundur Einarsson, aðstoðarmaður iðnrh., Hermann Guðjónsson hafnamálastjóri, Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, Kristján Ragnarsson, formaður Landsambands ísl. útvegsmanna, Ólafur S. Valdimarsson ráðuneytisstjóri og Sturla Böðvarsson alþingismaður, formaður Hafnasambands sveitarfélaga, sem jafnframt var formaður nefndarinnar. Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur sat flesta fundi nefndarinnar sem varamaður Kristjáns Ragnarssonar en ritari var Rúnar Guðjónsson, deildarstjóri í samgrn.
    Nefndin hélt samtals 16 bókaða fundi og eins og ég sagði samdi hún frv. til nýrra hafnalaga sem er í grófum dráttum samhljóða því frv. sem hér liggur fyrir. Aðalbreytingarnar í frv. frá gildandi hafnalögum eru þessar:
    Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að eigendur hafna geti auk sveitarfélaga einnig verið hlutafélög. Jafnframt er gert ráð fyrir að hafnir geti orðið hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra. T.d. gætu hafnir samkvæmt þessu ákvæði orðið hluthafar í fiskmörkuðum.
    Í öðru lagi er í 8. gr. einnig gert ráð fyrir að mynduð verði hafnasamlög um rekstur hafna þar sem landfræðileg skilyrði eru fyrir hendi. Í fylgiskjali með frv. eru hugmyndir nefndarinnar sýndar um það hvernig mætti hugsa sér stofnun þessara hafnasamlaga og hvernig þau hvert fyrir sig mundu koma út fjárhagslega. Með stofnun hafnasamlaganna er stefnt að hagræðingu í nýtingu hafna og framkvæmdum enda gert ráð fyrir að milli þeirra sé almennt gott vegasamband árið um kring. Þannig er ekki gert ráð fyrir að hafnasamlag á Vestfjörðum verði raunhæft fyrr en lokið er gerð jarðganga milli Ísafjaðar, Suðureyrar og Flateyrar.
    Nefndin telur eðlilegt að ríkisvaldið stuðli að sínu leyti að því að hafnasamlög verði mynduð, m.a. með gerð sérstakra framkvæmdaáætlana fyrir einstök hafnasamlög og betri fyrirgreiðsla varðandi ríkisframlög til framkvæmda séu til slíkra hafnasamlaga en einstakar hafnir innan þeirra gætu vænst. Slík samlög stuðla einnig að því og gera það kleift að forgangsröðun og verkaskipting geti átt sér stað milli einstakra staða. En eins og hv. þm. er kunnugt er víða hægt að nefna dæmi þess að ógætilega hafi verið farið með opinbert fé af þeirri ástæðu einnig að ekki hefur tekist samkomulag um það milli sveitarfélaga að vinna saman á þessum vettvangi.
    Eftir því sem samgöngutækni hefur þróast liggur fyrir að nauðsynlegur búnaður til vöruflutninga er mjög dýr og kostnaðarmikill og af þeim sökum óhjákvæmilegt að hugsa flutninga meðfram ströndinni með öðrum hætti en áður var, auðvitað í því skyni eingöngu að bæta þjónustu og draga úr kostnaði við vöruflutninga. Fyrir þessu máli er mikill og góður hljómgrunnur meðal sveitarstjórnarmanna sem gera sér auðvitað grein fyrir því að í þessu efni fara saman hagsmunir sveitarfélaga, viðskiptavina, flutningsaðila og hafna og flutningsaðila sjálfra.
    Í fskj. á bls. 14 með frv. er sett fram hugmynd að hafnasamlögum og rakið hverjar séu tekjur og gjöld einstakra hafna og skal ég ekki fara yfir það hér. Ég vil þó aðeins rifja upp, það sem raunar hefur komið fram áður í sambandi við umræður um samgöngumál í þinginu og ég hef áður lýst, að meðal þeirra svæða þar sem yfirburðir hafnasamlaga virðast augljósir má nefna Suðurfirði fyrir vestan, Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal, en þá er auðvitað nauðsynlegt áður að leggja nýjan veg yfir Hálfdán sem fullnægir þeim kröfum sem til slíkrar vegagerðar verður að gera í sambandi við meiri háttar vöruflutninga.
    Í öðru lagi eins og ég áður sagði um Norðurfirði, þ.e. Þingeyri, Flateyri, Suðureyri, Ísafjörð, Bolungarvík og Súðavík, að um leið og jarðgöngin eru komin opnast nýir og miklu betri möguleikar til þess að samræma ekki aðeins vöruflutninga heldur líka fólksflutninga á þá byggð sem yrði þá eitt atvinnusvæði umhverfis Ísafjörð og eru höfuðrökin fyrir því að ráðist væri í jarðgöng þar vestra.
    Ég minni á Ólafsfjörð og Dalvík. Þar standa viðræður nú yfir og virðist komið langleiðina í höfn að þar takist að setja á stofn hafnasamlag.
    Við getum talað um staði eins og Eskifjörð og Reyðarfjörð og auðvitað ótal aðra staði. Við getum talað um hafnirnar á Reykjanesi og skal ég ekki hafa um það fleiri orð. En auðvitað sjá hv. þm. yfirburði slíkrar samvinnu sveitarfélaga og hafnarsjóða.
    Í frv. er það nýmæli að gert er ráð fyrir því að festa það ákvæði að 25% álag á vörugjald renni í Hafnabótasjóð í samræmi við 29.--32. gr. laga nr. 1/1992. Sú breyting er gerð að álagið er látið renna til lán- og styrkveitinga úr sjóðnum en ekki sem framlag ríkisins til almennra hafnarframkvæmda eins og þau lög gerðu ráð fyrir. Miðað við núgildandi gjaldskrá má ætla að tekjur af sérstöku álagi á vörugjald nemi um 125 millj. kr. á ári og með hliðsjón af því er framlag ríkisins nú gert háð ákvörðun Alþingis hverju sinni.
    Aðrar breytingar sem frv. gerir ráð fyrir hafa minni áhrif og oft er aðeins um að ræða að sniðnir hafa verið agnúar af gildandi lögum.
    Ég sé ekki ástæðu til þess, hæstv. forseti, að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir því að frv. verði sent einstökum höfnum og sveitarfélögum til umsagnar og komi þar til athugunar. Auðvitað er það svo um hafnir að álitamál er hversu ákveða skuli ríkisframlög til einstakra framkvæmda, hvaða mörk eru dregin og hversu mikinn þátt ríkið eigi að taka í hafnargerðum á einstökum stöðum. Auðvitað er líka spurning hvernig draga eigi mörkin milli einstakra hafna út frá umferð um þær og hvaða tekjur þær hafi og loks út frá því sjónarmiði að hafnargerð er miskostnaðarsöm eftir legu hafnarinnar og umhverfi.
    Ég legg ekki áherslu á að frv. verði samþykkt á vorþingi, heldur verði sent til umsagnar og síðan tekið aftur til umræðu á haustdögum þannig að þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum gefist nægilegur tími til að gaumgæfa einstök atriði og lagfæra ef þeim sýnist eitthvað mega betur fara. Hér er um samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að ræða og ber að líta á frv. sem slíkt.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.