Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 17:52:44 (5806)


     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. samgrh. talaði um útúrsnúninga í sambandi við umfjöllunina um 14. gr. ásamt 8. gr. Ég er honum alls ekki sammála í þessu efni. Í 14. gr. er sagt skýrt: ,,Tekjum og eignum hafnarsjóðs má einungis verja í þágu hafnarinnar.`` Það að leggja peninga í önnur fyrirtæki, hlutafélög, er auðvitað að taka þátt í atvinnurekstri með öðrum sem er væntanlega í ábataskyni en í 14. gr. er gert ráð fyrir því að hafnarsjóðir skuli undanþegnir hvers konar sköttum til sveitarsjóða. Að mínu viti getur þetta því ekki staðið svona. Mér finnst að það eigi að endurskoða þetta.
    Það er líka annað sem ég gleymdi að minnast á áðan sem er mikilvægt og sem menn þurfa auðvitað að ræða. Gert er ráð fyrir því að menn geti stofnað hlutafélag um nýja höfn en ekki er útskýrt nánar hvað menn þurfi að uppfylla með því, hvort einhver félagsskapur geti ákveðið að nú skuli byggja höfn á einhverjum stað á landinu og eigi þar með rétt á því að fá framlög frá ríkinu í þessi hafnarmannvirki samkvæmt þeim reglum sem hér eru fram settar. Það hlutafélag sem hér ætti hlut að máli væri félag með takmarkaða ábyrgð. Ég held að menn þurfi að ræða þessi mál mjög vandlega og því er vel að menn fá til þess nægan tíma.