Hafnalög

131. fundur
Fimmtudaginn 30. apríl 1992, kl. 17:54:42 (5807)



     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil í fyrsta lagi ítreka það sem ég sagði áðan að auðvitað stangast það ekki á í 8. og 14. gr. þegar við tölum um það að tekjum og eignum hafnarsjóðs megi einungis verja í þágu hafnar. Það getur verið í þágu hafnar að stofna hlutafélag um tiltekinn rekstur sem tengist henni. Hér var áður talað um fiskmarkaði. Við getum hugsað okkur einhvers konar flutninga, löndunarfyrirtæki eða eitthvað því um líkt. Þá getur það beinlínis samrýmst hagsmunum hafnarinnar að vera hluthafi í slíku fyrirtæki. Ég held að það sé líka ljóst að við erum að fara inn í nýjan tíma í sambandi við flutningatækni og annað því líkt. Við höfum líka verið hér á landi að byggja upp orkufrekan iðnað sem gerir kröfur til mikilla og dýrra hafnarframkvæmda og þar fram eftir götunum. Ég hef áður minnst á þá bryggju sem Hvalur hf. og Olíufélagið áttu og ráku inni í Hvalfirði. Það eru því auðvitað fordæmi fyrir því að hafnir hér á landi séu hlutafélög og í einkaeign. Auðvitað má alltaf deila um í hvaða eigu einstakar framkvæmdir eru í raun og veru. Við getum tekið t.d. mannvirki sem tengjast ferjurekstri, ferðamannaþjónustu og ýmislegt annað. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við höfum nútímalegt ákvæði um eignarhaldið og rekstrarformið á höfnunum. En þetta verður sem sagt rætt í samgn.