Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 14:00:00 (5823)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem er hér til 2. umr. var m.a. til umfjöllunar meðan ég sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Vestf. áðan. Það er vissulega rétt sem einnig kom fram hjá honum að ég er efnislega samþykk áliti nefndarinnar. Ég er þó ekki að öllu leyti samþykk því. Þó að mér finnist það taka á málefnum sem virkilega er þörf á að taka fyrir og setja nánari ákvæði um. Vinnsla á afla hefur í vaxandi mæli verið að færast út á sjó og þess vegna er mjög nauðsynlegt að setja skýrari reglur um það.
    Ég er einnig efnislega samþykk þeim brtt. sem lagðar hafa verið fram af hálfu hv. sjútvn. en ég vil þó taka frekar undir brtt. á þskj. 767 frá hv. þm. Magnúsi Jónssyni vegna þess að ég tek undir hans sjónarmið um það að þetta frv. geti engan veginn átt við trilluútgerð og þá flatningu eða söltun sem hugsanlega fer fram í þeim smábátum. Ég tel að á undanförnum árum hafi stöðugt verið gengið á það lagið að gera smábátaútgerðarmönnum erfiðara um vik, samanber þau ákvæði að þeir skuli núna þurfa að ávinna sér þriggja ára reynslu til þess að eignast hlutdeild í kvóta. Það er að vísu annað mál en ég tel einnig að þarna

sé verið að gera þeim óþarflega erfitt fyrir með því að setja þeim reglur sem jafnframt og fyrst og fremst er verið að setja um stór skip, frystiskip. Þess vegna vil ég lýsa því yfir að ég styð þá brtt. sem fram kemur frá hv. þm. Magnúsi Jónssyni þar sem ég tel að þá komi skýrt fram að þær reglur sem hér er verið að setja um frystiskip eigi ekki við smærri báta.