Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 14:08:00 (5825)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Við fulltrúar Alþb. í sjútvn. styðjum það frv. sem hér er til umfjöllunar en undir nál. á þskj. 756 ritum við þó með fyrirvara og ég vil gera lítillega grein fyrir því hvernig sá fyrirvari er til kominn. Hann lýtur í fyrsta lagi að því að við höfum verið þeirrar skoðunar í Alþb. að það væri löngu tímabært að taka á þessum málum og það fyrr og jafnvel með ákveðnari hætti en hér er loksins lagt til. Það hefur tæplega farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með sjávarútvegsmálum á Íslandi á undanförnum árum að þarna hafa verið í gangi miklar breytingar hvað varðar flutning vinnslunnar út á sjó og það án þess að fyrir lægi af hálfu stjórnvalda nokkur heildstæð stefna í þeim efnum, án þess að fyrir lægju í sjálfu sér athuganir eða útreikningar á því hvert sú breyting væri að þróa okkar sjávarútveg með tilliti til heildarverðmætasköpunar, stöðu á mörkuðum, atvinnuhagsmuna í landi o.s.frv. Þarna hefur mönnum þótt nokkuð á skorta að málin hafi verið tekin þeim tökum sem æskilegt hefði verið og tilviljanakenndar aðstæður og eðlileg viðleitni rekstraraðila, einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi hafa þarna ráðið ferð meira heldur en heildstæð stefnumörkun eða tilraun til þess að meta í hverju heildarhagsmunir íslenska þjóðarbúsins fælust.
    Þetta er einnig rétt að hafa í huga þegar til þess er litið að þetta frv. þarf ekki endilega að breyta miklu um hraða þeirrar þróunar sem þarna hefur verið í gangi. Það er því ljóst að frv. takmarkar ekki með neinum beinum hætti áframhaldandi flutning fiskvinnslu út á miðin og gefur mjög rúman aðlögunartíma þeim skipum sem þegar hafa hafið vinnslu úti á sjó. Að vísu er ljóst að nýbygging skipa, sem hyggjast stunda vinnslu á hafi úti eða fullvinnslu eins og það er kallað hér, hlýtur að þurfa að taka mið af þeim kröfum sem verða settar á grundvelli laganna. Það gæti brugðið til beggja vona með áhrifin af því og þess vegna mætti hugsa sér að þetta leiddi til þess að þau skip, sem bætast við flotann á næstu árum og hyggja á fullvinnslu um borð eða a.m.k. vilja hafa þann möguleika tæknilega fyrir hendi, yrðu enn stærri og vöxtugri en ella hefði orðið vegna þess að ljóst er að það þarf nokkurt pláss og nokkurn útbúnað til þess að uppfylla þessar kröfur. Þá hlyti spurningum manna enn að fjölga um hvert þróunin er að bera okkur í þessu sambandi.
    Jafnframt gerum við nokkurn fyrirvara við þá flokkun á vinnslu sem er lögð til skv. 1. gr. frv. Sú leið er valin að fjalla eingöngu um það sem kallað er í frv. fullvinnsla botnfiskafla um borð og greina þá vinnslu ekki á nokkurn hátt í sundur. Síðan segir í 2. mgr. að það skuli teljast fullvinnsla í þessu sambandi, þ.e. í skilningi laganna, ef flökun eða flatning botnfisks er þáttur í vinnslunni. Þar með skal það allt

teljast fullvinnsla ef flökun eða flatning kemur við sögu, en önnur vinnsla afla um borð er þá undanskilin með öllu. Stór og afkastamikil skip sem heilfrysta eða vinna afla um borð án þess að flökun eða flatning sé beinn þáttur í vinnslunni geta því algjörlega fallið utan ákvæða þessara laga. Fyrir því eru að sjálfsögðu skiljanlegar ástæður að nokkru leyti þar sem eitt markmið laganna er að tryggja að aukaafurðir eða úrgangur séu nýtt. En á hinn bóginn er ljóst að hvað skipin sem vinnustað snertir og vinnslu, sem þar fer fram, hefði að okkar mati verið full ástæða til að setja reglur um þau skip einnig þar sem um vinnslu úti á miðum er að ræða án þess þó að flökun eða flatning sé beinn þáttur af henni. Við höfðum því hugmyndir um það og kynntum þær í sjútvn. að æskilegra hefði verið að vinna þetta frv. meira en hér er lagt til og reyna að taka heildstæðar á málum hvað snertir allar tegundir vinnslu, jafnt sem fullvinnslu sem fram fari um borð í fiskiskipum á Íslandsmiðum. Af sama toga voru þær umræður sem snertu stöðu smábáta og báta í þessu sambandi. En ljóst er að frv. hefði óbreytt gert ómögulegt að gera nokkurn greinarmun á jafnvel minnstu handfærabátum eða smábátum sem væru að verka saltfisk um borð þar sem flatning kæmi við sögu þó svo að tæplega væri hægt í neinum venjulegum skilningi að líta á þær útgerðir sem verksmiðjuskip.
    Sjútvn. hefur orðið sammála um að gera þarna nokkrar lagfæringar á frv., leggja til að við 6. gr. bætist ný málsgrein og styðjum við þá brtt. að sjálfsögðu og hún kemur nokkuð til móts við þau sjónarmið að nauðsynlegt geti verið að flokka í sundur í nokkrum mæli skipin eftir stærð og eðli þeirrar vinnslu sem þar fer fram um borð. Í raun og veru gengur brtt. sjútvn. í mjög hliðstæða átt og brtt. frá hv. þm. Magnúsi Jónssyni á þskj. 767 og ætla má að áhrifin af hvorri breytingunni, sem fyrir valinu yrði, yrðu svipuð, þ.e. að sjútvrh. yrði heimilað að setja reglur sem undanþægju að einhverju leyti eða veittu sérstaka meðhöndlun smærri bátum.
    Engu að síður er það svo þó ekki hafi fengist hljómgrunnur fyrir því, a.m.k. ekki að þessu sinni að gera viðameiri breytingar á frv. en sjútvn. leggur til, þá styðjum við það og teljum það tvímælalaust spor í rétta átt sem þarna er lagt til.
    Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt að við Íslendingar tökum á þessum málum. Að mínu mati megum við vænta þess að á komandi árum verði frammistaða okkar, hvað nýtingu auðlindarinnar hér snertir, undir meiri smásjá en verið hefur hingað til og það jafnvel alþjóðlega. Það mun ekki bara eiga við um það hvort við t.d. nýtum ýmsa fiskstofna, sem fram til þessa hafa verið vannýttir og finnast innan efnahagslögsögu okkar. Eins og mönnum er kunnugt kveða alþjóðaskuldbindingar okkar á um að við getum orðið að sætta okkur við að aðrar þjóðir komi og nýti sér þá möguleika sem þar eru til verðmætasköpunar ef við ekki nýtum slíkar auðlindir sjálfir. Sama má að nokkru leyti heimfæra upp á það að við gerum verðmæti úr öllum nýtanlegum þáttum stofna þeirra auðlinda sem við vinnum á hverjum tíma. Við undirbúning að ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál í Brasilíu, sem er fram undan og margfræg af umræðum á Alþingi og víðar í þjóðfélaginu, hafa Íslendingar ekki síst lagt áherslu á nauðsyn þess að nýta beri til matvælaframleiðslu allar hinar lífrænu auðlindir hafsins án tillits til þess hvaða stofnar eiga þar í hlut, hvort það er fiskur, sjávarspendýr eða annað. Með þeim hætti beri að marka nýja stefnu í þessum efnum sem byggi á sjónarmiðunum um sjálfbæra þróun. Það eru orðin rök fyrir afstöðu okkar, t.d. þjóðanna við norðvestanvert Atlantshafið, að nýta beri stofna sjávarspendýra eins og aðra stofna í hafinu, að með því sé unnt að nýta til matvælaframleiðslu í sveltandi heimi stærri hluta úr lífkeðjunni en ella væri. Nákvæmlega sama á að sjálfsögðu við um þau gífurlegu verðmæti sem farið hafa í hafið á undanförnum áratugum við fiskvinnslu á sjó úti og vaxið með hverju ári af ástæðum sem menn þekkja. Þeir möguleikar til framleiðslu á fóðri til manneldis, sem þarna felast og við Íslendingar höfum látið ónýtta, eru ólíðandi sóun og nánast vítavert að slíkt skuli eiga sér stað í sveltandi heimi þar sem ljóst er að þarna liggja möguleikar til framleiðslu á eggjahvítuefnum til manneldis sem gætu orðið ódýrari á einingu en flestir aðrir mögulegir kostir.
    Eitt vil ég nefna hér enn, hæstv. forseti, sem mér finnst skipta máli í sambandi við afgreiðslu þessa máls og kannski hefur ekki verið nægjanlega gaumur að gefinn. Það eru verksmiðjuskipin á Íslandsmiðum sem vinnustaður og aðstæður sjómanna sem þar vinna. Því hefur verið haldið fram í umræðum að vökulögin gömlu og góðu fari fyrir lítið í sumum tilvikum á þessum vinnustöðum, sem eru verksmiðjurnar á hafi úti, og er vissulega ekki gott ef satt er. Hvað sem því líður þá hlýtur mönnum að vera kappsmál að þessir vinnustaðir séu sem allra best úr garði gerðir bæði hvað aðbúnað og öryggi og aðstæður allar snertir. Ég hefði talið að að ósekju hefði mátt hnykkja betur á þeim þáttum í texta þessa frv. og væri fullkomlega ástæða til að skilyrða leyfisveitingu samkvæmt 1. gr. frv. mjög rækilega við það að útbúnaður, aðstæður skipanna í þessu tilliti, sé fullnægjandi. Segja má að það sé á nokkurn hátt gert með ákvæðum 4. gr. frv. en ég hefði talið að að ósekju hefði mátt kveða þar fastar og skýrar að orði.
    Hæstv. forseti. Þetta eru í grófum dráttum þær athugasemdir og þau efnisatriði sem ollu því að við fulltrúar Alþb. í sjútvn. ákváðum að hafa fyrirvara á um stuðning okkar við þetta frv. en við munum greiða því atkvæði okkar engu að síður að gerðum þeim brtt. sem sjútvn. leggur til. Ég vil þó láta þá skoðun mína koma hér fram að einungis sé tekið fyrsta skrefið í þessum efnum og óhjákvæmilegt verði að endurskoða þessi lög innan tíðar þegar fyrsta reynsla er komin af framkvæmd þeirra.
    Það er að mínu mati sömuleiðis ámælisvert að ekki skuli fyrir löngu hafa verið tekið á þessum þáttum. Hv. 1. þm. Austurl. og hæstv. fyrrv. sjútvrh. gaf að vísu fyrir sitt leyti ákveðna skýringu að það hefði

m.a. tafið framgang þessara mála að Alþingi hefði ekki fallist á að verksmiðjuskipin sjálf greiddu kostnað af eftirliti sem þar færi fram. Hvað sem því líður þá má notast við hið fornkveðna að betra sé seint en aldrei og tvímælalaust til bóta að reglur komist á í þessum efnum. Þær er þá frekar hægt að lagfæra í framtíðinni í ljósi þeirrar reynslu sem af þeim hlýst.
    Hæstv. forseti. Ég hef lengi verið ærið hugsi yfir þeirri þróun að flytja vinnsluna út á sjó, hvert hún væri að færa okkur í íslenskum sjávarútvegi, á sama tíma og vinnslustöðvar standa tómar í landi og fólki sagt upp eins og á sér því miður stað þessar vikurnar í stórum stíl og fram undan er kannski verra atvinnuástand í íslenskum sjávarútvegi og a.m.k. hvað sumartímann snertir en við höfum þekkt um áratuga skeið. Að vísu koma til breyttar aðstæður þar sem kvótaárinu lýkur nú á komandi hausti og nýtt tímabil tekur við og af þeim ástæðum er kvóti víða langt kominn hjá skipum eða vinnslustöðvum. En þessi álitamál, sem varða nýtingu stofnanna, atvinnuástandið og tengsl sjávarútvegsins við byggðina í landinu, eru ærið áleitin í þessu sambandi. Á móti koma að sjálfsögðu þekkt rök þeirra sem hafa tekið ákvarðanir um að flytja vinnsluna út á sjó í fyrirtækjum sínum á undanförnum missirum og árum. Þessi tegund útgerðar hefur gefið besta afkomu og gerir enn og er reyndar eins og nú stendur sú eina sem skilar sæmilegum hagnaði. Að sjálfsögðu þarf jafnframt að hafa í huga þá möguleika sem vinnsla af þessum toga kann að gefa á hærra verði og nýjum mörkuðum sem ella væru ekki fyrir hendi, svo sem þar sem kröfurnar um ferskleika afurðanna eru mestar. En eitthvert jafnvægi þessara þátta þyrfti að reyna að laða þarna fram og enn sem komið er hefur þróunin verið ansi einhliða í þessum efnum og mér er til efs að það frv. sem hér er á ferðinni breyti í sjálfu sér miklu um það.
    En ekki fleiri orð um það, hæstv. forseti. Ég hef gert grein fyrir afstöðu okkar fulltrúa Alþb. í sjútvn. og ítreka að við styðjum þetta frv. sem þó altént spor í rétta átt.