Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:02:13 (5831)


     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli mínu áðan að ég taldi að frv. mundi ekki valda neinum straumhvörfum. Ég taldi það hins vegar vera lið í því að stuðla að jafnræði fiskvinnslunnar hvort sem um væri að ræða fiskvinnslu úti á sjó eða fiskvinnslu í landi. Mér er það auðvitað mætavel ljóst, og það held ég að engum manni hafi dottið í hug, að frv., ef að lögum verður, mundi aldrei jafna algerlega starfsskilyrði fiskvinnslunnar. Þetta er hins vegar einn þáttur í því máli og alls ekki veigalítill. Nú er m.a. gert ráð fyrir því, eins og ég rakti hér í máli mínu áðan, að fiskvinnsluskipin verði að koma með allt það sem til fellur að landi. Það er ekki lítil kvöð sem verið er að leggja á þessi skip umfram það sem nú er gert þegar kannski 60% og rúmlega það af því sem kemur inn fyrir fer út fyrir aftur vegna þess að það er ekki nýtt sem flök eða annað í vinnslu skipanna. Ég tel að frv. sé ótvírætt liður í því að jafna milli fiskvinnslugreina eftir því hvort um er að ræða fiskvinnslu úti á sjó eða í landi.
    Það er hárrétt ábending hjá hv. 2. þm. Vesturl., að um er að ræða mismunun m.a. hjá Fiskveiðasjóði hvað varðar lánakjörin. Það er ekki mismunur milli fiskvinnsluaðferða heldur miklu frekar mismunur milli fiskvinnslu og útgerðar. Hv. þm. talaði áðan um 18 ára lán. Það er ekki lánað til frystiskipa til 18 ára heldur almennt til nýsmíða á skipum. Við erum að tala um annars vegar mismunun milli vinnslu og útgerðar og hins vegar starfskjör fiskvinnslunnar, hvort sem hún er í landi eða úti á sjó. Á þetta held ég að þurfi að leggja mikla áherslu.