Fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:14:19 (5833)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 3. þm. Vesturl. um álit mitt á umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna vil ég segja að ég hygg að það hljóti að vera á einhverjum misskilningi byggt að halda að frv. um meðferð og eftirlit með sjávarafla, sem mælt hefur verið fyrir og hv. sjútvn. hefur haft til skoðunar ásamt með fleiri frv., geti komið í stað þessa frv. Á vissan hátt er verið að fjalla um svipuð verkefni. En þegar af þeirri ástæðu til að mynda að í þessu frv. eru skýrar heimildir varðandi eftirlitsmenn veiðieftirlitsins, með hvaða hætti og eftir hvaða heimildum þeir verða settir um borð sem ekki eru í hinu frv., er ljóst að það frv. gerir þetta ekki óþarft. Má reyndar benda á fjöldamörg önnur ákvæði í þessu frv.
    Að því er varðar spurningu sem kom fram um túlkun á bráðabirgðaákvæði frv. get ég í sjálfu sér litlu bætt við þann skýra lagatexta sem þar er. Ljóst er að þau skip sem búið var að semja um með bindandi hætti fyrir 10. nóv. 1991 geta fallið innan þeirra frestsmarka sem þarna eru tilgreind. Lánsloforð ein út af fyrir sig segja hins vegar ekkert um þetta efni, heldur bindandi samningar, enda hafi smíðin verið komin það langt að ekki verði gerðar breytingar sem uppfylli kröfur frv. án verulegs kostnaðarauka.
    Það verður alltaf erfitt að meta markaðsverð afurða, hvort heldur þær eru framleiddar um borð í fiskiskipum eða í landi. Aðalatriðið er það að hér er verið að gera tilraun til þess að koma fram ákvæðum sem tryggja eiga betri og meiri nýtingu hráefnisins um borð í skipunum og um leið að gerðar verði meiri kröfur um gæði afurðanna og aðstöðu til vinnslu um borð. Vissulega jafnar þetta nokkuð starfsskilyrði vinnslu á landi og úti á sjó, en ég tek undir þau sjónarmið að þetta frv. tryggir á engan hátt fullkomið jafnvægi þar á milli. Þar koma mörg önnur sjónarmið til, m.a. skattlagning sveitarfélaga sem oft og tíðum er mismunandi milli fiskvinnslufyrirtækja og skipa sem vinna afla úti á sjó.
    Ég tel mjög mikilvægt að frv. verði að lögum þannig að unnt verði að hrinda ákvæðum þess í framkvæmd. Vissulega er farið inn á nýjar brautir og full ástæða er til þess að meta reynsluna af framkvæmd þessara laga þegar þar að kemur og huga að henni. Að fenginni þeirri reynslu geta menn hugað nánar að frekari breytingum, strangari kröfum eða öðrum þáttum í þessum efnum. Ég ætla ekki að menn sjái fyrir alla þætti málsins fyrir fram. Þróunin verður örugglega ör á þessu sviði þannig að mjög mikilvægt verður að fylgjast með framkvæmdinni og hafa þann sveigjanleika fyrir hendi að geta brugðist við nýjum aðstæðum ef upp koma.
    Ég vil nota tækifærið til þess að þakka hv. sjútvn. og nefndarmönnum fyrir vandaða vinnu við meðferð frv. og almennt góðan stuðning við meginmarkmið þess.