Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:34:09 (5841)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Þeir atburðir sem þessi umræða snýst um urðu í kjölfar þess að aðalfulltrúi Alþfl. í menntamálaráði féll frá. Síðan hefur verið dregið í efa að Alþfl. hafi rétt til þess að kjósa aðalmann í stað þess aðalfulltrúa sem féll frá. Ég skyldi lokaorð hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar á þá leið. Jafnframt hefur lagabrekka og prófessor úr Háskólanum, Sigurður Líndal, dregið þetta í efa.
    Í tilefni af þessu vil ég að það komi fram að ég hef beðið skrifstofu Alþingis að kanna þetta mál og álit hennar er afdráttarlaust að um setu í stjórnum, nefndum og ráðum sem kosin eru af Alþingi gildi sú regla að falli aðalmaður frá eða segi af sér, er kosinn nýr aðalmaður í hans stað. Hafi verið kosinn varamaður gegnir hann störfum aðalmanns frá þeim tíma þegar aðalmaður fellur frá og þar til nýr aðalmaður er kosinn. Þessi regla hefur gilt í áratugi um kosningu manna á Alþingi í stjórnir, nefndir og ráð þótt frá henni hafi verið vikið nokkrum sinnum. Reglunni hefur verið beitt markvisst sl. áratug og mig langar að vitna í ummæli fyrrv. forseta sameinaðs þings, Þorvalds Garðars Kristjánssonar, sem sagði í umræðum 11. maí 1988 þegar verið var að kjósa einn mann í bankaráð Seðlabanka Íslands, með leyfi forseta: ,,Ef maður andast sem hefur verið kosinn aðalmaður í ráð eða nefnd, eða ef maður segir af sér, er venja að kosning fari fram á manni í hans stað.``
    Nú er það svo, virðulegi forseti, að Alþingi kýs í um 40 stjórnir, ráð og nefndir á hverju kjörtímabili. Á kjörtímabilinu 1987--1991 var a.m.k. fimm sinnum kjörinn nýr aðalmaður þótt varamenn hefðu síðan verið kosnir. Á þinginu 1986--1987 voru kosnir samkvæmt þessari reglu aðalmenn í flestar yfirkjörstjórnir. Fleiri dæmi mætti nefna. Þannig má nefna að á yfirstandandi þingi var þessari reglu beitt við kosningu í útvarpsráð og í bankaráð Landsbankans. Það er satt að segja venja er mér tjáð, virðulegi forseti, að aðrir þingflokkar séu ekki að skipta sér af málum sem þessum.
    Jafnframt er nú deilt um það hlutverk Menningarsjóðs að standa sérstaklega að bókaútgáfu. Í lögunum um Menningarsjóð segir í 4. gr. að tekjum sjóðsins skuli varið til bókaútgáfu og á þessu er hert í 7. gr. Ég tel sjálfur að reynslan hafi dæmt þetta fyrirkomulag um leið. Það hefur verið tap á útgáfunni. Ég tel ekki að það sé hlutverk ríkisins að standa fyrir sérstöku bókaforlagi. Hins vegar er allt annað mál, virðulegi forseti, hvort ríkið vill styrkja útgáfu einhverra bóka. Það kemur vel til álita undir vissum kringumstæðum en þá á að mínum dómi að vera alveg klárt að þar er um hreinan styrk að ræða. Ríkið sjálft á ekki að standa fyrir forlagi, það er hrein tímaskekkja.
    Að lokum vil ég klykkja út með því, virðulegi forseti, að ég tel enga hættu á því að góð bók finni ekki útgefanda.