Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:37:00 (5842)


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Það sem einkennir það mál sem nú er til umræðu eru fyrst og fremst gerræðisleg vinnubrögð af hálfu fyrrv. formanns menntamálaráðs sem starfaði í umboði Alþingis. En skv. 6. gr. laga um menntamálaráð er kveðið á um að það sé skipað fimm mönnum. Ráðið skiptir sjálft með sér verkum í byrjun hvers kjörtímabils. Formaðurinn virðist hins vegar starfa samkvæmt fyrirskipunum frá hæstv. ráðherrum.
    Fyrrv. formaður menntamálaráðs ætlaði að leggja Menningarsjóð niður fyrir augunum á stjórn ráðsins án samþykktar hennar og án lagabreytinga á hv. Alþingi. Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 er reynt að marka pólitíska stefnu núv. ríkisstjórnar. Þar kemur fram sú stefna er varðar Menningarsjóð að menntmrn. hafi í hyggju að endurskoða lög um sjóðinn og endurmeta starfsemi hans þar sem yrði m.a. stefnt að því að leggja útgáfufyrirtækið niður á árinu 1992. Þetta er í greinargerð með frv., ekki samþykkt lög frá Alþingi.
    Einnig kemur fram í 6. gr., eins og hér hefur komið fram, að fjmrh. sé falið að semja um ráðstöfun eigna og skulda Menningarsjóðs en að mati umboðsmanns Alþingis nægir fjmrh. ekki þessi heimild til þess að leggja sjóðinn niður. Ekki hefur verið lagt fram neitt frv. á hv. Alþingi um breytingu á lögum um menntamálaráð og því síður samþykkt ný lög um ráðið. Því hlýtur að vera í hæsta máta eðlilegt að meiri hluti stjórnar sjóðsins vilji vinna samkvæmt landslögum og það er einmitt það sem hún hefur verið að reyna að gera þegar hún hefur barist gegn vinnubrögðum fyrrv. formanns. Á þessari stundu ætla ég ekki að fullyrða neitt um að það fyrirkomulag sem nú er í framkvæmd sé það eina rétta í rekstri sjóðsins. En um það snýst málið ekki núna.
    Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að Menningarsjóður hefur staðið fyrir mjög merkri bókaútgáfu og ég er ósammála hv. 17. þm. Reykv. þegar hann segir að allar góðar bækur fái útgefanda. Málið er ekki svo einfalt, hæstv. forseti. Menningarsjóður hefur gefið út ýmsar merkar bækur sem eru íslenskri þjóð mikilvægar og þær hefðu kannski ekki auðveldlega fengið útgefanda.