Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:48:07 (5846)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þær stjórnir og ráð sem kosnar eru af Alþingi hafa algerlega sjálfstæðan rétt til þess að taka ákvarðanir óháð vilja ráðherra eða ríkisstjórnar. Þær stjórnir eða ráð sem fá umboð sitt frá Alþingi starfa samkvæmt því umboði á sjálfstæðan hátt. Þess vegna er mjög sérkennilegt að hæstv. menntmrh. hefur talað í fjölmiðlum síðustu daga eins og hann sé í stöðu til þess að segja menntamálaráði fyrir verkum. Hann hefur ekkert slíkt vald og hefur aldrei haft og er satt að segja mjög merkilegt að menn sem sitja í ríkisstjórn Íslands skuli virkilega telja að þeir hafi vald af þessu tagi. Menntamálaráð er í fullum rétti sem sjálfstætt kjörið ráð af Alþingi Íslendinga til þess að ráða málum sínum.
    Ég verð einnig að lýsa nokkurri furðu minni með ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar vegna þess að ég hélt að það væri ekki um að ræða af hans hálfu slíkan stuðning við sjónarmið menntmrh. og Sjálfstfl. eins og mátti lesa út úr ræðu hans. Í sjálfu sér getur verið aukaatriði með hvaða hætti Alþfl. vill fara með þetta mál, en það er auðvitað alveg ljóst að ef Alþfl. vill eyða vafaatriðum með form, þá kemur hann einfaldlega til þingsins næstu daga og óskar eftir því að Ragnheiður Davíðsdóttir verði kjörin aðalmaður í ráðið á Alþingi. Það er mjög einföld aðferð. Ég vil minna núverandi forustu Alþfl. á að það gerðist t.d. 1971--1974 í útvarpsráði að sá sem Alþfl. kaus þá í útvarpsráð, Stefán Júlíusson, kaus að yfirgefa samfylgd með Sjálfstfl. í því ráði og starfa með fulltrúum Alþb., Framsfl. og Samtökum frjálslyndra og vinstri manna þótt Alþfl. og Sjálfstfl. væru í stjórnarandstöðu. Ég vænti þess að það gildi sams konar frjálslyndi og víðsýni í núv. forustu Alþfl. gagnvart Ragnheiði Davíðsdóttur og gilti í tíð Gylfa Þ. Gíslasonar gagnvart Stefáni Júlíussyni.
    Ég vil svo minna hv. Alþingi á það að lokum að fjárhagsvandi Menningarsjóðs stafar af mjög einfaldri ástæðu. Það er þjóðhátíðin á Þingvöllum 1974, sem Alþingi beitti sér fyrir var haldin með þeim hætti að gefa átti út minningarbók um þá hátíð. Meiri hlutinn á Alþingi þá beitti sér fyrir þeirri útgáfu. Hún var mjög dýr og kostnaðarsöm. Þetta hátíðarrit sem Alþingi vildi láta gefa út seldist hins vegar ekki. Það er meginástæðan fyrir fjárhagsvanda Menningarsjóðs.