Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 15:51:13 (5847)


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Aðförin að menntamálaráði er náttúrlega ekkert nema lögleysa. Heimildin í 6. gr. er auðvitað bundin því skilyrði að lagabreyting hafi farið fram áður svo hægt sé að beita þessari heimild í 6. gr. fjárlaga. Hún hefur í sjálfu sér ekkert gildi til að afnema lög í landinu. Það er eiginlega fáránlegt að hugsa sér að menntmrh., sem er prúður og góður maður og meira að segja löglærður, skuli vilja beita þessari aðferð. Ef hann vildi leggja viðkomandi stofnun niður varð hann auðvitað að flytja um það frv. Verkáætlanir ríkisstjórnarinnar breyta engu þar um. Þær hafa ekki lagagildi. Þar fyrir utan er náttúrlega ákvörðunin um að leggja bókaútgáfuna niður röng. Þessi bókaútgáfa hefur unnið stórvirki á undanförnum áratugum. En þetta er dæmigert fyrir einkavæðingarflipp þessarar ríkisstjórnar. Þarna er verið að leggja niður merkilega starfsemi á vegum ríkisins til þess að rýma til og afhenda eigur hennar kolkrabbanum. Hvert haldið þið að Orðabók Menningarsjóðs fari? Mér þykir ótrúlegt annað en Almenna bókafélagið eigi eftir að koma þar við sögu.
    Ég vil finna, frú forseti, að orðaleppum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar sem hann uppnefnir prófessor Sigurð Líndal og kallar hann lagabrekku í einhverju háðungarskyni. Ég held, þó að menn séu kannski ósammála Sigurði Líndal prófessor um einhver atriði, að þá eigi ekki að nota ræðustól á Alþingi til þess að reyna að skensa hann.
    Það er náttúrlega orðið vesælt hlutverk Alþfl. þegar hann lætur bjóða sér það að sjálfstæðismenn ákveði hvaða kratar sitji í nefndum fyrir hönd Alþingis. Það var menntmrh. sem ákvað að Ragnheiður Davíðsdóttir skyldi hverfa úr ráðinu og tilkynnti það. Þetta eru náttúrlega skýr skilaboð til þessa Birtingarliðs sem þyrpist inn í Alþfl. (Forseti hringir.) Þetta eru skýr skilaboð frá Sjálfstfl. og Alþfl. og ég veit ekki hvenær klukkan glymur hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sjálfum.