Málefni menntamálaráðs

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 16:05:11 (5852)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að það væri ekki á færi ráðherra að leggja bókaútgáfuna niður. Það vill svo til að ráðherra stendur ekki einn að þessu máli. Ráðagerðir sem greint er frá í fjárlagafrv. og ég taldi upp í fyrri ræðu minni og svo í fjárlögunum sjálfum hafa verið samþykktar af meiri hluta Alþingis. Samkvæmt því var verkáætlun gerð og eftir henni hefur verið unnið frá áramótum. Þess vegna á það ekki að koma neinum á óvart sem hér er að gerast og er ekki dæmi um að ríkisstjórnin sé að gera það sem henni þóknast eins og hv. þm. Kristín Einarsdóttir komst að orði.

    Vegna orða hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar vil ég benda honum á að hann ætti að lesa lögin um Menningarsjóð og menntamálaráð. Þau eru að vísu um margt mjög svo úrelt en þar er í ýmsum greinum beinlínis skilyrt að samþykki menntmrh. þurfi til þess að ýmsar ákvarðanir menntamálaráðs öðlist gildi.
    Hv. þm. Páll Pétursson sagði að lagabreytingu þyrfti áður en bókaútgáfan yrði lögð niður. Ég sagði í ræðu minni áðan að það væri síðasti punkturinn í verkáætluninni, að breyta lögum. Það sem hefur verið gert til þessa er fullkomlega löglegt og í samræmi við vilja Alþingis. Dylgjur hv. þm. um það hvert Orðabók Menningarsjóðs fari þykja mér ósmekklegar í hæsta máta. Ég veit að vinnuhópurinn sem að þessu hefur unnið hefur reiknað með að bjóða þær eignir til sölu sem enn eru eftir hjá Menningarsjóði.
    Bókaútgáfa verður auðvitað ekki stunduð nema til þess séu fjármunir og í þessu tilviki er ekki um fjármuni að ræða. Það ákvað Alþingi. Svona einfalt er þetta. Eins og ég sagði hefur verið unnið eftir ákveðinni verkáætlun með að hætta þessari bókaútgáfu. Það er ekki nauðsyn á ríkisforlagi lengur. Það er ekkert sem mælir með því að ríkisforlag sé hér til. Ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði að styrkir af hálfu ríkisins kæmu vel til greina og þeir hafa verið veittir. Ég nefni sem dæmi myndarlega styrki sem voru veittir vegna útgáfu bókaforlagsins Arnar & Örlygs á Alfræðiorðabókinni. Fyrrv. ríkisstjórn lofaði þar 6 millj. kr. og núv. ríkisstjórn staðfesti þá ákvörðun.