Lífeyrissjóður sjómanna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:33:38 (5870)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Hér er svo sannarlega um mikilvægt frv. að ræða og ég tek undir þá ósk hv. 14. þm.

Reykv. um að umræðunni ljúki ekki nema tækifæri gefist til skoðanaskipta við fulltrúa sjómanna, sem við erum svo heppin að hafa á Alþingi.
    Í frv. er augljóslega verið að skerða lífeyrisréttindi sjómanna vegna þess að í athugasemdum við lagafrv. þetta stendur á bls. 3 að þær breytingar sem lagðar eru til á bótarétti sjóðfélaga miði aðallega að því að draga úr útgjöldum sjóðsins. Þetta á við um breytingu á ákvæði um örorkulífeyri, en á honum hefur orðið gífurleg aukning á síðustu árum, svo og barnalífeyri til örorkulífeyrisþega.
    Ég vil, eins og hv. 14. þm. Reykv., beina því til þeirrar nefndar sem fær frv. til skoðunar að láta gera rækilega úttekt á því í hverju skerðingarnar eru fólgnar, hve miklar þær eru og á hverjum þær bitna. Ég vil gjarnan beina því til hæstv. ráðherra hvort slík úttekt hefur verið gerð eða hvort hún fylgir.
    Það er nú svo að til skamms tíma voru lífeyrisréttindi sjómanna með þeim hætti að þau voru til háborinnar skammar í þjóðfélaginu. Nokkur bragarbót var gerð en hins vegar var það líka svo að sjómannafrádrátturinn, margumtalaði, var hugsaður til þess að koma nokkuð á móts við þetta misrétti. Nú er búið að skerða hann með lögum frá þinginu, það er eitt af afrekum stjórnarliðsins í vetur og síðan kemur slíkt frv. í kjölfarið.
    Ég verð nú að segja það og taka undir með hv. 14. þm. Reykv., að það eru heldur kaldar kveðjur sem sjómenn fá úr stjórnarherbúðunum.
    Ég tek undir að sjómannsstarfið er bæði erfitt og hættulegt og get rétt upp tvo fingur til vitnis um það. Það er svo sannarlega svo, þó ég hafi sloppið tiltölulega vel, að sú nýja tækni sem rutt hefur sér til rúms til sjós hefur gert það að verkum að margir búa við mjög varanlega örorku. Það skýtur skökku við ef þau réttindi eru skert, sem hlýtur að vera úr því að draga á úr þeim útgjöldum sem til þeirra bóta fara.
    Ég ætla ekki að taka frv. til efnislegrar umræðu hér, það fer til efh.- og viðskn. En ég tek eindregið undir þá ósk að umræðunni ljúki ekki í kvöld án þess tilefni gefist til skoðanaskipta við þá sem ekki eru viðstaddir.