Lífeyrissjóður sjómanna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:38:28 (5871)



     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ef það er eindregin ósk hv. þingmanna að málið verði rætt á næsta þingfundi þá er það mér að meinalausu. Ég ítreka það að frv. er flutt að frumkvæði stjórnar lífeyrissjóðsins. Í stjórninni sitja bæði útvegsmenn og sjómenn og mér finnst gæta nokkurs misskilnings hjá hv. þingmönnum, einkum og sér í lagi hv. 14. þm. Reykv. Við verðum nefnilega að muna eftir því að þannig er með flestalla lífeyrissjóði landsmanna að tekjur þeirra standa undir útgjöldunum. Það er einfalt fyrir okkur sem eru opinberir starfsmenn að viðhalda og gera kröfur til lífeyrisréttinda okkar, en það kann að vera nokkuð flókið að reka lífeyrissjóði þegar kemur í ljós að þeir eru reknir með halla ár eftir ár. Sá halli hlýtur fyrr eða síðar að leiða til þess að þeir sem greiða í lífeyrissjóð núna hljóta að sætta sig við skertan rétt þegar að þeim kemur. Það er einu sinni þannig að lífeyrissjóðirnir eru sjóðir sem eiga að standa straum af kostnaði þegar fólk kemst á eftirlaunaaldur og til viðbótar að liðka til með bótagreiðslum til þeirra sem hafa orðið fyrir orkutapi í starfi.
    Lífeyrissjóður sjómanna hefur verið rekinn með halla á undanförnum árum. Stjórn sjóðsins, sem er kosin bæði af sjómönnum og útvegsmönnum, leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á ákvæðum laga um sjóðinn. Sumar þeirra eru til þess að auka rétt viðkomandi en aðrar breytingar tilraun til þess að draga úr rétti. En ég vek athygli á því að um er að ræða að miðað við almenn störf í vissum tilvikum fremur en sjómannsstörf og eins og margoft hefur komið fram, þar á meðal í ræðum hv. þingmanna, a.m.k. hv. 14. þm. Reykv., þá gerist það ekki allt í einu því að gert er ráð fyrir því að nokkur aðdragandi verði að því máli.
    Svo vill til að ég er einungis handlangari þessara manna, þetta þarf að vera lögbundið. Gert er ráð fyrir í 1. gr. að hægt sé að koma sjóðnum fyrir annars staðar en hjá Tryggingastofnun ríkisins, væntanlega til þess að gera reksturinn ódýrari. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að aðrir en Ríkisendurskoðun geti endurskoðað reikninga sjóðsins eins og gerist um flestalla almenna sjóði.
    Ég er sammála hv. þingmönnum um það að full ástæða er til þess að nefndin skoði þetta frv. vel og afli sér sem bestra upplýsinga. Ég bendi á að sé um vanskil iðgjalda að ræða þá eru til réttarúrræði til þess að ná inn því fjármagni sem sjóðnum ber. Sú var tíð að ástand í lífeyrismálum sjómanna var ákaflega misjafnt eftir því hvort um togarasjómenn var að ræða eða aðra sjómenn. Fleiri hafa verið á togurum en þeir sem hingað til hafa talað og hafa reyndar gert það án þess að missa framan af fingri, borgað í sjóðinn en njóta hins vegar engra réttinda úr honum enda skiptir það ekki höfuðmáli. Ég vil benda hv. þm. sem talaði síðast að menn í hans flokki hafa sumir hverjir ekki þurft að fara út á sjó til þess að missa framan af fingri. Það er því ekki einungis bundið við sjómennskuna eins og ég veit að hv. þm. veit og skal ég ekki nefna nokkur dæmi í þeim efnum, en ég veit að hv. þm. þekkir a.m.k. eitt dæmi úr sínum þingflokki.
    Það sem skiptir máli í þessu sambandi, og það er í raun og veru það eina sem skiptir verulegu máli, er að ákveðnar tekjur renna til sjóðsins og þær tekjur byggjast á kjarasamningum. Það kemur í ljós að þær tekjur hafa rýrnað stórkostlega og koma til með að rýra rétt þeirra sem eiga að fá greitt úr sjóðnum í framtíðinni nema að reglunum verði breytt. Reglur um bótarétt og úthlutun úr lífeyrissjóðnum hafa

verið að breytast í tímans rás. Bæði sjómönnum og útvegsmönnum sem stjórna þessum sjóði finnst eðlilegt að viðmiðunarreglum sé breytt eins og gert er ráð fyrir og að hægt sé að ávaxta sjóðinn með öðrum hætti en hingað til hefur verið gert. Í trausti þess að sameiginleg niðurstaða þeirra sé sjóðnum fyrir bestu hef ég fallist á að flytja þetta frv. Mér þykir jafnframt sjálfsagt að verða við þeim óskum sem hafa komið fram um að umræðan haldi áfram þegar hv. 16. þm. Reykv. er viðstaddur. Eins tek ég undir það að nefndin kanni þetta mál rækilega og afli sér þeirra upplýsinga sem þarf hjá þeim aðilum sem bera ábyrgð á þessum lífeyrissjóði.
    Að svo mæltu vil ég ítreka óskir mínar um það að að lokinni umræðunni, sem ekki verður í kvöld, verði frv. sent til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. sem fjallar um lífeyrismál á borð við þetta og hefur gert það fyrr í vetur og forveri þeirrar nefndar um margra ára skeið.