Nefnd til að endurskoða útvarpslögin

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:01:00 (5887)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég er reyndar í dálitlum vandræðum vegna þess að í morgun fékk ég þau skilaboð að hæstv. menntmrh. yrði viðstaddur og hann var reyndar í salnum þegar ég stóð upp og bað um orðið en nú fæ ég ekki betur séð en hann sé floginn. Það er erfitt stundum að halda ráðherrunum í stólunum. Er ráðherra í húsinu eða er hann ekki hér til viðræðu í fyrirspurnatímanum? --- Nú, ráðherrann er kominn.
    Það sem ég ætlaði að spyrja út í er frétt í Tímanum í dag um nefnd sem ráðherra hefur sett á laggirnar til að endurskoða útvarpslögin. Í fréttinni segir að nefndin sé svo skipuð að í henni eigi sæti Tómas Ingi Olrich alþm., Baldvin Jónsson útvarpsstjóri, Guðni Guðmundsson rektor, Hjálmar Jónsson prófastur, Jóhann Óli Guðmundsson forstjóri, Rannveig Guðmundsdóttir alþm. og Sólveig Pétursdóttir alþm.
    Síðan segir í þessari frétt: ,,Meðal viðfangsefna hennar er að skilgreina hlutdeild ríkisins í útvarpsrekstri og athuga hvernig tryggja megi sem jafnasta aðstöðu ljósvakamiðla. Einnig á nefndin í störfum sínum að leggja áherslu á að ný löggjöf taki tillit til tækniþróunar og aðildar Íslendinga í alþjóðasamningum og samstarfi. Nefndinni er sérstaklega ætlað að leita leiða til að efla innlenda dagskrárgerð.``
    Ég verð að segja að nöfn þeirra sem þarna eru á blaði og eiga að vinna verkið vöktu furðu mína og ég hlýt að spyrja hvernig valið hafi verið í þessa nefnd. Ég sé reyndar að þarna eru tveir úr útvarpsráði, einn frá hvorum stjórnarflokki, þarna eru þrír þingmenn, tveir sjálfstæðismenn og einn alþýðuflokksmaður og svo eru þarna tveir karlmenn að auki, útvarpsstjóri nokkur og einhver forstjóri. Nú þætti mér gaman að vita hverra fulltrúar þeir tveir eru.
    Það vekur líka furðu mína að þarna er enginn fulltrúi starfsmanna Ríkisútvarpsins né heldur stjórnenda stofnunarinnar og ég vil spyrja hvernig á þessu standi. Af hverju eru þeir sem hafa puttann á púlsinum í þessari viðamiklu menningarstofnun ekki kallaðir til að semja slíkt frv.?