Nefnd til að endurskoða útvarpslögin

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:03:00 (5888)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það skýri sig nokkuð sjálft og ég held að hv. þm. hafi skýrt nægjanlega hvernig hefur verið valið í nefndina. Þeir sem þarna eru eru ekki fulltrúar neins nema þess sem skipar þá. Það var ekki óskað eftir tilnefningum, en þarna eru tveir sem eiga sæti í útvarpsráði, það eru tveir sem geta talist fulltrúar frá einkareknum útvarpsstöðvum, þótt ekki sé óskað eftir tilnefningum þaðan og síðan þrír alþingismenn. Ég leitaðist við að skipa í nefndina menn sem hefðu komið að útvarpsrekstri, bæði að því er tekur til Ríkisútvarpsins og einkarekinna stöðva þannig að sjónarmið beggja mættu koma fram, og síðan þrjá alþingismenn.
    Auðvitað kom til greina að óska eftir tilnefningum í nefndina og þá frá Ríkisútvarpinu sjálfu sem stofnun en ekki frá útvarpsráði og eins kom auðvitað til greina að óska eftir tilnefningum frá starfsmannafélögum þessara stofnana en ég hvarf frá því eftir vandlega íhugun og skipaði nefndina með þessum hætti sem þarna kemur fram.