Nefnd til að endurskoða útvarpslögin

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:04:48 (5889)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég hef fengið staðfestingu á því í svörum ráðherra að þarna er um beina pólitíska nefndarskipan að ræða og ekki virðist vera markmiðið með henni að reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um þessa merku menningarstofnun sem Ríkisútvarpið er og vegur mjög þungt inni í útvarpslögum.
    Mig langar í því sambandi að nefna að nú er verið að endurskoða stefnuna í sjávarútvegsmálum. Þar kemur stjórnarandstaðan hvergi að. Verið er að endurskoða grunnskóla- og framhaldsskólalögin og gera þar greinilega mikla stefnubreytingu. Þar kemur stjórnarandstaðan hvergi að. Það á að endurskoða útvarpslögin. Stjórnarandstaðan á hvergi að koma þar nærri. Hún á enga fulltrúa í þessari endurskoðun og það er greinilega ekki ætlun þeirra manna sem ráða núna að ná pólitískri samstöðu um eitt eða neitt. Ég furða mig á þessum vinnubrögðum og mér finnast þau gamaldags og úr sér gengin. Eigum við að búa við það að nýr ráðherra komi á fjögurra ára fresti, skipi í sínar pólitísku nefndir til þess að endurskoða mikilvæg lög frá grunni? Alltaf komi nýr ráðamaður í þessa stofnun, endurskoði lög og því sé varla lokið þegar það eru kosningar, nýr maður kemur og setur nýja nefnd og endurskoðar að nýju. Þetta er algjörlega óviðunandi ástand að búa við og þetta er gamaldags þankagangur, gamaldags pólitískur þankagangur.