Hagsmunir íslensks landbúnaðar og EES-samningurinn

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:24:10 (5900)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil eiga orðastað við hæstv. landbrh. Okkur hefur verið sagt að hvað landbúnað á Íslandi varðar, þá skipti EES-samningur fremur litlu og í 5. gr. bókunar 3, viðbæti við bókun 3, eru talin upp nokkur undantekningarákvæði er varða Ísland. Þá er það tekið fram að hér sé um að ræða bráðabirgðafyrirkomulag sem samningsaðilum beri að taka til endurskoðunar fyrir árslok 1998. Síðan segir í lið 2 í þessari grein:
    ,,Að því er Ísland varðar skal það hámark verðjöfnunarfjárhæða sem lagðar eru á við innflutning og gert er ráð fyrir í 9. gr. bókunarinnar ekki gilda um Ísland vegna vara`` í tollflokkum og sem síðan eru taldir, en síðan segir að gjöld sem lögð eru á við innflutning til landsins skuli þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning frá samningsaðilum árið 1991.
    Nú vill svo til að árið 1991 voru alveg hverfandi lítil gjöld lögð á og ég get ekki lesið annað út úr þessu en að Íslendingum sé meinað að beita þarna jöfnunargjöldum eða innflutningstollum. Það vekur líka athygli að í 9. gr., þar sem talað er um hámark verðjöfnunarfjárhæða, segir svo að samningsaðili skuli ekki leggja á afurð frá öðrum samningsaðila breytilegt verðjöfnunargjald sem er hærra en tollur eða fastagjald sem hann lagði á afurð samningsins 1. jan. 1992. Þetta á einnig við hafi tolli eða fastagjaldi verið stýrt með tollkvóta en ekki hafi afurðin heyrt undir verðjöfnunaraðgerðir 1. jan. 1992, auk tollsins eða fastagjaldsins.
    Það er ósamræmi í þessum dagsetningum. Annars vegar er miðað við að á Íslandi megi gjöldin

ekki vera hærri en 1991, en annars staðar er miðað við 1. jan. 1992. Því vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Telur hann að hagsmuna Íslands við samningagerðina hafi í þessu efni verið gætt með eðlilegum hætti? Og hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við til varnar eðlilegum hagsmunum landbúnaðarins og í samræmi við það sem okkur hefur verið sagt fram að þessu um landbúnaðarþátt þessa samnings?