Hagsmunir íslensks landbúnaðar og EES-samningurinn

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:30:23 (5902)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það hefði sjálfsagt verið nærgætnislegt að ræða þetta við ráðherrann en ég reiknaði nú með að honum væri landbúnaðarþáttur þessara samninga sæmilega kunnur. Ég held að það hafi verið röng ákvörðun að sækja ekki fundi um landbúnaðarmálin og fylgjast með því sem þar var að gerast og ég vil biðja ráðherra að setjast yfir þetta mál með starfsmönnum sínum til þess að kanna hvað til varnar má verða.
    Hæstv. landbrh. taldi að hann og hans menn hefðu náð fram þeim atriðum sem mikilvægust væru. Ég er ekki viss um það, og a.m.k. hafa þau ekki náðst öll, vegna þess að betur væru þessar línur ekki festar á blað, þ.e. þessi ákvæði um að banna okkur að leggja jöfnunargjöld á innfluttar landbúnaðarvörur.
    Það er svo sorglegt til þess að vita að sú landbúnaðarpólitík sem við rekum hér á Íslandi --- og ekki bara landbúnaðarpólitík, heldur það að fella niður niðurgreiðslur og útflutningsbætur --- passar ákaflega illa við það sem er að gerast í samningum bæði um EES og GATT. Þannig að þó að menn hafi í góðri trú hér reynt að endurskipuleggja landbúnaðinn og viljað færa þar til þæginda fyrir ríkið, þá stemmir þetta bara ekki við það sem aðrar þjóðir hafa gert og þar af leiðir að okkur er mjög torvelt að gerast aðilar að þessum alþjóðasamningum að óbreyttri landbúnaðarpólitík.
    Ég sé ekki betur en að hér hafi verið settur varnagli sem kemur Íslendingum ákaflega illa og ég vil í fullri alvöru biðja hæstv. landbrh. að fara vandlega ofan í þetta mál með starfsmönnum sínum og í fyrsta lagi reyna að gera sér grein fyrir því hvað hættan er mikil og í öðru lagi reyna að finna einhver ráð sem til varnar mættu verða.