Greiðslur úr ríkissjóði

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 15:21:15 (5907)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Frv. það sem hér er til umræðu og flutt er af nefndarmönnum hv. fjárln. miðar að því að styrkja framkvæmd fjárlaga. Svigrúm framkvæmdarvaldsins til athafna hefur iðulega verið talið meira en góðu hófi gegnir þó svo flestir séu sammála um það að gæta þurfi líka að því að löggjafinn fari ekki út yfir eðlileg mörk í afskiptum af framkvæmdarvaldinu. Það markar vissulega tímamót að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna skuli standa að frv., enda hefur þetta mál fengið ítarlega umfjöllun allt frá árinu 1988.

    Ég sé ástæðu til að taka til máls um frv. því að í því eru fjmrh. lagðar ýmsar skyldur á herðar og eðli máls samkvæmt er hann sá aðili sem mest samskipti á við Alþingi um fjárlagamál. Í upphafi máls míns vil ég fara nokkrum orðum um ýmis almenn atriði og anda frv. Síðan kem ég að ákvæðum nokkurra mikilvægra greina þess. Öll þessi atriði munu ugglaust koma til umræðu í nefnd þegar frv. kemur þangað til frekari vinnslu.
    Engum blöðum er um það að fletta að óheimilt er að greiða úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum eða öðrum lögum. Eins og allir vita hefur í tímans rás gengið misjafnlega að framfylgja þessu ákvæði stjórnarskrárinnar. Skýringarnar á því eru eflaust margar. Að nokkru leyti má rekja það til viðvarandi verðbólgu og vandamála í fjármálastjórn sem því fylgir. Því tíðkuðust um áraraðir svokallaðar aukafjárveitingar fjmrh. þar sem hvorki var stuðst við almenn fyrirmæli í lögum né skráðar heimildir. Á síðari árum hefur þetta fyrirkomulag verið gagnrýnt, bæði innan þings sem utan og nú má segja að aukafjárveitingar hafi lagst af, enda aðstæður til fjármálastjórnar allt aðrar en var á árum áður. Því má segja að margt af því sem frv. er ætlað að ná sé nú þegar komið til framkvæmda. Ákvæði frv. gera þetta í ýmsum atriðum þó enn skýrar.
    Fyrst er til að taka að almennt mun viðurkennt að samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds eru um margt óskýr og hefur það með réttu sætt gagnrýni. Þetta á við á öðrum sviðum en þeim er lúta gagngert að fjárlögum og heimild til fjárgreiðslna. Mér kemur m.a. í hugann skipan manna í stjórnir og ráð. Ef nefnd eru dæmi má minna á bankastjórnir, stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, stjórnir verksmiðja á vegum ríkisins o.s.frv. Hjá því getur tæpast farið að hagsmunaárekstrar verði milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins við slíkar aðstæður. Oft og tíðum er alls ekki ljóst hvorum húsbóndanum skal hlýða, löggjafanum eða framkvæmdarvaldinu. Mér sýnist að frv. sé ekki sérstaklega til þess fallið að skerpa línur milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og er það miður.
    Í mínum huga ber löggjafanum fyrst og fremst að setja almennar reglur um framkvæmdarvaldsmálefni og hafa eftirlit með því að eftir þeim sé farið en forðast bein afskipti af sjálfri framkvæmdinni. Með sama hætti og framkvæmdarvaldið hefur e.t.v. tekið sér vald umfram það sem lög og stjórnarfarsreglur heimila, þá þarf líka að vara við því að löggjafarvaldið vefjist svo mikið inn í framkvæmdarvaldsmálefni að eftirlit þess og aðhald með framkvæmdarvaldinu verði óvirkt.
    Annað atriði af almennum toga sem ég vil nefna er að til álita hefur komið hvort setja eigi sérstök lög um greiðslur úr ríkissjóði eða að öðrum kosti að fella ákvæði frv. inn í gildandi lög nr. 52/1967, um bókhald og gerð ríkisreiknings og fjárlaga. Þó hér sé ekki um grundvallaratriði að ræða telur fjmrn. eðlilegra að ákvæði frv. séu felld að núgildandi lögum um sama efni og að í þau lög verði skeytt nýjum kafla um greiðslur úr ríkissjóði og fleira. Að þessu sjónarmiði hníga ýmis rök.
    Á síðustu missirum hefur gerð ríkisreiknings og fjárlaga verið mjög mikið til umfjöllunar. Fyrrv. fjmrh. setti af stað umfangsmikla athugun á ýmsum þáttum er að ríkisreikningi og fjárlögum lúta og er unnið að þessu í svonefndri ríkisreikninganefnd. Í þeirri nefnd sitja fulltrúar allra helstu hagskýrslustofnana ríkisins svo sem Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, Hagstofu, Ríkisendurskoðunar og fjmrn. Ýmsar breytingar hafa nú þegar verið gerðar á ríkisreikningi í kjölfar þessarar vinnu en heildstæð mynd af öllum þeim breytingum sem menn telja að þurfi að komast á er ekki enn komin fram. Strax á næsta ári hefur verið boðað að framsetningu fjárlagafrv. verði breytt þar sem fram komi jöfnum höndum yfirlit yfir greiðslur úr ríkissjóði og skuldbindingar sem ríkissjóður tekst á hendur.
    Einnig hef ég mælst til þess við ríkisreikningsnefnd að vinnunni verði hraðað þannig að í fjárlagafrv. fyrir árið 1993 verði gjöld og tekjur ríkissjóðs flokkuð sem mest í hátt við alþjóðlegar reglur. Þetta þýðir m.a. að ýmsir útgjaldaþættir ríkisjóðs sem til þessa hafa dregist frá tekjum og tekjulið fjárlaga koma nú til gjalda. Þannig verður þingheimi gerð fyllri grein en áður fyrir hver hin raunverulegu útgjöld eru og til hvaða verkefna þau renna og með sama hætti hverjar hinar eiginlegu tekjur ríkissjóðs eru.
    Ég hef aðeins nefnt tvö atriði sem endurskoðunin tekur til en málið er flókið og að mörgum sjónarmiðum þarf að hyggja. Því er það viðhorf ráðuneytisins að ákvæði um greiðslur úr ríkissjóði verði best komin sem hluti af þeirri heildarlöggjöf. Það skal þó tekið fram að frv. var unnið með þeim hætti að fjmrh. kom að málinu og um það var samið að frv. yrði flutt með þeim hætti sem það hefur nú verið gert þótt að mínu viti hefði verið heppilegra að hafa annan hátt á eins og ég veit reyndar að hv. fjárln. er vel kunnugt um.
    Þriðja atriðið af almennum toga sem ég tel nauðsynlegt að geta um tekur til ýmissa heimildarákvæða sem Alþingi hefur veitt fjmrh., einkum og sér í lagi í 6. gr. fjárlaga og fyrirmæla sem fjárln. gefur framkvæmdarvaldinu. Hv. fjárlaganefndarmenn og aðrir hv. þm. þekkja vel að í 6. gr. fjárlaga hefur iðulega verið leitað heimilda til umfangsmikilla útgjalda fyrir ríkissjóð. Ýmis málefni sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum fjárveitingavaldsins í fjárlögum eða ágreiningur og vafi hefur leikið á um hafa verið tekin upp í 6. gr. fjárlaga. Með þessum hætti hefur fjmrh. verið eftirlátið að ákvarða mikilvæg mál sem Alþingi hefur ekki treyst sér til að taka afstöðu til. Þannig hefur verið lagt í framkvæmdir og uppgjör farið fram langt umfram þau mörk sem fjárveiting vegna 6. gr. hefur rúmað.
    Ég hygg að ég tali fyrir munn allra fyrrv. fjmrh. að þeir hafi ekki hvatt til notkunar 6. gr. heimildarinnar. Ég þekki það frá sl. ári að fjölda óska var hafnað um heimildarákvæði í 6. gr. á undirbúningsstigi fjárlaga. Eigi meiri agi að nást en þetta frv. stefnir að ætti eðli máls samkvæmt að fella niður eða takmarka notkun 6. gr. mjög mikið frá því sem nú er. Þar sem ekkert er tekið á þessu málefni í frv. tel ég að taka þurfi það til sérstakrar skoðunar.
    Að gefnu tilefni vil ég fjalla nokkrum orðum um boðvald fjárln. um eitt málefni fjárlaganna, þ.e. ráðstöfun fjármuna í svonefndum safnliðum. Fjmrn. hefur unnið markvisst að því að auka ábyrgð einstakra ráðuneyta í fjármálum hvert á sínu sviði. Í stórum dráttum held ég að ekki hefði tekist jafnmikil samstaða í hæstv. ríkisstjórn um aðhald og samdrátt í fjárveitingum ef þetta væri ekki. Því tel ég menn hér vera á réttri braut. Hitt er aftur á móti verra og kann að valda erfiðleikum ef fjárln. eykur afskipti af einstökum málefnum og fjárframlögum til þeirra því að það stangast á við þá viðleitni sem nú er uppi um ábyrgð einstakra ráðuneyta. Þetta nefni ég því dæmi eru um það að fjárln. hafi gefið ráðherrum ákveðin fyrirmæli um ráðstöfun safnliða til málefna sem ráðherra er ósáttur við og einnig að nefndin hafi tilkynnt viðtakendum um fjárframlög án nokkurrar aðildar hlutaðeigandi ráðherra og ráðuneytis sem þó fer með ábyrgðina á þeim málaflokki og ber fulla ábyrgð á viðkomandi skiptingu. Hér sýnist mér að nefndin hafi jafnvel farið út fyrir þau valdmörk sem henni eru ætluð en þess skal getið að þessi háttur hefur verið hafður á um áratuga skeið.
    Ég sný mér nú að athugasemdum og umfjöllun um einstakar greinar frv. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um þær allar, enda hefur það verið gert allítarlega í framsögu hv. formanns fjárln. Ég vil þó ekki láta hjá líða að víkja að örfáum atriðum sem fulltrúar fjárln. og fjmrn. hafa skipst á skoðunum um.
    1. og 2. gr. frv. taka til heimilda til fjárskuldbindinga fyrir ríkissjóð. Í 2. mgr. 1. gr. er allur vafi tekinn af um það að meginreglan sé sú að fjárgreiðsla sé óheimil umfram það sem ákveðið er í fjárlögum né heldur fjárskuldbinding ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem felur í sér aukið rekstrarumfang frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Litið er svo á að ekki sé nægjanlegt að almenn lög heimili að skuldbinda ríkissjóð heldur verði og að afla heimilda í fjárlögum eða fjáraukalögum til greiðslu.
    Gagnlegt er að tvímæli séu tekin af í þessu efni og má segja að þetta ákvæði sé í fullu samræmi við ákvæði um lántöku, þ.e. að í lánsfjárlögum skuli leita nauðsynlegra heimilda til lántöku hvers árs um sig jafnvel þó að í sérlögum kunni að vera opnar heimildir til lántökunnar.
    Hitt er svo að samningar eru af ýmsu tagi. Mér þykir rétt að gera sérstaka grein fyrir ákvæðum kjarasamninga ríkisins. Eðli máls samkvæmt fela þeir í sér fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð, ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki þó svo að öllu jöfnu sé þeim ekki ætlað að hafa áhrif á rekstrarumfang stofnana. Ríkisstjórnin er sá aðili sem mótar efnahagsstefnu á hverjum tíma og ber henni því jafnan að tryggja að gerð kjarasamninga verði innan rýmilegra marka. Bent skal á að kjarasamningar við félög opinberra starfsmanna eru nú á annað hundrað. Þeir samningar eru á ábyrgð fjmrh. og tengjast iðulega samningum á hinum almenna vinnumarkaði. Í þessum kjarasamningum er í rauninni hornsteinn þeirrar efnahagsstefnu sem ríkisstjórn á hverjum tíma stendur að. Ég vara því við ákvæðum er takmarka vald fjmrh. til kjarasamninga því að það mun valda erfiðleikum við samningsgerðina, einkum og sér í lagi ef ráðherra er ekki talinn hafa fullt umboð til hennar. Fjmrh. þarf að hafa fullt og óskorað vald til þess að gera kjarasamninga, en að sjálfsögðu hvílir sú skylda að leita nauðsynlegra fjárheimilda í fjárlögum eða fjáraukalögum til greiðslu í samræmi við gerða kjarasamninga. Ákvæði 2. gr. eru í sjálfu sér óþörf í þessu ljósi.
    Ástæða er til að fara nokkrum orðum um ákvæði 3. gr. frv. Samkvæmt þessari grein er ríkissjóði, stofnunum ríkisins og fyrirtækjum óheimilt að selja, kaupa, skipta eða leigja til langs tíma eignir sem telja má verulegar nema samkvæmt lagaheimild hverju sinni. Með þessum hætti er leitast við að tryggja að hvorki sala á veigameiri eignum ríkisins né kaup, skipti eða leiga á slíkum eignum eigi sér stað án samþykkis Alþingis fyrir viðskiptunum. Liggi slík heimild ekki fyrir verður væntanlega að semja um viðskiptin með fyrirvara um samþykki Alþingis. Eins og allir vita hefur þmfrv. verið flutt um þetta efni í vetur og þetta var að sjálfsögðu í þeim frumvörpum sem flutt voru á fyrri þingum.
    Eins og menn þekkja hefur fjmrh. á hverjum tíma æðimikið vald til að fjalla um og fara með það sem kallað eru lausafjármunir. Til lausafjármuna teljast ýmsar skammtímakröfur, m.a. hlutabréf. Því getur fjmrh., út á hina almennu heimild, selt hlutabréf án beinnar aðildar Alþingis hverju sinni. Með ákvæðinu eins og það er í 3. gr. er í raun tekið fyrir þetta. A.m.k. verður ekki gengið frá sölu eigna af hvaða tagi sem er án fyrirvara um samþykki Alþingis, hafi heimildar ekki verið leitað fyrir fram. Þetta ákvæði má vera gagnlegt þó svo að bókstafstúlkun muni óhjákvæmilega gera fjmrh., einstökum ráðherrum, forstöðumönnum stofnana og forstjóra fyrirtækja oft og tíðum erfitt um vik.
    Í samræmi við megintilgang frv. er í 4. og 5. gr. þess lagt til að allar sértekjur A-hluta stofnana og sölutekjur B-hluta fyrirtækja fái mun ákveðnari umfjöllun en verið hefur til þessa. Almenna reglan er sú að stofnanir og fyrirtæki megi ekki ráðstafa tekjum umfram áætlun að eigin vild. Fjmrh. getur þó heimilað ríkisstofnunum að ráðstafa öllum eða hluta teknanna til eigin þarfa, þó aldrei til eigin framkvæmda eða ráðstafana sem leiða þegar í stað eða síðar til aukinna rekstrarútgjalda. Svipuðu máli gegnir raunar um tekjur sem B-hluta fyrirtæki kunna að afla og þurfa á að halda til að standa undir rekstri eða efla hann. Á það skal fullkomlega fallist að það þarf að setja mun skýrari reglur um heimildir stofnana og fyrirtækja til ráðstöfunar á eigin tekjum. Í 54. gr. laga nr. 52/1966, um gerð ríkisreiknings og fjárlaga, er nú til staðar ákvæði sem heimilar fjmrh. að setja reglur um greiðslu rekstrarhagnaðar fyrirtækja og sjóða í B-hluta ríkisreiknings í ríkissjóð að svo miklu leyti sem slíkt er ekki ákveðið í lögum. Þar er kveðið á um að fyrirtækjum þessum og sjóðum sé heimilt að nota rekstrarhagnað til að auka hreina eign með þeim takmörkunum sem fjmrh. setur eða ákveðnar eru með lögum. Heildstæðar reglur um skil á rekstrarhagnaði ríkisfyrirtækja hafa aldrei verið settar en ákvörðun um skil arðs fyrirtækja og sjóða hafa jafnan verið settar í einstökum tilvikum. Um þetta mál hefur dálítið verið fjallað upp á síðkastið og vek ég athygli á að með fjárlögum fyrir 1992 er sérstakt yfirlit sem sýnir hvaða arði fyrirtækjunum er ætlað að skila. Þetta ákvæði greinarinnar er því ekki nýmæli en að því leyti þarft þar sem það ýtir á eftir því að út frá ákveðnum reglum verði gengið.
    Aðalefni þessa máls er þó að hafa þarf hugfast að á undanförnum árum hafa stofnanir verið hvattar til þess að afla tekna með sölu á þjónustu og annarri starfsemi. Ákvæði um skil sértekna stofnana og fyrirtækja mega ekki vera letjandi í þessu efni en slíkt gæti orðið ef stofnanir njóta ekki í einhverjum mæli teknanna og hafi heimild til ráðstöfunar þeirra. Jafnframt þarf að hafa í huga að til þess að auka sértekjur fylgir oft aukinn kostnaður vegna breytinga eða aukinnar starfsemi. Því vara ég sterklega við takmörkunum sem ganga of langt í þessum efnum.
    Ákvæði 9. gr. frv. vil ég fjalla sérstaklega um. Í greininni er ákvæði þess efnis að fjmrh. sé heimilt á hverju fjárlagaári að stofna til tímabundins yfirdráttar í Seðlabanka Íslands vegna árstíðabundinna sveiflna í fjármálum ríkisins. Að mati þeirra sem að fjármálum ríkisins starfa og að stjórn peningamála vinna er tímabært að takmarka heimild ríkissjóðs til að stofna til yfirdráttar í Seðlabanka Íslands og að sem fyrst þurfi að taka fyrir yfirdráttarmöguleika ríkissjóðs. Í frv. er gert ráð fyrir að yfirdrátturinn verði takmarkaður og það verði háð ákvörðun Alþingis hverju sinni hver sá yfirdráttur megi vera. Þess er vert að geta að í hugmyndum nefndar sem hefur haft löggjöf um Seðlabanka til athugunar, reyndar hefur frv. nefndarinnar verið lagt fram á Alþingi til kynningar, er kveðið skýrar að orði um þetta atriði því að þar er gert ráð fyrir að tekið sé fyrir allan yfirdrátt ríkissjóðs hjá Seðlabanka. Það má því segja að allt bendi til þess að innan skamms verði ríkissjóði óheimill yfirdráttur í Seðlabanka með þeim hætti sem hefur verið á liðnum árum.
    Á undanförnum árum hefur ætíð verið að finna í 6. gr. fjárlaga heimild fyrir fjmrh. að stofna til tímabundins yfirdráttar í Seðlabanka Íslands í því skyni að mæta tímabundnum sveiflum í fjármálum ríkisins og semja um greiðslu yfirdráttarskuldar og lánskjör. Þessar sveiflur eru fyrst og fremst til komnar vegna þess að inngreiðslur í ríkissjóð af ýmsum tekjum, þar á meðal skatttekjum, koma ekki inn á sama tíma og stofnast til útgjalda og þarf að greiða ýmis útgjöld ríkissjóðs. Þess vegna þarf ríkissjóður, eins og margar aðrar stofnanir og fyrirtæki, á skammtímafyrirgreiðslu að halda hjá þeim sem geta lánað ríkissjóði fjármuni.
    Ákvæði sem þetta fellur e.t.v. ekki mjög vel að nútímahagstjórn, þ.e. ákvæði í 6. gr. Sé litið til nálægra landa virðist sem víðast hvar hafi verið tekið fyrir þessar fjármögnunarleið fyrir ríkissjóð. Því tel ég eðlilegt að ákvæði sem þetta sé sett í lög. Ákvæðið ber þess sterk merki að aga þurfi framkvæmdarvaldið við framkvæmd fjárlaga. Þetta er út af fyrir sig góðra gjalda vert en felur í sér nokkra einföldun á málefninu og það eru tvö atriði sem ég vil nefna og skipta máli í þessu sambandi.
    Annars vegar samrýmist það nútímahagstjórn að ríkissjóður hafi ekki ótakmarkaðan aðgang að Seðlabanka til fjármögnunar á tímabundinni fjárþörf. Slík tilhögun er almennt talin veikja peningamálastjórn og samrýmist ekki opnari og frjálsari peningamarkaði en verið hefur. Því ber að fagna því í þessu frv. og frv. til laga um Seðlabanka Íslands er fetað inn á nýjar brautir í þessu efni. Þó tel ég að fyrst um sinn þurfi nokkra aðlögun að breyttum háttum og því kæmi til álita að á hverjum ársfjórðungi hefði ríkissjóður heimild til yfirdráttar að vissu hámarki en í lok yfirdráttartímabils væri ríkissjóði gert að greiða upp þá skuld. Þetta mundi í rauninni fela í sér að ríkissjóður verði að haga lántökum sínum innan lands og erlendis þannig að yfirdráttur verði ekki langvinnur eins og oft hefur gerst á liðnum árum.
    Hins vegar --- og það er hitt atriðið --- þarf að hafa hugfast að til þess að ríkissjóður geti fyrirbyggt yfirdrátt í Seðlabanka þarf hann að eiga kost á skammtímafjármögnun. Til þess að svo geti orðið þarf lánamarkaður hérlendis að eflast töluvert frá því sem nú er en eins og menn þekkja hefur megináherslan verið lögð á langtímamarkaðinn. Þar hefur ríkissjóður átt verulegan þátt í að byggja upp sparnað landsmanna með útgáfu spariskírteina til þriggja, fimm og sjö ára. Hinu er ekki að leyna að ríkissjóður hefur í vaxandi mæli tekið lán til skamms tíma, einkum í formi ríkisvíxla. Viðskipti með ríkisvíxla hafa verið það mikil á síðustu árum að þau hafa gert meira en að jafna tímabundið sveiflur í fjármálum ríkisins.
    Ríkisvíxlar gegna þannig mikilvægu hlutverki en skammtímamarkað þarf að efla enn frekar. Því er ákveðið að gefa út ný ríkisbréf til 6--18 mánaða. Áformað er að þau verði seld á uppboði þannig að vextir ráðist á markaði en ekki eins og hefur gilt um spariskírteini og ríkisvíxla að þeir séu ákveðnir af fjmrh. hverju sinni. Þessi nýbreytni er liður í því að efla skammtímamarkaðinn enda er nauðsynlegt verði girt fyrir yfirdráttarmöguleika ríkissjóðs í Seðlabanka. Fjmrh. frábiður sér þannig að þurfa að ákveða vextina en þess í stað verði ríkissjóður að lúta þeim vöxtum sem markaðurinn kallar á. Það verður síðan hlutverk Seðlabankans að haga peningamálastjórn þannig að vaxtasveiflur, vaxtastig, verði í samræmi við efnahagsforsendur.
    Það er mat fjmrn. að frá og með næstu áramótum sé eðlilegt og rétt að greiðslustreymi ríkissjóðs verði hagað þannig að til sem minnsts yfirdráttar þurfi að koma. Þetta mál þarf þó frekari úrvinnslu við og er nú verið að vinna að því í samráðsnefnd um lánasýslu sem fulltrúar fjmrn. og Seðlabanka Íslands taka þátt í.

    Hæstv. forseti. Ég hef getið um nokkur veigamikil atriði þessa frv. um greiðslur úr ríkissjóði. Um frv. er margt gott að segja en ég er sannfærður um að þingið og sú nefnd, sem fær málið til umfjöllunar, þarf að skoða ýmis ákvæði gaumgæfilega.
    Nú er það svo að lagt er til að málið fari til fjárln. en það er hún sem flytur frv. Samt sem áður bið ég formann hv. nefndar, hv. frsm. málsins og aðrar nefndarmenn að skoða þau atriði sem upp kunna að koma í umræðunni. Þegar á heildina er litið fagna ég því að þetta frv. skuli komið fram því að það styrkir framkvæmd fjárlaga sem er vissulega mjög brýnt. Við hinu þarf þó að vara að frv. verði til þess að verkaskipting löggjafans og framkvæmdarvaldsins verði gerð óskýrari en nú er og að í lögunum séu ákvæði sem draga úr ábyrgð þeirra sem stofnunum og fyrirtækjum ríkisins stjórna. Á síðustu missirum og einkum í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur verið lögð þung áhersla á að bæði ráðuneyti og stofnanir bera sem mesta ábyrgð á fjármálum hvert á sínu sviði. Umræðan um aðhald í ríkisútgjöldum upp á síðkastið hefur fært mönnum heim sanninn um það að valddreifing í fjármálum er þegar farin að skila nokkrum árangri. Á þessari braut viljum við halda áfram.
    Hæstv. forseti. Mér fannst eðlilegt að þessi sjónarmið kæmu fram við 1. umr. málsins til þess að nefndin hafi þau til hliðsjónar við meðferð þess.
    Að lokum ítreka ég stuðning minn við tilgang frv. og tel afar þakkarverðan og lofsverðan þann áhuga sem fjárln. bæði fyrrv. og nú hefur sýnt þessum málefnum með umræðum og með því að þetta mál skuli hafa verið flutt af hálfu nefndarinnar.