Röð mála á þingfundi

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 16:28:30 (5917)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins láta fram koma óánægju mína með þá rofnu umræðu sem hér hefur orðið í dag í tveimur málum. Ég get vel skilið það sem að baki liggur varðandi 17. mál dagskrárinnar og geri ekki athugasemd við það. Hins vegar geri ég athugasemd við það að umræða um 10. mál skyldi verða rofin eins og gert var hér kl. 4 í dag. Það voru tveir á mælendaskrá þegar umræðunni var frestað og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gerðir neinir samningar um að svo skyldi staðið að málum varðandi það mál. Og almennt talað, virðulegi forseti, er afar erfitt fyrir okkur þingmenn, sem sitjum hér daginn út og daginn inn við að undirbúa mál, að þurfa að búa við það að hlaupið sé fram og aftur eftir dagskránni og maður geti ekki treyst á að farið sé nokkurn veginn eftir málaröð eins og hún er gefin út að kvöldi daginn fyrir fund.