Röð mála á þingfundi

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 16:33:00 (5921)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því og skýra það frekar hvers vegna ég er ekki yfir mig ánægður með það hversu lítið við þingmenn fáum að vita hvað er fram undan á næstu klukkutímum. Ég er í miðri ræðu í 12. dagskrárlið. Ég er á mælendaskrá í 10. dagskrárlið og auk þess hef ég hug á því að taka til máls í a.m.k. 14. og 16. dagskrárlið. Fyrir utan það að vakta dagskrá hér inni í þingsal og taka til máls eftir því sem efni standa til er ég að vinna að því að fara yfir frumvarp um málefni fatlaðra sem lögð er mikil áhersla á að hraða afgreiðslu á auk annarra mála í allshn. og mér er það nauðsyn og ég hygg öðrum þingmönnum sem eru undir nokkru vinnuálagi um þessar mundir að geta skipulagt tíma sinn og nýtt sinn tíma til virkrar vinnu eins og kostur er.