Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 16:34:40 (5922)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Við 1. umr. um þetta frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna gerði ég grein fyrir afstöðu minni og Kvennalistans til þessa máls. Í meðförum hv. menntmn. hafa orðið nokkrar breytingar, að vísu ekki mjög afgerandi, frekar smávægilegar breytingar, sem eru þó í áttina en þær eru svo veigalitlar að frv. er langt frá því að vera viðunandi. Þjóðin þarfnast þess að fólk mennti sig til að mæta framtíðinni, til að geta tekist á við þau stóru mál sem við blasa nú sem og þau sem upp eiga eftir að koma í framtíðinni. Menntun og rannsóknir eru undirstaðan undir velferð þjóðarinnar. Með því að höggva að rótunum er hætta á því að tréð falli.
    Stefna ríkisstjórnarinnar í menntamálum, eins og hún birtist í aðgerðum hennar á sl. ári, sýnir að ekki er hugsað til langs tíma á þeim bæ. Aðrar þjóðir leggja höfuðáherslu á menntun, sérstaklega þegar þrengir að. Hér eru aðrar leiðir farnar. Sú hugmyndafræði sem að baki býr er mér illskiljanleg. Frv. um lánasjóðinn er eitt dæmi um þessa stefnu, en grunnskólinn, framhaldsskólinn og háskólarnir verða einnig fyrir barðinu á þessari stefnu ríkisstjórnarinnar og stuðningsmanna hennar. Það er athyglisvert að hæstv. menntmrh. skipaði nefnd til að endurskoða gildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna en aðeins stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar voru í þeirri nefnd. Námsmenn fengu aðeins að koma að málinu á lokastigi og þá aðeins að því er virtist til að hægt væri að segja að þeir hefðu verið með. Þeirra sjónarmið fengu auðsjáanlega engu breytt um niðurstöðu nefndarinnar. Sjónarmið fulltrúa stjórnarandstöðunnar máttu alls ekki koma fram við undirbúning málsins að mati ráðherrans að því er virtist. Annars vekur það athygli að það er að verða meginregla hjá ríkisstjórninni að aðeins stuðningsfólk ríkisstjórnarinnar er skipað í nefndir á vegum hennar. Annað er orðið undantekning.
    Fyrir skömmu skipaði t.d. hæstv. menntmrh. nefnd sem á að endurskoða útvarpslögin. Að því er best verður séð er ekki einn einasti sem í þeirri nefnd er utan stuðningsliðs ríkisstjórnarinnar. Það virðist ekki vera mikill áhugi á því innan ríkisstjórnarflokkanna að ná samstöðu í málum. Það er eins og þeir þoli ekki að nein önnur sjónarmið komi fram en þau sem akkúrat þeir hafa, engin önnur sjónarmið megi koma fram. Þeir þoli ekki að það sem verið er að gera sé skoðað. Þetta þykir mjög einkennileg stefna og hefði ég fremur talið að það mundi vera málinu til framdráttar að ná um það breiðri samstöðu meðal bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er hægt í mjög mörgum málum. Það hefur tekist oft hingað til og það er ekki farsælt að hafa þessa stefnu sem ríkisstjórnin virðist nú vera að gera að sinni. Að vísu veit ég um nokkrar undantekningar frá þessari reglu en þetta hefur alla vega hæstv. menntmrh. haft að meginmáli og þykir mér það miður.
    Fulltrúi Kvennalistans í menntmn. hefur fyrr í umræðunni gert grein fyrir sjónarmiðum okkar til einstakra greina og brtt. og ég ætla ekki að fara út í það hér í smáatriðum svo ágætlega sem hún gerði grein fyrir því. Ég vil þó leyfa mér að minnast á nokkur grundvallaratriði. Með þessu frv. er gerð sú grundvallarbreyting að vextir eru settir á námslán eins og um sé að ræða fjárfestingu í fasteign. Það er eins og menn hafi ekki áttað sig á að námslán eru framfærslulán og fyrst og fremst fjárfesting fyrir þjóðina í heild. Arðurinn af námsaðstoðinni kemur ekki fyrst og fremst námsmanninum til góða heldur þjóðinni í heild og er alveg furðulegt að bera það hér fram að þetta komi námsmönnunum fyrst og fremst til góða og þess vegna beri þjóðinni ekki að taka þátt í þessum kostnaði með eðlilegum hætti. Þessir vextir leiða til þess að endurgreiðsla lánanna verður þeim, sem lægstar hafa tekjurnar, óviðráðanleg. Fyrr í umræðunni hefur verið gerð grein fyrir því atriði, m.a. í fylgiskjölum með frv. sem við höfum fyrir framan okkur. Og frekari útreikningar, sem hafa verið framkvæmdir, sýna að málið er enn verra en kemur fram í frv., þ.e. fólk mun aldrei geta greitt til baka þau lán sem það hefur tekið ef það á að greiða þá vexti sem upp eru settir og að sjálfsögðu tengist þessu að það er búið að ákveða að setja lántökugjöld á þessi lán þannig að allt er gert til þess að reyna að gera málið erfiðara fyrir námsmenn.
    Samkvæmt brtt. meiri hlutans er lagt til að námsmenn eigi að byrja að greiða lánið til baka eftir tvö ár sem er auðvitað bót frá frv. Þetta getur einnig reynst erfitt, sérstaklega fyrir námsmenn sem hafa verið við nám erlendis. Það kostar mikið að flytja og koma sér upp húsnæði. Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að hér á landi er húsnæðismarkaðurinn þannig að ekkert er auðhlaupið að því að fá leigðar íbúðir á viðráðanlegu verði þannig að fólk sé nokkuð tryggt með að halda í húsnæðið nokkurn tíma. Þannig getur það kostað nokkurt fé að koma sér upp húsnæði og ekki er víst að tvö ár dugi til að fólk sé komið á svona nokkurn veginn réttan kjöl í þeim málum. Ástandið er einnig orðið þannig á vinnumarkaðinum að fólk sem kemur úr námi hleypur ekki beint inn í störf eins og hægt var hér áður fyrr. Þannig getur fólk þurft að leita mánuðum saman að atvinnu og safnað þá enn meiri skuldum. Allt þetta hefur í för með sér verulega aukningu á greiðslubyrði sem mun hafa þau áhrif að fólk mun í vaxandi mæli veigra sér við að fara í nám vegna fjárhagsskuldbindinga sem í því felst.
    Mig langar, virðulegi forseti, að minnast á 6. gr. frv., ákvæðið sem fjallar um að menn fái ekki lán fyrr en tilskildum námsárangri sé náð, þ.e. að lánin séu greidd eftir á eins og það hefur verið kallað. Þetta hefur gilt um fyrsta árs nema hingað til. Að vísu hafa þeir getað fengið víxillán hjá lánasjóðnum, sem á að fella niður ef ég skil það rétt. Það hefur verið nógu erfitt fyrir þá að hafa ekki möguleika á að fá lán fyrsta missirið eða fyrsta árið eftir því hvaða námi þeir hafa verið í en nú á þetta að gilda um alla. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa bent á þetta atriði en það er eins og meiri hluti menntmn. geri sér ekki grein fyrir hve erfitt þetta ákvæði getur reynst. Auðvitað geta námsmenn reynt að fara í banka og fá lán en það mun ekki nást nema með þeim vöxtum sem eru á markaðnum og það má ætla að þeir séu 9--10% um þessar mundir.
    Það hefur sýnt sig að námsmenn á fyrsta ári, t.d. héðan af höfuðborgarsvæðinu, hafa getað bjargað sér með því að búa heima hjá foreldrum sínum eða ættingjum, án þess að greiða fyrir fæði og húsnæði, þangað til lán eru veitt eftir kannski hálft eða eitt ár. En það hefur reynst námsmönnum sem koma utan af landi erfitt, ef þeir þurfa að hefja nám í Reykjavík, að koma til Reykjavíkur, leigja sér húsnæði og þurfa að fá peninga til framfærslu. Það hefur reynst þeim mjög erfitt að vera við nám í Reykjavík og hefur oft orðið til þess að þeir hafa orðið að vinna verulega mikið með námi og hafa þá ekki getað ráðið við hvort tveggja, að framfleyta sér og að stunda námið eins og vera ber. Þetta verður einnig til þess að þeir hafa orðið að velja sér nám sem hægt er að stunda vinnu með en í mörgum greinum, ef t.d. háskólinn er skoðaður, er útilokað að stunda atvinnu með námi. Ég get nefnt líffræði, sem ég þekki nokkuð til, þar sem skólinn ætlast til þess að nemendur séu yfir 30 tíma í skólanum svo það er nánast útilokað að stunda vinnu með, ég tala nú ekki um ef fólk er með fjölskyldu og þarf að sinna henni einnig. Þetta þýðir að nemendur eru í raun að greiða vexti af lánum allan námstímann. Eftir fyrsta missirið fá menn lán hjá lánasjóðnum til að greiða upp bankalánið og þurfa svo að taka nýtt bankalán til framfærslunnar svo þetta heldur áfram þannig endalaust.
    Rökin fyrir því að taka þetta upp hafa m.a. af verið þau af hálfu menntmrh. og reyndar fleiri að menn hafi tekið lán og síðan ekki staðið sig í námi og greiði ekki til baka. Þetta eru auðvitað ekki nokkur rök. Það hlýtur að vera hægt að beita einhverjum ráðum við þá sem ekki hafa staðið sig og heimta að þeir sem hætta námi og hafa fengið lán greiði til baka. Það á auðvitað að gjaldfella lánin og láta fólk greiða þau til baka eins og mér skilst að hafi verið gert. Ég man ekki betur en sagt hafi verið frá því í útvarpinu fyrir skömmu að þessar 50 millj. kr. sem talað hefur verið um að hafi verið oflánaðar á síðasta ári hafi í raun verið verulega lægri upphæð en 50 millj. kr. og það komi nánast allt til baka aftur. Það séu aðeins um 10% sem ekki hafi verið innheimt. Ef það er rétt sem kom fram í þessari frétt, ég rek hana eftir minni, mig minnir að það hafi verið um 10% sem ekki voru innheimt, þá er ómögulegt að sjá af hverju verið er að fara fram á eða breyta þessu ákvæði sem mun koma sér svo illa fyrir námsmenn. Mann grunar að það séu skammtímasjónarmið enn þá einu sinni sem ráða ferðinni. Ef ég hef réttar upplýsingar, þá er talað um að um 900 millj. kr. muni með þessu móti ýtast yfir áramótin, þ.e. í ár muni þurfa minni fjárveitingu til lánasjóðsins vegna þess að námsmenn fái þá ekki lán í haust heldur verði þeir að taka bankalán til að byrja með. Það sé því um það að ræða að ýta 900 millj. kr. yfir áramótin og er þetta skammtímalausn sem auðvitað bitnar á engum öðrum en námsmönnum sjálfum. Ég get ómögulega séð neinn tilgang með þessu.
    Í útvarpsfréttum í hádeginu í dag var viðtal við formann stjórnar lánasjóðsins. Hann upplýsti að stjórnin væri í viðræðum við banka vegna lána fyrir námsmenn og jafnvel ætti að lána námsmönnum fyrir þeim vöxtum sem þeir ættu að greiða af bankalánunum. Þetta verður auðvitað til að hækka lánin og fer þá lítið fyrir þeim sparnaði sem ríkisstjórnin hyggst ná með frv.
    Stjórnarformaðurinn upplýsti einnig að fjöldi námsmanna vanáætlaði tekjur sínar og næði sér í vaxtalaus lán hjá lánasjóðnum. ,,Misnotkun,`` sagði stjórnarformaðurinn. Það er allt gert til að reyna að gera námsmenn að skúrkum. Ef þetta er raunverulegt vandamál er það möguleiki fyrir lánasjóðinn að hafa vexti á þeim lánum sem ofáætluð eru og draga þannig úr því að fólk misnotaði lánin ef það er rétt að um misnotkun sé að ræða eins og stjórnarformaðurinn orðaði það. Það er fráleitt að gera öllum námsmönnum það að fá ekki lán greidd fyrr en eftir á vegna slíkra mála sem auðvitað á að leysa hvert fyrir sig en vera ekki að búa til reglur sem bitna harðast á þeim sem minnst mega sín. Með þessu fellur ákvæðið út úr 7. gr. sem segir, með leyfi forseta: ,,Vextir reiknast frá námslokum.`` Það er kannski rétt að vextir af þeim lánum sem lánasjóðurinn sjálfur veitir reiknist frá námslokum en námsmenn verða að greiða verulega háar upphæðir í vexti á meðan á námstímanum stendur vegna þessa fyrirkomulags. Þess vegna er ekki rétt að láta líta svo út að þarna sé eingöngu verið að gera þeim erfitt fyrir sem eru þá, ef ég má nota orðið skúrkar eða þeir sem misnota aðstöðu sína. Það er verið að gera meiri hluta námsmanna mjög erfitt fyrir með þessu móti.
    Það á að taka á því sem aflaga fer með öðrum hætti en frv. gerir ráð fyrir. Það er verið að hverfa frá þeirri stefnu að hér á landi ríki jafnrétti til náms en þetta frv. gengur fyrst og fremst út á það að mínu mati. Það er mjög slæmt og mörg skref aftur í tímann.
    Mig langar, virðulegur forseti, í þessu sambandi að benda á eitt atriði sem fram kemur í áliti Kennaraháskóla Íslands í greinargerð sem tvær konur, Erla Kristjánsdóttir sem er kennslustjóri og Hrafnhildur Tómasdóttir sem er námsráðgjafi, hafa gert fyrir skólaráð Kennaraháskóla Íslands. Það er aðeins smáatriði sem ég vil taka þar til athugunar og benda á. Þær benda á 6. gr. frv., þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Námslán skal ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti.`` Það ákvæði fjalla þær um og svo segir: ,,Þetta þarfnast nánari skýringar og ugglaust breytingar samanber sérálit námsmanna sem fylgir með frv.`` Ég ætla ekki að fara út í það. ,,Í reglugerð KHÍ kemur fram sú regla um tímamörk náms að námi í tiltekinni skor skuli lokið innan tíma sem er 50% lengri en sá tími sem gert er ráð fyrir í námsskrá og kennsluskrá. Fjögurra ára námi til B.Ed.-gráðu má því ljúka á sex árum sem þýðir að meðaltali 10 einingar á missiri eða 75% af því sem skipulag KHÍ gerir ráð fyrir. Þessi sveigjanleiki er ákaflega mikilvægur fyrir stóran hóp kennaranema, þar á meðal ungar konur sem eignast börn. Hvergi í frv. er fjallað um undanþágur frá fullu námi vegna veikinda eða barnsburðar.``
    Ég ætla ekki að lesa meira upp úr þessu, virðulegur forseti. En þarna benda þær á mjög mikilvægt atriði og Kennaraháskólinn tekur undir það sjónarmið sem þarna kom fram. Bent hefur verið á að það megi nota þau ákvæði sem fram koma í brtt. meiri hlutans, ég held það sé þar, um að taka megi tillit til félagslegra þátta. Auðvitað er það mikilvægt ákvæði en hins vegar veit enginn hvernig það á að reiknast og túlkun þess atriðis að námsframvinda sé með eðlilegum hætti skiptir auðvitað mjög miklu máli. Mér þykir ábending þessara kvenna vera mjög mikilvæg og tel að það þurfi að vera miklu ljósara hvernig á málinu eigi að taka áður en frv. verður að lögum.
    Það hefur enginn sem ég hef talað við heyrt sagt að ekki megi endurskoða lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna. Námsmenn hafa m.a. komið með tillögur í því sambandi. Þær tillögur eru mjög áhugaverðar og hefði gjarnan mátt fara betur ofan í þær og athuga hvort ekki hefði mátt ná samstöðu um það mál. Samvinna milli aðila er auðvitað það sem skiptir mestu máli en ekki gerræðislegar og einhliða ákvarðanir. Ég vil enn í því sambandi lýsa óánægju minni með það að hæstv. menntmrh. skyldi ekki reyna að ná samstöðu um þetta mál meðal allra stjórnmálafloka og námsmanna í stað þess að fara þá leið sem hann hefur hér valið. Tilgangurinn með þessu frv. virðist fyrst og fremst vera sá að minnka eftirspurn eftir lánum, sama hvað það kostar, þó að það bitni á jafnrétti til náms og þó að það í raun hverfi marga tugi ára aftur í tímann. Þá aðför sem ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar hófu í vetur verður auðvitað að stöðva, annars mun hún hafa alvarlegar afleiðingar um langa framtíð.
    Ég vil taka undir það sem hefur komið fram áður hversu erfitt þetta kerfi getur verið fyrir konur. Þær eiga miklu erfiðara með að afla sér hálaunatekna svo það getur verið miklu erfiðara fyrir þær en karla, þótt þetta sé mjög erfitt fyrir alla, að fá nægilega hátt launað starf til að þær geti unnið með námi. Þess vegna mun þetta bitna fremur á konum en körlum. En ég óttast líka að við hverfum aftur til baka til þeirra ára þegar þrýstingurinn var gífurlega mikill á konur að hætta í námi og vinna fyrir körlunum og það óttast ég mjög að geti orðið raunin ef frv. verður að lögum. Það vita allir að konur í þjóðfélaginu hafa miklu lægri laun en karlar og oft hefur verið bent á það að þrátt fyrir mikla menntun kvenna hafa þær ekki aukið tekjur sínar að sama skapi og menntakarlar. Það er meiri munur á launum menntakvenna og menntakarla en verkakvenna og verkakarla. Þess vegna er hætt við því að þrýstingurinn á konur verði aukinn, þær hætti í námi og vinni fyrir körlum ef þær eru í sambúð. En hins vegar eykst það hjá konum að fleiri og fleiri velja það að fara ekki í sambúð og fleiri og fleiri sem velja það að eignast ekki börn þegar þær eru í námi og jafnvel ekki eftir það, því miður. Búið er að koma því þannig fyrir í þessu þjóðfélagi að það hefur verið þjarmað svo að fjölskyldunni að ungar konur eru farnar að hugsa sig ekki bara einu sinni um, þær hugsa sig nokkrum sinnum um og margar þeirra ákveða að eignast ekki börn vegna þess ástands sem í þjóðfélaginu ríkir. Það erum við að fjalla um núna og það er mjög alvarlegt sem hér er að gerast.
    Þess vegna tel ég að við eigum að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar, vísa málinu frá og

vona að ríkisstjórnin með hæstv. menntmrh. í broddi fylkingar taki þetta mál og kanni það betur og reyni að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það muni hafa í för með sér að samþykkja frv. Ég er sannfærð um að það mun ekki spara eins mikið og hefur verið talað um af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er hugsanlegt að það spari um skamman tíma en til lengdar verður þetta mjög dýrt. Ef ekki tekst nú að fá það fram, þá er auðvitað sjálfsagt að samþykkja brtt. sem minni hluti menntmn. hefur lagt fram á þskj. 790.
    Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að tala um frv. þótt það hefði mátt gera miklu fleiri þætti þess að umtalsefni. En hér hafa þingkonur Kvennalistans áður gert grein fyrir afstöðu okkar og munu gera e.t.v. síðar í umræðunni svo að ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. að þessu sinni.