Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 00:02:00 (5934)



     Guðmundur Hallvarðsson (andsvar) :
    Hv. 14. þm. Reykv. tók bara ekkert eftir því hvað ég sagði. Ég sagði að hv. 14. þm. hefði haldið því fram að þessi skuld mundi ekki verða innheimt og hún mundi fyrr eða síðar lenda á sjómönnum vegna þess að útgerðarmenn mundu ekki borga. Ég var aðeins að skerpa á því og minna hana á það og segja henni frá því að enginn sjóður annar en Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna er í slíkri aðstöðu til að innheimta þessa skuld eins og Lífeyrissjóður sjómanna vegna þess að hann hefur sjóveðskröfu í skipunum. Ég veit ósköp vel um þessa skuld útgerðarinnar. Ég veit það. Ég veit það líka, ég get frætt hv. 14. þm. Reykv. á því, að frá áramótum til þessa tíma hefur Lífeyrissjóður sjómanna keypt bréf, m.a. af Byggingarsjóði ríkisins og fleiri aðilum fyrir um 1 milljarð. Í sjálfu sér er þessi upphæð ekki stór vegna þess að hún kemur með ákveðnum hætti inn í Lífeyrissjóð sjómanna í gegnum greiðslumiðlun. Verslunarmenn skulduðu í Lífeyrissjóð verslunarmanna um 300 millj. kr. Það var bara það sem ég vildi skerpa á að þetta er ekki tapað og ekki glatað fé og ég skil ekki þá samlíkingu sem hv. 14. þm. Reykv. leggur þetta við Lánasjóð ísl. námsmanna. Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt.