Prentun EES-samningsins

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 13:49:00 (5954)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni af orðum hæstv. forseta áðan vekja athygli forseta á 42. gr. þingskapalaga. Í þessari grein þá er vikið að því að frv. sem felur í sér breytingar á stjórnarskrá og stjórnskipun íslenska lýðveldisins beri að flytja sem slíkt. Frv. sem felur í sér breytingar á stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins og ekki er flutt sem stjórnskipunar- eða stjórnarskrárfrv. hlýtur þá meðferð skv. 42. gr. þingskapa að forseti vísar því frv. frá. Það hvílir þess vegna sú skylda á hæstv. forseta, skv. 42. gr. þingskapa, að vísa frá frumvörpum sem flutt eru sem venjuleg frumvörp á Alþingi ef þau fela í sér breytingar á stjórnarskrá eða stjórnskipan lýðveldisins.
    Nú er það ljóst að fram hefur komið að ýmsir mætir menn telja að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, og þar með frv. sem fæli þann samning í sér, stangist það mikið á við gildandi stjórnarskrá íslenska lýðveldisins að í því felist í reynd breytingar á stjórnarskrá og stjórnskipun íslenska lýðveldisins. Þess vegna er alveg ljóst að það mun koma til þess að hæstv. forseti þurfi að meta hvort frv. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði sé flutt með réttum hætti skv. 42. gr. stjórnarskrárinnar. Það er kannski einhver mikilvægasta embættisskylda forseta Alþingis að framfylgja 42. gr. Ég hef þess vegna sett fram það sjónarmið að áður en frv. um Evrópskt efnahagssvæði kemur til meðferðar á Alþingi sé nauðsynlegt að þingið sé búið að meta það með ákveðnum hætti hvort samningurinn stenst stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins eða hvort breyta þarf stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins til þess að samningurinn sé gildur. Það væri mjög vont ef forseti Alþingis léti það gerast að samþykkja venjulegt frv. um samninginn, t.d. í næstu viku og síðan stæði þingið frammi fyrir því að samkvæmt áliti vísra manna sé það kannski hæpið eða jafnvel öruggt að samningurinn standist ekki stjórnarskrána. Ég vil þess vegna vekja athygli forsetans á embættisskyldu forseta Alþingis skv. 42. gr. og tel nauðsynlegt að það náist viðunandi meðferð máls á Alþingi hvað snertir athugun á því hvort frv. um samninginn samrýmist stjórnarskránni eða ekki áður en það kemur formlega til afgreiðslu. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta að forseti íhugi næstu daga í samvinnu við aðra flokka í þinginu með hvaða hætti sé hægt að tryggja að farið sé til hins ýtrasta eftir 42. gr. þingskapalaganna og við getum nánar rætt það mál síðar. Ég óska ekki eftir svari

frá hæstv. forseta hér og nú, tel það óeðlilegt vegna þess að málið er það stórt, en vek athygli forsetans á 42. gr. þingskapalaga.