Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:11:20 (5968)



     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessum andsvaratíma að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um 1% vexti er markleysa vegna þess að ríkisstjórn getur ákveðið að vextir breytist í 3% áður en viðkomandi námsmaður fer að greiða af láninu. Yfirlýsingin er markleysa og blekking og þess vegna ber Alþingi að miða alla útreikninga sína við 3% vexti eftir þessa yfirlýsingu.
    Í svörum sínum fór menntmrh. ekkert yfir þá staðreynd að lánasjóðnum verður lokað í haust. Með því móti mun lánasjóðurinn hafa um 800 millj. kr. í afgang um áramótin. Er meiningin að flytja þá upphæð yfir áramótin til að lækka framlög til sjóðsins, sem ella þyrftu að vera, í stað þess að nota þá fjármuni sem til eru til þess að greiða fólki lán í haust í staðinn fyrir að loka Lánasjóði ísl. námsmanna?