Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:15:30 (5972)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að svara þeim orðum hæstv. menntmrh. áðan að það sé ekki ástæða til þess að námslánakerfið sé byggt þannig upp að námsmenn leggist í barneignir. (Gripið fram í.) Hann orðaði það svo. Ég vil taka það fram að mér finnst þetta ósæmilegt orðbragð á hv. Alþingi og spyr hvort núv. ríkisstjórn hugsi sér e.t.v að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs með því að allir hætti að eiga börn. Þá verða engir Íslendingar í framtíðinni. Þá verða heldur engin vandamál. Hingað til hefur verið mjög gott námslánakerfi hér sem hefur gert það að verkum að fjölskyldufólk með börn hefur getað farið í nám. Samkvæmt þessu nýja frv. stefnir í að það verði ekki hægt. Það er það sem við kvennalistakonur höfum m.a. áhyggjur af.
    Í öðru lagi gat ráðherrann um, (Forseti hringir.) --- ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti --- að föst ársgreiðsla yrði 48.000 kr. Miðað er við 5% af tekjum, og það er ekki rétt að taka meðaltekjur við að reikna slíkt út. Menn geta haft minna en 960 þús. kr. á ári og ef á að taka þetta t.d. af 720 þús. kr. árstekjum er það orðið miklu meira en 5%.