Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 18:02:00 (5977)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst ekki skynsamlegt af hæstv. forseta að taka þetta mál fyrir á meðan hæstv. menntmrh. er ekki viðstaddur í þingsal, svo sjálfsagt sem það ætti að vera, og ég mælist til þess að hlé verði gert þangað til ráðherra er kominn. Í öðru lagi vildi ég óska eftir því að formaður nefndar, sem reyndar birtist hér, verði einnig viðstaddur umræðuna. Ég geri hlé á máli mínu þangað til hæstv. ráðherra er viðlátinn. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til þess að hæstv. menntmrh. komi í salinn og ef hv. þm. gæti byrjað sína ræðu, annars yrði gert hlé.) Ég kýs hið síðara, virðulegur forseti. ( Forseti: Gert verður hlé uns hæstv. menntmrh. kemur --- og hæstv. menntmrh. er genginn í salinn.)
    Við höfum rætt frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna í 2. umr. um nokkurt skeið hér í þinginu og hæstv. ráðherra hefur rakið í sínu máli og haldið tölu á þeim ræðum sem fluttar hafa verið og nokkuð hefur borið á því í hans máli að honum finnst hægt ganga umræðan og fátt nýtt koma fram í umræðum um málið. Ég get ekki verið sammála hæstv. ráðherra um það mat. Mér finnst hann megi vel við una að það er áhugi á málinu í þingsölum. Þetta er stórt mál og þetta er umdeilt mál í þinginu. Þetta er umdeilt mál í þjóðfélaginu svo hæstv. ráðherra þarf vart, svo þingreyndur maður sem hann er, að vera undrandi yfir því að menn þurfi að ræða það. Síðan bætist það við að fram eru að koma nýir efnislegir þættir í málinu m.a. af hálfu hæstv. ráðherra sem skipta miklu fyrir það og hugsanlega afgreiðslu þess og sem valda því að það er nokkuð í það, sýnist mér, að málið liggi skýrt fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. ráðherra. T.d. það sem kom fram í dag, sem voru kannski ekki splunkuný tíðindi en kom þó ljósar fram en áður hefur verið, viðhorf til vaxtatökunnar á námslán sem er eitt stærsta og um leið umdeildasta atriði þessa frv.
    Hæstv. ráðherra greindi frá því að það væri hans mat að menn ættu að halda sig við 1% vexti á

námslán eins og ríkisstjórnin hefði samþykkt að hans tillögu að væri upphafsskref í málinu. Vissulega hafa talið að það væri illskárra en að farið væri upp í hámark, leyfilegt hámark samkvæmt þessu frv., þ.e. allt að 3% vextir. En jafnframt hefur komið fram í sambandi við þennan þátt málsins að þessi ákvörðun ríkisstjórnar og tilkynning ríkisstjórnar um vaxtatöku í upphafi, sem nemur 1% á námslán, segir viðskiptavinum lánasjóðsins í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut á hverju þeir geti átt von í framtíðinni varðandi þau lán sem þeir taka nú og á næstu árum hjá sjóðnum því að hvenær sem er getur til þess komið að ráðherra og ríkisstjórn taki nýja ákvörðun um vexti allt að 3% sem verði þá gildandi um þau lán sem viðkomandi hafa tekið. Menn vita í rauninni ekkert út í hvað þeir eru að fara nema það eitt að þeir geta búist við að vextirnir sem þeir þurfa að standa skil á af lánum sínum geti numið allt að 3%.
    Í umræðunni í dag var ráðherra inntur eftir því hvort hann væri þá ekki reiðubúinn til þess að breyta frv. til samræmis við þá stefnu, sem hann virtist vera að taka undir í orði, að miða við hámark 1% vexti. En þá kom svolítið annað hljóð í strokkinn. Þá ók hæstv. ráðherra sér undan því að taka jákvætt á þeirri hugmynd og skýrði þá afstöðu með því að aðstæður gætu alltaf breyst. Greindi okkur frá því að þetta væri ekki fastar í hendi, ákvörðun ríkisstjórnarinnar um 1% vexti, og boðskapur hans um það að miða skyldi við þetta í tíð núv. ríkisstjórnar, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, að hún vildi hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum. Mér finnst þetta í rauninni ekki aðeins einkennilegur málflutningur, það liggur við að hann sé ósæmilegur. Að gefa út boðskap um 1% vexti á námslán, hnykkja á því að það sé stefna núverandi ríkisstjórnar og láta liggja að því að það gæti orðið svo á hennar valdaferli og í rauninni ásetningur en vilja samt hafa borð fyrir báru upp að 3% mörkunum. Þetta gengur auðvitað ekki upp og ég bið hæstv. ráðherra að skýra það nánar út fyrir okkur hér í umræðunni hvers konar hugarheimur það er sem hann hrærist í, að segja í öðru orðinu: Ég hef gert tillögu um 1% vexti, ég vil að það verði svo í tíð núv. ríkisstjórnar --- og jafnframt gaf ráðherrann í skyn að hann ætlaði að sitja sem fastast í stóli menntmrh. sem er ekkert óeðlilegt að spurt sé um í ljósi umræðu síðustu daga. Síðan hafnar hann hugmynd um það, ef ég hef metið orð hans rétt, að breyta tillögu meiri hluta menntmn. um að hafa vextina breytilega allt að 3%. Ég vil skora á hæstv. ráðherra um að endurskoða afstöðu sína. Hann væri maður að meiri ef hann gerði það og slægi því föstu og tæki undir það að vextir yrðu þó aldrei hærri en 1%. Því ef aðstæður breytast að mati ríkisstjórnar hver sem hún er og viðkomandi ríkisstjórn vildi hækka vaxtatöku í ljósi breyttra aðstæðna, þá er auðvitað enginn sem bannar henni að leita eftir breytingu á lögunum og leggja fram tillögu á þingi þannig að menn gætu þá metið málið í ljósi þess. Enginn skilji orð mín svo að ég sé með þessu að taka undir það sjónarmið að taka eigi vexti af námslánum. Gegn því mælum við í minni hluta menntmn. mjög eindregið að út á þá braut verði farið. En hitt er jafnljóst að það er verulegur munur á því hvort teknir eru 1% vextir eða 3% vextir af námslánum.
    Þetta er nýr þáttur í þessu máli í rauninni sem við þurfum að ræða frekar við hæstv. ráðherra og meiri hlutann í menntmn. Ég vil inna hv. formann menntmn. eftir viðhorfum til þessarar stöðu málsins í ljósi ítrekaðra yfirlýsinga hæstv. ráðherra hér um ásetning sinn um það að miða við að 1% vextir verði hámarkið. En það er að mínu mati ótækt að stilla námsmönnum frammi fyrir því að þeir geti hvenær sem er átt von á öðru og meira vegna þess að vextirnir eru breytilegir og þakið 3%.
    Annar stór þáttur í þessu máli sem hefur mikið verið ræddur en er einnig að fá á sig nýja mynd hér eftir því sem umræðan þróast og það eru hinar svokölluðu eftirágreiðslur á námslán. Það er atriði sem mörg orð hafa fallið um og sem viðmælendur okkar úti í þjóðfélaginu og viðskiptavinir lánasjóðsins láta sig miklu varða og telja eitt stærsta atriðið í tengslum við þetta frv. fyrir utan vaxtatökuna. Fyrir Alþingi liggja mjög eindregnar áskoranir um það að hverfa frá þessu tiltæki sem innleiða á með lögfestingu þessa frv.
    Hæstv. ráðherra hefur í ræðum sínum reynt að rökstyðja það bæði hvað snertir hagsmuni Lánasjóðs. ísl. námsmanna sem stofnun og hins vegar út frá almennum viðhorfum, að það sé eðlilegt að breyta til og taka upp eftirágreiðslur á námslánum. Gegn þessu höfum við, minni hluti menntmn., mælt mjög eindregið og varað við því og fjölmargir sem hafa talað í umræðunni. Það hefur verið bent á að þessar greiðslur eftir á baka námsmönnum afar mikið óhagræði og jafngilda í raun fyrir fjölmarga vaxtatöku á námslán á námstíma. Það er alveg ljóst að aðrir en þeir sem hafa breið bök til að styðjast við munu þurfa að leita til lánastofnana til þess að brúa bilið allan sinn námstíma í rauninni, jafnvel allan námstímann, og greiða lánastofnunum vexti, sem gildandi eru á hverjum tíma, á víxillánum eða skammtímalánum.
    Nú kemur hæstv. ráðherra og segir okkur að hann ætli að reyna að milda þetta með því að lánasjóðurinn taki á sig vaxtakostnaðinn í bili, námsmenn fái þetta reiknað inn í námslán sín á hverjum tíma og þannig safnist þessi vaxtakostnaður upp í höfuðstóli lána hjá lántakendum og þeir geti velt þessu áfram. Nú má segja að breyting í þessa átt, ef framkvæmd yrði með þessum hætti, geti létt greiðslustöðuna hjá námsmönnum í bili, en hitt er jafnljóst að þeir eru að taka á sig kostnaðinn af þessu óhagræði og hann safnast upp í endurgreiðslum þeirra til sjóðsins og er þannig íþyngjandi. Ég vil út af fyrir sig ekki hafna því að það geti verið til bóta fyrir viðskiptaaðila sjóðsins ef framkvæmd yrði sú hugmynd sem ráðherra var að kynna okkur og er seint fram komin í þessari umræðu af hans hálfu, en ég vil jafnframt spyrja hæstv. ráðherra um það nánar, hvernig hann sjái fyrir sér að þessi hugmynd hans, um það að sá vaxtakostnaður sem einstakir námsmenn þurfa að taka á sig verði endurgreiddur, verði útfærð. Ég tel alveg nauðsynlegt að það atriði, hvernig ráðherra hugsar sér útfærslu á þessu kerfi, liggi skýrt fyrir fyrir lok þessarar umræðu þannig að menn standi ekki frammi fyrir því eftir á, ef ekki fæst grundvallarbreyting á þessu atriði, að sagt verði: Þetta var nú hugmynd sem var kastað fram í umræðunni en það eru margir praktískir erfiðleikar á að útfæra hana og standa við hana og þannig yrði dregið í land. Við þurfum að hafa það alveg ljóst hver sá veruleiki er sem viðskiptaaðilar lánasjóðsins koma til með að standa frammi fyrir áður en gengið er til atkvæða um frv. að lokinni þessari umræðu.
    Margt af því sem sagt hefur verið um þennan þátt, hina svonefndu eftirágreiðslu, er afar ýkjukennt og fram sett af því er mér finnst til þess oft og tíðum að gera samskipti viðskiptamanna lánasjóðsins tortryggileg, gera aðstöðu námsmanna viðskiptalega séð við sjóðinn tortryggilega. Þótt hæstv. ráðherra hafi sagt hér í ræðu sinni áðan að hann vilji ekki slást í hóp þeirra sem ræða um misnotkun eða misferli í þessu sambandi þá er það í rauninni andi þeirrar umræðu sem hæstv. ráðherra og sá meiri hluti sem hann styðst við hér á Alþingi leiðir til. Afleiðingarnar af því hvernig þetta mál er sett fram í umræðunni og samanber þau minnisblöð sem nýlega eru fram komin frá Lánasjóði ísl. námsmanna og eflaust ekki án vitundar hæstv. ráðherra, minnisblað dagsett 5. maí, um það sem kallað er ofgreidd lán og vanskil á námsárangri hefur endurómað hér í fréttum. Ég held að það sé ekki eins fjarri lagi eins og hæstv. ráðherra vildi vera láta að jafna samskiptum námsmanna við lánasjóðinn við greiðslur vinnuveitenda, atvinnurekenda til launamanns. Í rauninni er þarna spurningin um framfærslu námsmanna, möguleika þeirra til að stunda sitt nám og að því leyti alveg um sambærilegt atriði að ræða hvað aðstöðu snertir og hjá launamanni gagnvart atvinnurekanda. Hvað er um það, eins og hér er verið að setja fram, að námsmaður standi skil á námsárangri og fái ekki sín lán greidd fyrr en slík skil liggja fyrir? Það er ósköp sambærilegt við það að menn þurfi að vinna í hálft ár jafnvel heilt ár launalaust og krafsa sig fram úr tilverunni án þess að fá lán sem þeir þó eiga rétt á samkvæmt gildandi reglum og eiga von á að fá að ákveðnum tíma liðnum.
    Það hefur verið upplýst að hér er í raun um óverulegar upphæðir að ræða að því er snertir uppgjör á svokölluðum ofgreiddum lánum umfram árið. Hér er um nokkra tugi millj. að ræða sem fara út í slíkum svokölluðum ofgreiddum lánum og enn þá lægri upphæðir þegar gert er upp í lok hvers árs. En það óhagræði sem námsmönnum er bakað með þessum samskiptareglum, sem hér er verið að innleiða, verður ekki reiknað til fjár. Ég held að meiri hlutinn hér á Alþingi ætti að hugsa sitt ráð betur áður en farið er að lögfesta þetta kerfi og baka viðskiptavinum lánasjóðsins allt það óhagræði sem því fylgir.
    Auðvitað er það svo eins og í öllum kerfum að það eru smugur eða gerðar tilraunir til að misnota þau og vafalaust fer þetta kerfi lánasjóðsins ekkert varhluta af því að um slíka misnotkun verður að ræða í einhverjum tilvikum, sumpart ekki að yfirlögðu ráði heldur vegna þess að aðstæður manna breytast og menn ná ekki þeim markmiðum sem þeir hafa ætlað sér í námi og komast þannig í einhverja erfiðleika en það á ekki að þurfa að leiða til þess að menn fari að umbylta kerfinu þegar meinbugirnir eru ekki stærri en þeir sem hér er um að ræða að því er varðar hag þessarar stofnunar.
    Þriðji stóri þáttur þessa máls eru síðan endurgreiðslurnar og þær mjög svo hertu kröfur sem verið er að innleiða með tillögum meiri hluta menntmn. og samkvæmt frv. einnig að því er það snertir. Þar höfum við í minni hluta menntmn. verið reiðubúnir til að stíga skref sem leitt gæti til verulega bættrar stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna og höfum í tillögum okkar tekið upp hugmyndir sem samtök námsmanna settu fram fyrri hluta vetrar til að koma til móts við nauðsynlegar úrbætur á þeirri stöðu sem Lánasjóður ísl. námsmanna vissulega er í og sem ráða þarf bót á, enginn neitar því. Ég tel að þær tillögur sem minni hluti menntmn. ber fram um þetta efni séu raunsæjar, viðráðanlegar fyrir viðskiptaaðila lánasjóðsins en eru hins vegar allt aðrar og ganga ekki eins langt og meiri hluti menntmn. leggur til í sínum tillögum.
    Þegar við hófum umræðu um þetta mál, virðulegur forseti, lágu ekki fyrir niðurstöður útreikninga um mat á líklegum afföllum hjá lánasjóðnum í nýju kerfi. Eins og menn vita, þá er um nokkur afföll að ræða í gildandi kerfi, kannski nálægt 10--15% ef rúmt er reiknað og með hertum endurgreiðslum sem minni hlutinn gerir tillögur um í sínum brtt. sem fluttar eru til vara ef dagskrártillaga um að vísa málinu frá verður ekki samþykkt. Við teljum að með tillögum okkar um hertar endurgreiðslur yrði það bil brúað sem nú er varðandi afföll í gildandi kerfi og með því sé verulegur ávinningur fenginn fyrir lánasjóðinn sem stofnun. Hins vegar er uppskeran að þeirri athugun sem Hagfræðistofnun Háskólans í samvinnu við Ríkisendurskoðun reyndi að vinna að beiðni menntmn. ekki sú sem að var stefnt því að í rauninni eru þeir útreikningar sem fyrir liggja mjög ófullkomnir og segja okkur næsta lítið um það hver verða líkleg afföll í þessu nýja kerfi þegar allir þættir eru teknir þar inn. Við fáum í rauninni aðeins endurmat á endurgreiðsluhlutfalli eða afföllum námsmanna í breyttu kerfi miðað við hertar endurgreiðslureglur en ekki að teknu tilliti til þeirra afskrifta sem líklegt er að myndist vegna þess að viðskiptaaðilar lánasjóðsins ráði ekki við þær greiðslur sem þeim er ætlað samkvæmt þessu breytta kerfi. Og ég held að þetta sé kannski sá þáttur sem mest óvissa er um og mest vöntun er á að fá metið með raunsæjum hætti. Eru menn í raun með þessum breytingum að bæta hag lánasjóðsins til lengri tíma litið eins og látið er að liggja í orði? Ég held að menn ættu að fara yfir þá útreikninga sem liggja fyrir á greiðslubyrði einstakra lánþega, viðskiptaaðila sjóðsins og þeirri stóru uppsöfnun sem þar verður og í raun óviðráðanlegri greiðslubyrði þeirra sem lægri tekjur hafa, þeirra sem mynda lágtekjuhópana hjá viðskiptaaðilum sjóðsins og þar sem í sumum tilvikum liggja fyrir niðurstöður um allt að tvöföldun á höfuðstóli frá því að lán eru tekin og við starfslok viðkomandi aðila.
    Hæstv. ráðherra minnti á það að frv. útilokar ekki að stjórn sjóðsins geti létt af slíkum lánum við starfslok manna ef aðstæður bjóða og þar yrði að sjálfsögðu um afföll að ræða sem draga úr því hagræði

sem sjóðnum er reiknað vegna breytinga á föstum greiðslum og vegna vaxtatöku. Þetta er atriði sem hefði þurft að liggja mun skýrar fyrir, í rauninni áður en mál þetta var lagt fyrir og útreikningar, sem við höfðum fengið samkvæmt beiðni nefndarinnar, leysa engan veginn þá gátu sem það er að geta sér til um hver verða afföllin í reynd í þessu breytta kerfi. Mér er vissulega ljóst að þar fá menn aldrei fram allan sannleik þar eð það verður alltaf óvissu háð, en vafalaust hefði verið hægt að komast þar nær líkum en fyrir liggur í þeim niðurstöðum sem okkur var skilað með bréfi til formanns menntmn. 27. apríl sl. Í því erindi er bent af hálfu Ríkisendurskoðunar á ýmis atriði sem geti aukið afföll í kerfinu fyrir utan að það vantar í rauninni að meta það sem hlýtur að verða að fella niður af skuldum manna sem ekki ráða við vaxandi greiðslubyrði og standa frammi fyrir því við starfslok, að ekki sé talað um það sem fellur niður við ævilok. Það kemur hins vegar fram í þessum útreikningum um endurgreiðslufall námslána að þar safnast upp í breyttu kerfi vaxtakostnaður sem hleður á sig og þar koma fram tölur sem sýna að endurgreiðslufall námslána, eins og það er nú hér kallað, yrði í breyttu kerfi miðað við 3% vexti ekki minna en 123,5% sem virðast nú vera allbærileg skil til lánasjóðsins, þ.e. lánið yrði endurgreitt 23,5% umfram það sem ella væri og miðað við að í gildandi kerfi væri þarna um að ræða rétt tæp 91%. Það munar því nálægt 33% samkvæmt þessum útreikningum sem skilað var inn til nefndarinnar og það eitt út af fyrir sig er umhugsunarefni.
    Ég ætla, virðulegur forseti, eftir að hafa vikið að þessum stóru þáttum, sem eru eitt aðalumræðu- og ásteytingsefni varðandi þetta frv., að víkja að nokkrum atriðum sem fram komu hér í ræðum formanns menntmn., hv. 10. þm. Reykn., og í ræðum hæstv. ráðherra 27. apríl sl. og aftur í dag. Ég vil fyrst nefna örfá atriði úr ræðu formanns nefndarinnar um leið og ég ítreka að ágætt samstarf var við hana við málsmeðferðina og ég er þar ekki undan neinu að kvarta þó að mat okkar á málinu sem slíku sé afar ólíkt. Hv. þm. sagði 27. apríl, svo ég vitni hér til orða hennar:
    ,,Tilgangur þeirra breytinga sem felast í frv. er fyrst og fremst að treysta fjárhagslega stöðu lánasjóðsins til frambúðar og draga úr þeirri byrði sem ríkissjóður hefur af sjóðnum. Hinn mikilvægi stuðningur þjóðfélagsins við menntun verður áfram verulegur. Lánin verða hins vegar dýrari og greiðast fyrr upp en áður, enda verður framtíð sjóðsins ekki tryggð með öðrum hætti án aukinna ríkisframlaga.``
    Þarna er hv. þm. auðvitað að draga fram ákveðinn kjarna í þessu máli og ég er ekki að segja að það sé gert með röngum hætti. En lausnin sem hún leggur áherslu á, að létta greiðslum frá sameiginlegum sjóði og leggja þær á viðskiptaaðila lánasjóðsins, fer ekki saman við þau markmið, sem hv. þm. hefur þó í orði tekið undir, að tryggja jafnrétti til náms og það er í rauninni meginásteytingsefni okkar í minni hluta menntmn. við meiri hlutann að hér er verið að skerða aðstöðu námsmanna miðað við efnahag, búsetu og framfærslu frá því sem verið hefur, auka mismunun að þessu leyti og það út frá því sjónarmiði að það verði umfram allt að draga úr greiðslum úr sameiginlegum sjóði til þessara þátta. Það er það leiðarljós sem þarna er farið eftir. Ég tek það fram að það er eðlilegt að beita skynsamlegu aðhaldi í sambandi við námslánakerfi og leitast við að koma í veg fyrir að það þjóni ekki þeim markmiðum sem sett eru í lögum. Það getur verið sameiginlegt áhugamál. En það má ekki nota slíka þætti til að draga að sér og draga við við sig þann nauðsynlega stuðning sem verður að fást ef menn ætla að standa við markmiðið jafnrétti til náms. Og það er sá feluleikur, sem hér er stundaður og er á fullri ferð jafnt hjá hæstv. ráðherra sem talsmönnum meiri hluta menntmn.
    Hæstv. ráðherra, sem nú er horfinn af vettvangi, býr mál sitt í þann búning að gefa sér að það sé nánast lögmálsbundin upphæð sem von sé til að fá Alþingi til þess að leggja inn í þennan málaflokk og það sé eitthvað nálægt því sem greitt hefur verið eða 2 milljarðar kr. á ári hverju og ekkert fram yfir það. Út frá því er gengið og út frá því er lagt. Við gerum okkur auðvitað alveg grein fyrir því að staða Lánasjóðs ísl. námsmanna verður ekki gerð viðunandi rekstrarlega séð nema sameiginlegur sjóður sé reiðubúinn til þess að taka tímabundið á í þessum efnum og rétta við stöðuna. Ef vilji væri nú til þess hjá meiri hlutanum á Alþingi að gera það, þá stæði örugglega ekki á stjórnarandstöðunni að rétta þar hjálparhönd. Komið hafa yfirlýsingar frá talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna og ég minni á ræðu þingflokksformanns Framsfl. síðast í gær sem gaf yfirlýsingar sem ekki verða skildar á annan hátt en þann að ekki standi á Framsfl. að taka á í þessum efnum þannig að þetta lögmál, sem hæstv. menntmrh. er að búa til í sambandi við mögulegan stuðning úr sameiginlegum sjóði til að geta tryggt jafnrétti til náms, er tilbúningur og endurspeglar aðeins skort á pólitískum vilja til að fylgja þessu máli fram og skapa samræmi milli orða og athafna.
    Ég tengdi þetta mál framsögðuræðu hv. formanns menntmn., 10. þm. Reykn., vegna þess að það er auðvitað sá þingmeirihluti og nefndarmeirihluti sem ber ábyrgð formlega séð á þeim tillögum sem hér eru fram settar þó að ég efist ekkert um að náið samráð hafi verið haft við ráðherrann um það sem þar var fram borið. Óneitanlega var það dálítið sérstakt þegar hæstv. ráðherra gaf tillögum meiri og minni hluta einkunnir, svona rétt eins og hlutlaus prófdómari, í ræðu sinni 27. apríl sl. Svona nánast eins og hann væri að sjá þessar tillögur hér fyrst á þingskjölum. En ekki ætla ég að hafa það sem stórt gagnrýniatriði af minni hálfu og á ég eftir að koma að máli hæstv. ráðherra betur síðar.
    Hv. formaður menntmn. vék að 3. gr. laganna þar sem verið er með þeim breytingum, sem gerðar eru frá gildandi lögum, að veikja til muna það lagaboð sem er um stuðning við námsmenn til þess að tryggja í reynd markmiðin um jafnrétti til náms. Og hv. 10. þm. Reykn. orðaði það svo: ,,Hins vegar hefur stjórnin samkvæmt frv. rýmra svigrúm en verið hefur til þessa til að ákveða fyrir hvaða útgjöldum námsmanns skuli lánað og hvaða tillit skuli taka til fjölskyldustærðar hans, tekna o.s.frv.`` Þetta er mjög skýrt orðað. Þarna kemur það fram sem verið er að færa í lög samkvæmt fyrirliggjandi lögum meiri hlutans að draga úr því lögboðna tilliti til aðstæðna námsmanna sem er að finna í 3. gr. gildandi laga og sem við í minni hluta menntmn. gerum tillögu um að standi óhaggað.
    Eitt atriði þessa máls, sem ekki þykir kannski mjög stórt fljótt á litið, snertir kröfuna um fjölda ábyrgðarmanna. Fram að þessu hefur það verið látið nægja að viðskiptaaðili, námsmaður sem skiptir við lánasjóðinn, hafi aðeins einn ábyrgðarmann. Hér er það fært í þann búning að hann skuli a.m.k. vera einn og að hver ábyrgðarmaður skrái sig fyrir tiltekinni upphæð. Hv. 10. þm. Reykn. orðaði það svo hér í ræðu sinni 27. apríl, með leyfi forseta: ,,Á þennan hátt þyrftu ábyrgðarmenn strax að taka afstöðu til þess hvernig þeim litist á að ábyrgjast heildarskuld námsmannsins en mundu ekki ánetjast smám saman eins og í þeirri aðferð sem frv. gerir ráð fyrir.`` Hv. þm. Guðrún Helgadóttir gerði þennan þátt að umræðuefni í sínu máli við umræðuna. Og hæstv. ráðherra veittist að þingmanninum sérstaklega vegna þess. Ég held að menn ættu að fara svolítið betur yfir þær aðstæður sem þarna er verið að skapa. Ekki vegna þess að það sé óeðlilegt að skyldur fylgi lögboðinni ábyrgð, undan þeim verður auðvitað ekki vikist ef lögin eru þannig sniðin. En hins vegar er ég hræddur um að með þessum hertu endurgreiðslum og með þessum kvöðum um að því sé haldið upp að nefinu á ábyrgðarmanni hverju sinni hvaða ábyrgð hann sé að axla verði aðstæður námsmannanna til að fá ábyrgðarmenn og til þess í raun að geta tekið lán hjá sjóðnum til muna örðugri en verið hefur til þessa. Það þarf ekki neina vitringa til að átta sig á því hverjir það verða sem lenda í erfiðleikum vegna þessara ákvæða og vegna þess í hvaða stakk það er búið hér. Við getum tekið dæmi af einstæðu foreldri með eitt eða fleiri börn í samskiptum við Lánasjóð ísl. námsmanna annars vegar og hins vegar námsmenn sem eiga gilda að og þannig aðstæður að auðvelt er fyrir þá að fá slíkar uppáskriftir á færibandi í sumum tilvikum án þess að viðkomandi þurfi að hafa miklar áhyggjur af því að gerast ábyrgðarmenn fyrir viðkomandi.
    Ég nefni þetta sérstaklega vegna þeirra orða sem fram komu hjá hæstv. ráðherra við umræðuna þó ég sé með því engan veginn að gera lítið úr því að ábyrgð fylgi þeim samskiptum sem þarna er um að ræða. Menn þurfa auðvitað að horfast í augu við hvað verið er að leiða í lög hverju sinni. En það er ekki aðalatriði málsins heldur er það spurningin um aðstæður námsmannanna til þess að geta komist í viðskipti við sjóðinn og til þess að geta í reynd stundað nám í krafti þess.
    Hv. 10. þm. Reykn. ræddi um eftirágreiðslurnar og ofgreiddu lánin og talaði í því sambandi um misnotkun á fjármunum. Þannig innleiddi hún þá umræðu sem hæstv. ráðherra vildi ekki fara langt út í eða gera að sínu, að stimpla menn sem einhverja misindismenn sem færu þar fram úr. Og í þessu samhengi kom einmitt hv. formaður menntmn. fram með hugtakið um eftirágreidd laun sem hæstv. ráðherra vísaði mjög bratt frá. Því hv. 10. þm. Reykn., formaður menntmn., sagði orðrétt: ,,Ætla má að námsmenn verði fljótir að aðlaga sig þessum breyttu reglum og má e.t.v. með nokkrum rökum líkja þessari aðferð við eftirágreidd laun.`` Það fara ekki alveg saman samlíkingar og skilningur hjá hæstv. ráðherra og formanni menntmn. Og skilningur formanns menntmn. miklu nær því sem við höfum verið að túlka heldur en viðbrögð ráðherrans.
    Þetta voru nokkrar athugasemdir sem tengjast framsögu meiri hluta menntmn. og sem ég hef fyrst nú tækifæri til að koma með ábendingar um og gera athugasemdir við.
    Ég ætla þá, virðulegur forseti, að víkja að nokkrum atriðum úr máli hæstv. menntmrh. í fyrri ræðu hans við þessa umræðu þann 27. apríl sl. Hæstv. ráðherra, sem hefur kvartað undan því nokkrum sinnum að honum þyki ganga seint að þoka áfram umræðu um þetta mál hér í þinginu, viðurkenndi það í þessari ræðu að dregist hafi úr hömlu af hans hálfu að leggja þetta mál fram og það eru kannski þær aðstæður og margháttuð missmíð tæknilegs eðlis sem var á frv. eins og það kom fram sem hefur átt þátt í því að bæði menntmn. þurfti lengri tíma til að athuga málið og einnig við að ræða það ítarlegar en ella hefði kannski orðið við 2. umr. Það var í þessari ræðu sem hæstv. ráðherra bjó til lögmálið um einhverja fasta upphæð sem væri hægt að fá Alþingi til að reiða fram sem framlag í Lánasjóð ísl. námsmanna og ég hef þegar vikið að. Og það var í þessari umræðu sem hæstv. ráðherra kom fram með það sjónarmið að ef Alþingi kæmist að því að það þyrfti að athuga þetta mál betur, leggja það fyrir á annan hátt og stuðningur yrði við megintillögu minni hluta menntmn. þá yrði lánasjóðurinn gjaldþrota og þjónaði engum og þar með væri sem sagt sú binding öll fallin. Það var þetta viðhorf að ekki væri hægt að ráða bót á þessu máli eða koma til móts við sjónarmið minni hlutans nema með því að skerða þjónustu og viðskipti lánasjóðsins við námsmenn. Hæstv. ráðherra orðaði það svo við þessa umræðu, með leyfi forseta. ,,Ef þetta frv. fæst ekki samþykkt þá verður nauðsynlegt að skerða grunnlánin, hjá því verður einfaldlega ekki komist. Og ég geri ráð fyrir að sú skerðing gæti numið allt að 30%, jafnvel meira til þess að mögulegt sé að halda sjóðnum innan ramma fjárlaga og lánsfjárlaga.`` Og þarna kemur hæstv. ráðherra einmitt að þessum gapastokk sem hann hefur komið sjálfum sér í og vill ekki fá neina aðstoð til að losna úr. Þ.e. að setja þetta mál upp í ljósi gildandi fjárlaga og að miðað verði við að hægt verði að standa við þau mörk sem þar eru dregin og Alþingi hefur ákveðið þó að hitt sé jafnljóst að hvenær sem er getur hæstv. ráðherra leitað til þingsins til að fá þar breytingu á og til þess að leysa málið. Í rauninni er sköpuð algerlega óviðunandi aðstaða fyrir þingið að fjalla um þetta mál út frá svo skammsæju sjónarmiði að hér þurfi að ná fram breytingum vegna

uppgjörs innan eins fjárlagaárs. Það eru auðvitað fjarstæðukenndar aðstæður sem verið er að skapa með slíku.
    Þetta tengist því sem kom fram í umræðunni í dag og ég leyfi mér að taka upp í þessu samhengi. Það er sá veruleiki að ekki á að greiða neitt út úr sjóðnum á seinni hluta ársins. Það á engin haustlán að greiða til þess að bæta greiðslustöðu innan ársins. Hér var borin fram spurning til hæstv. ráðherra sem hann svaraði ekki í orðaskiptum að lokinni ræðu hans í umræðunni í dag: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera með þann afgang sem við þetta skapast hjá lánasjóðnum við uppgjör um næstu áramót? Greiðsluafgang upp á hundruð milljóna, nefndar voru 800 millj. að mig minnir í þessu samhengi. Af hverju notar ekki hæstv. ráðherra þá fjármuni sem þarna falla til og liggja innan rammans samkvæmt upplýsingum sem ég vænti að séu marktækar og vísað var til framkvæmdastjóra lánasjóðsins í því sambandi. Af hverju er það fé ekki notað til að greiða út a.m.k. hluta haustlána á þessu ári í staðinn fyrir að safna því upp? Er það hugsanlegt, hæstv. ráðherra, að áformin séu þau að nota þann afgang sem þannig er skapaður til að draga í land á næsta fjárhagsári í fyrirgreiðslu við lánasjóðinn? Ég óska eftir skýrum svörum varðandi þetta atriði að gefnu tilefni vegna þess að hæstv. ráðherra svaraði endurteknum fyrirspurnum um þetta efni engu.
    Hæstv. ráðherra leitaðist við að réttlæta samskipti sín við félagslegar hreyfingar námsmanna við undirbúning þessa máls með því að halda því fram að það hafi í raun verið allt með felldu í samskiptum við undirbúning frv. Ráðherrann sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Námsmenn fengu tvo fulltrúa í þá nefnd sem gekk frá frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna en áður höfðu þeir fengið nokkrar vikur til að kynna sér tillögur um leiðir til úrbóta í málefnum lánasjóðsins og koma á framfæri athugasemdum og eigin tillögum.`` Ég vísa einfaldlega til þess veruleika sem fyrir liggur og hefur verið rakinn við þessa umræðu, hvernig háttað var störfum þeirrar nefndar sem sett var á laggirnar í nóvember sl. og starfaði í tíu daga eða svo. Ég verð að segja að það er ólíku saman að jafna þeim samskiptum sem ráðuneytið í öllu sínu veldi stóð fyrir og hins vegar hreyfingar námsmanna, settar undir mikinn þrýsting og skammtaður afar naumur tími, sýndu með ábyrgum tillögum sem þær settu fram, það fólk sem að þessum málum vann á vegum hreyfinga námsmanna, lögðu fram sem andsvar við tillögum ráðuneytisins sem voru auðvitað fullbúnar og fullmótaðar áður en farið var að kalla til námsmenn því þeir máttu rétt sjá þetta til málamynda á lokastigi. Hreyfingar námsmanna voru t.d. útilokaðar frá samskiptum við ráðuneytið og nefndina sem sett var á laggirnar á sl. sumri. Og það var farið með þær hugmyndir sem þar voru í deiglu og eru undirstaða þessa frv. sem ríkisleyndarmál, einnig gagnvart menntmn. þar sem óskir komu fram um að fá að heyra og sjá þau meginatriði sem þar væru rædd til að geta hafið umræðu um þessi mál á vettvangi nefndarinnar eins og þingsköp heimila að gert sé um einstök mál þó þing sé ekki starfandi.
    Hæstv. ráðherra taldi að það hefði verið tekið tillit til ýmissa sjónarmiða námsmanna við samningu frv. og umfjöllun í nefndinni og vísaði frá þeirri gagnrýni sem fram var borin. Auðvitað er ekki hægt að hafa áhrif á það hvernig hæstv. ráðherra metur málið og setur það fram af sinni hálfu en veruleikinn er allur annar en hæstv. ráðherra reyndi að láta að liggja í ræðu sinni um þetta efni.
    Hæstv. ráðherra beindi síðan orðum sínum til okkar í stjórnarandstöðunni og taldi að við skulduðum sér og þinginu skýringar á því hvernig við ætluðum að tryggja jafnrétti til náms og leysa þann vanda sem við er að fást. Ég vil vegna þessara frýjunarorða hæstv. ráðherra fara nokkrum orðum um þetta efni, þó að hæstv. ráðherra sé auðvitað kunnugt um það hvaða sjónarmið það eru sem liggja til grundvallar okkar tillögum.
    Við viðurkennum að við vanda sé að fást hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Við tökum tillit til þess í okkar tillögum sem fluttar eru til vara við þetta mál. Brtt. okkar varðandi 8. gr. frv. er um verulega hertar endurgreiðslur sem gætu numið allt að hálfum milljarði til hagsbóta fyrir sjóðinn. Hæstv. ráðherra fannst það ekki vera mikils virði og taldi það hrökkva skammt. En við höfum jafnframt sett fram hugmyndir um að ríkissjóður verði að taka á sig tímabundið auknar greiðslur til lánasjóðsins sem ekki væri óeðlilegt að framkvæmdar væru með yfirtöku að hluta á áhvílandi lánum sjóðsins til að bæta aðstæður hans og koma honum á sléttan sjó, rekstrarlega, til lengri tíma litið. Hvers vegna eru menn ekki reiðubúnir til þess að taka þannig á máli? Er eitthvað öðruvísi háttað varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna en önnur félagsleg jöfnunarkerfi í þessu landi, heldur en þann stuðning sem veittur er við skólakerfið í landinu þar sem ríkissjóður axlar verulegar upphæðir og verulegan hluta til að halda því uppi?
    Það má vísa til aðgerða sem gerðar hafa verið varðandi aðra þætti sem varða hag fjölmargra, yfirtöku á áhvílandi skuldum. Ég nefni sem dæmi þá aðgerð sem framkvæmd var í tíð síðustu ríkisstjórnar varðandi Rafmagnsveitur ríkisins til þess að koma í veg fyrir stórhækkaða gjaldskrá og aukna mismunun í því jöfnunarkerfi sem reynt hefur þó verið að viðhalda með stuðningi ríkisins í sambandi við þá nauðþurft sem orkan er fyrir rekstur heimilanna í landinu. Það er því mjög langt frá því að við höfum horft fram hjá því að það þurfti að grípa til aðgerða í sambandi við málefni lánasjóðsins. Síðan er því við að bæta að auðvitað er sjálfsagt að fylla upp í göt sem kunna að vera á framkvæmd, göt sem bjóða upp á misnotkun í sambandi við þetta kerfi. Um það geta vafalaust allir sameinast og ekki síst námsmenn sem hafa ítrekað borið fram tillögur þar að lútandi og er það auðvitað í þeirra hag að komist verði hjá misnotkun í sambandi við rekstur sjóðsins sem leiðir til fjárhagslegs tjóns fyrir heildina.
    Svo vék hæstv. ráðherra að brtt. minni hlutans lið fyrir lið, býsna nákvæmlega. Ég þakkaði hæstv. ráðherra í stuttu andsvari fyrir það að hann tók af mér ómakið með vissum hætti eða bætti um betur með

því að vekja athygli á þessum brtt. minni hlutans. En það kom hins vegar fram, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra hafði ekki skilið tillöguflutninginn nema að takmörkuðu leyti og hafði auðvitað allt á hornum sér varðandi efni þessara tillagna og þess vegna ætla ég aðeins að svara nokkrum athugasemdum sem fram komu af hálfu hæstv. ráðherra ef það mætti verða til þess að leiðrétta misskilning sem greinilega var uppi hjá honum um einstaka þætti í okkar brtt.
    Hæstv. ráðherra vék að brtt. varðandi 3. gr. frv. og sagði orðrétt: ,,Líka er lagt til í 2. brtt. minni hlutans við 3. gr. að ráðherra sé skyldaður til að skipa nefnd þriggja manna til að fjalla um breytingar á reiknuðum framfærslugrunni ef ósk kemur fram um slíkt. Hlutverk fjárveitingavaldsins og stjórnar sjóðsins innan ramma laganna er að ákveða upphæð námslána. Ég sé ekki að það sé til bóta að koma á enn einni nefndinni með aðild hagsmunaaðila og oddamanns.`` Hér er ekkert nýmæli á ferðinni, hæstv. ráðherra. Þetta hefur verið lögboðið síðan 1989 og er hluti af lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna að slík þriggja manna nefnd fjalli um breytingar á reiknuðum framfærslukostnaði og geri tillögu til stjórnar sjóðsins þar að lútandi þannig að það er ekki verið að auka við neitt sem fyrir er. Hér er því um misskilning að ræða hjá hæstv. ráðherra þegar hann er að gera athugasemdir við þessa brtt.
    Þá vék hæstv. ráðherra að því svo að ég vitni orðrétt til hans máls: ,,Mér sýnist líka nokkuð einkennilegt að minni hluti menntmn. skuli leggja til að þeir sem rétt eiga á námsláni skuli eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda. Um þetta eru höfð nokkuð mörg orð í nál. minni hlutans á bls. 6. Það ákvæði í gildandi lögum er til komið vegna húsnæðiskerfis sem hefur verið lagt niður og námsmenn hafa sjálfir lýst yfir að litlu skipti hvort ákvæði af þessu tagi sé úti eða inni. Það er ástæðan fyrir því að þetta er lagt til í frv. að þetta kerfi, húsnæðiskerfi sem byggt var á, er ekki lengur til.`` Þetta er nú ekki svona einfalt, hæstv. ráðherra. Lífeyrissjóðir eru ekki einvörðungu til að skapa mönnum aðgengi vegna húsnæðislána og þar hafa vissulega verið gerðar breytingar á. Ég vísa í þessu sambandi til umsagnar Alþýðusambands Íslands og leyfi mér að vitna til þeirrar umsagnar, með leyfi forseta:
    ,,Miðstjórn [þ.e. miðstjórn Alþýðusambandsins] telur óskynsamlegt að fella niður lífeyrissjóðsgreiðslur lánþega. Aðild námsmanna að því velferðarkerfi sem lífeyrissjóðirnir fela í sér er rökstudd með tilvísun til þess að ef námsmenn yrðu t.d. fyrir varanlegri örorku meðan á námi stendur hefðu þeir ekkert öryggisnet. Krafa húsnæðiskerfisins til aðildar að lífeyrissjóði kom miklu seinna fram. Eðlilegra er að gera slíkar breytingar þegar löggjöf um tryggingar verður samræmd. Miðstjórn mótmælir þeirri röngu fullyrðingu sem fram kemur í greinargerð með frv. að lífeyrisréttindi í almennum lífeyrissjóðum séu hliðstæð þeim sem hægt er að kaupa á almennum markaði.``
    Þetta er tilvitnun í umsögn Alþýðusambands Íslands um þetta efni og þeir fulltrúar námsmanna sem ég ræddi við um þessi efni töldu skynsamlegt að halda inni heimildinni um aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eins og verið hefur og er í gildandi lögum.
    Þá gerði hæstv. ráðherra athugasemd við 3. brtt. minni hluta nefndarinnar sem gerir ráð fyrir því að fjölgað sé í stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna úr sex í átta. Þar erum við að gera tillögu um að Iðnnemasamband Íslands fái fulltrúa í stjórn sjóðsins en Iðnnemasambandið er stór viðskiptaaðili við sjóðinn, eða námsmenn innan vébanda þess, en ekki færri en 1.400 námsmenn í Iðnnemasamandinu eru í viðskiptum við Lánasjóð ísl. námsmanna. Við gerðum jafnframt tillögu um það að fulltrúi valinn af ráðherra bættist við úr hópi samstarfsnefndar háskólastigsins þannig að jafnvægi héldist á ráðherravöldum fulltrúum og fulltrúum tilnefndum af hagsmunaaðilum. Hæstv. ráðherra sagði þar, eins og hann hefur ítrekað síðar, að þannig hafi verið litið á að Bandalag ísl. sérskólanema fari með mál sérskólanemenda í stjórn lánasjóðsins, þar með talin mál iðnnema og þess vegna sýnist ónauðsynlegt að fjölga í stjórn sjóðsins, eins og ráðherrann orðaði það í ræðu sinni. Ég harma að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa tekið undir þessa brtt. og að meiri hluti menntmn. skuli hafa hafnað því að gera hana að sinni og taka undir með minni hlutanum um þetta efni. Ég er alveg viss um það að það yrði til bóta fyrir starfsemi lánasjóðsins að Iðnnemasamband Íslands ætti þar fulltrúa, bæði fyrir umbjóðendur þess en ekki síður til þess að tryggja eðlileg viðskipti lánasjóðsins við þá sem eru innan vébanda Iðnnemasambands Íslands. BÍSN, sem svo er skammstafað, Bandalag ísl. sérskólanema, hefur ekki þann aðgang að iðnnemum sem ekki eru innan þeirra vébanda og ekki upplýsingar um stöðu þeirra og hag sem Iðnnemasamband Íslands hefur og þess vegna er það mjög leitt að meiri hluti menntmn. skuli ekki hafa fallist á þessa tillögu og ráðherrann séð sér fært að veita henni stuðning.
    Í þessari ræðu sinni fjallaði hæstv. ráðherra um eftirágreiðslurnar og sú umræða er það margyfirfarin að ég ætla ekki að eyða mörgum orðum þar til viðbótar en í því sambandi féll orðið ,,misnotkun`` af hálfu ráðherra ítrekað. Ég nefni það hér vegna þess að hann var að bera það af sér í ræðu í dag um sama efni að hann hefði verið að gera því skóna. Orðrétt sagði hæstv. ráðherra þarna í ræðu sinni 27. apríl, með leyfi forseta:
    ,,Auðvitað er ekkert vit í því að vera með svona ákvæði inni í lögum sem gefa mönnum kost á slíku sem þessu sem verður að kalla misnotkun. Það verður að kalla þetta misnotkun og verið er að koma í veg fyrir það með þessu ákvæði.`` Þetta er tilvitnun í mál hæstv. ráðherra.
    Þá eru það lántökugjöldin sem við gerum tillögu um að ekki verði lögfest en hæstv. ráðherra telur eðlilegt að lögfesta og meiri hluti menntmn. Í útreikningum hefur þar verið miðað við 1,2% sem er rökstutt með því að eðlilegt sé að láta viðskiptaaðila lánasjóðsins standa undir kostnaði við rekstur hans og

hæstv. ráðherra þykja þetta vera hófleg gjöld. Hér er verið að auka álögur á námsmenn og það er óeðlilegt að okkar mati til viðbótar við allt annað að auka þessum lið við, íþyngjandi fyrir viðskiptaaðila sjóðsins því að í raun er um verulegar upphæðir að ræða sem eiga að skila sér inn í gegnum þessi lántökugjöld. Upphæðin sem þarna er á ferðinni er 100--200 millj. kr., ef ég man rétt, a.m.k. þegar fram í sækir, þannig að hér er um allverulegar álögur að ræða.
    Þá vék hæstv. ráðherra í ræðu sinni að einni brtt. sem er varðandi 7. gr. og hafði um það þessi orð, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. er gert ráð fyrir að endurgreiðslur hefjist einu ári eftir námslok. Meiri hluti menntmn. hefur lagt til að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok og ég tel það sanngjarnt og fellst á þá brtt. meiri hlutans. Ég get hins vegar ekki fallist á að þetta verði óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. þrjú ár. Lagt er til í tillögum minni hlutans að ári eftir námslok sé námsmanni tilkynnt upphæð heildarskuldar hans. Þetta er ónauðsynlegt þar sem sjóðurinn sendir öllum skuldurum yfirlit yfir skuldir þeirra um hver áramót og ekki er ráðgert að breyta því,`` segir hæstv. ráðherra.
    Þetta er meinlaus athugasemd út af fyrir sig en ekki sé ég að neitt sé á móti því að tryggja í lögum það sem hefur reynst vel í reynd og er stundað þannig að þetta er ekki vel rökstudd athugasemd frá hæstv. ráðherra. Síðan segir ráðherrann: ,,Mér sýnist einnig einkennilegt og í raun og veru ótrúlegt að minni hluti menntmn. skuli leggja til að endurgreiðslur skuli fara fram á grundvelli reglna sem giltu á þeim tíma sem námsmaður undirritaði einstök skuldabréf.`` Og bætir við: ,,Hérna hlýtur að vera um einhver mistök að ræða hjá þeim sem tillöguna flytja því ég sé ekki betur en þetta geti falið í sér aukna greiðslubyrði skuldara miðað við það sem gert er ráð fyrir í frv.``
    Ég verð að segja að hér held ég að hljóti að vera um misskilning að ræða hjá hæstv. ráðherra. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að breyta neinu um það eða hafa á móti því eða bregða fæti fyrir að eldri lán flytjist aftur fyrir eins og mér sýnist að sé skilningur hæstv. ráðherra þegar hann er að túlka þessa brtt. Hér er einfaldlega verið að slá því föstu með þessari tillögu að endurgreiðslur fari fram á grundvelli reglna sem giltu á þeim tíma sem lánið var veitt og skuldabréf undirrituð og kemur með engum hætti í veg fyrir að eldri skuldir séu færðar aftur fyrir eins og gert er ráð fyrir með frv.
    Fleiri atriði gerði hæstv. ráðherra athugasemdir við í brtt. okkar og sé ég ekki ástæðu til að elta ólar við það allt saman. Það er á svipuðum misskilningi byggt sýnist mér eða vilja til að gera brtt. okkar tortryggilegar í því formi m.a. að ónauðsynlegt sé að festa í lög tiltekin ákvæði og læt ég nægja að vísa til þess að ég er ekki sammála þeirri túlkun hæstv. ráðherra. Eitt atriði var réttmætt í saumnálarleit hæstv. ráðherra varðandi brtt. okkar. Okkur hefur sést yfir að leggja til sérstaklega þá breytingu við 15. gr. að gera ekki ráð fyrir vöxtum sem tekjum í lánasjóðinn. Það er alveg rétt og auðvitað, ef okkar brtt. væru samþykktar, yrðu engar slíkar tekjur þannig að ákvæðið út af fyrir sig gæfi ekkert í aðra hönd. Ég hefði vissulega getað hugsað mér að standa að brtt. um það og það væri í rökréttu samhengi við aðrar tillögur sem við flytjum þar sem ekki er gert ráð fyrir vöxtum á námslán. Þetta voru athugasemdir að gefnu tilefni í ræðu hæstv. ráðherra.
    Ég ætla þá aðeins að koma að fáeinum atriðum sem ráðherrann vék að í ræðu sinni í dag og verða það þó ekki mjög mörg atriði sem þar verða tekin fyrir af minni hálfu nú. Ráðherrann var þar í ræðu sinni áfram í hlutverki dómarans og er það auðvitað hans góði réttur. Hann hélt því fram að þingmenn, og átti við þá sem mæla fyrir minnihlutaáliti menntmn. geri ég ráð fyrir, misskilji jafnrétti til náms og taldi að því væri til haga haldið í tillögu meiri hluta nefndarinnar og í frv. sjálfu. Ég held að þessu sé þveröfugt farið að það sé einmitt skorturinn á samræmi milli tillagna hæstv. ráðherra og meiri hluta menntmn. og því sem slegið er föstu í orði, að vísu ekki í sjálfu frv. en í ræðum manna, að þeir vilji tryggja jafnrétti til náms. Það er galli á brtt. meiri hluta menntmn. varðandi 1. gr. frv. Þar er þetta ekki orðað með þeim hætti sem við gerum tillögu um heldur er verið að gera ráð fyrir því að tækifærin til náms séu tryggð. Ef ég man rétt, þá er orðanna hljóðan á brtt. meiri hlutans eitthvað í þá veru en ég er ekkert að draga úr því að hugur búi að baki því sem menn mæla en það er hins vegar ekki útfært í tillögum varðandi frv. og það er það sem við hljótum að gera athugasemdir við.
    Hæstv. ráðherra vék að breytingu á lögum um Vísindasjóð sem samkvæmt athugasemdum við frv. er ætlað að taka við því hlutverki sem gert er ráð fyrir í gildandi lögum um námsstyrki. Hæstv. ráðherra upplýsti okkur um það að í þeirri vinnu að breytingum á gildandi lögum um Vísindasjóð, sem nú væri hafin, eigi að huga að styrkveitingum. Ráðherrann taldi sig hafa svarað fram komnum athugasemdum að því er varðar námsstyrki og hlutverk Vísindasjóðs í því samhengi með þessum mjög svo veiku tilvísunum í þá endurskoðun sem nú er hafin. Í rauninni þyrfti ráðherrann ef ætti að taka yfirlýsingar hans gildar að leggja fyrir tillögur við þá aðila sem hann felur að endurskoða lög um Vísindasjóð, efnislegar tillögur um það hvernig hann vilji að Vísindasjóður taki á sig skuldbindingar að því er snertir námsstyrki og sem snerta hið almenna námsaðstoðarkerfi sem verið er að breyta og í rauninni að fella niður styrkveitingar frá Lánasjóði ísl. námsmanna og vísa þeim út í óvissan buska eins og hér er gert í reynd.
    Ég leyfi mér því að inna hæstv. ráðherra eftir því hvort hann hafi markaðar tillögur fram að færa um það með hvaða hætti Vísindasjóður eigi að taka við því hlutverki að veita námsstyrki. Slíkar breytingar ættu auðvitað að haldast í hendur við breytingar á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna ef eðlilega væri á máli haldið.

    Okkur greinir á, hæstv. ráðherra, um það hvernig eigi að meta tekjur manna með tilliti til greiðslubyrði. Hæstv. ráðherra telur eðlilegt að miða við meðaltekjur litið til baka og fann að því að miðað væri í útreikningum við taxtalaun. Þetta er út af fyrir sig ósköp auðvelt að leggja mat á hvað eðlilegt er í þessu sambandi en ég vil a.m.k. taka svo djúpt í árinni að segja að það er ekki óeðlilegt þegar verið er að fara yfir mál af þessum toga að miða við þau laun sem eru dagvinnutekjur eða þær tekjur sem menn hafa örugglega á hendi samkvæmt umsömdum kjarasamningum. Við leyfðum okkur það í menntmn. að óska eftir útreikningum þar að lútandi sem liggja fyrir til hliðsjónar við greiðslubyrði sem einstakir hópar þurfa að axla að gefnum ákveðnum forsendum.
    Hæstv. ráðherra vék í máli sínu nokkuð að stefnu í skólamálum og minnti á að hann væri að láta vinna tillögu til þess að endurmeta ýmislegt í skólakerfi okkar og orðaði það eitthvað á þessa leið: Ekki eingöngu með það að markmiði að spara peninga.
    Mér þótti athyglisvert að hæstv. ráðherra tók svona til orða því það er nokkuð til í því að sannarlega er meginmarkmiðið, sem endurspeglast í tillögum ráðherrans og málflutningi hér á Alþingi, að skera niður í menntakerfinu, þrengja þar að og það fer ekkert fyrir tillögum sem ganga í aðra átt. Þær eru a.m.k. ekki komnar fram þó svo ráðherra hafi sett á laggirnar nefndir, skipaðar stjórnarliðum fyrst og fremst og í raun einvörðungu, a.m.k. án fulltrúa frá stjórnarandstöðu, til þess að endurskoða lög um einstök skólastig. Ég óttast miðað við hvernig hæstv. ráðherra leggur upp í sína ferð sem ráðherra menntamála að það verði enginn gleðiboðskapur fyrir þá sem líta til skólamálanna í landinu sem þar verði fram borinn þegar tillögur verða mótaðar. Þar þarf að verða a.m.k. veruleg breyting á frá því sem er í tillögum sem hér liggja fyrir og sem tengjast einnig fjárlagaafgreiðslu og ræddar voru fyrr á þessu þingi.
    Virðulegur forseti. Eins og ég hef vikið að fyrr í máli mínu þá höfum við í minni hluta menntmn. gert grein fyrir viðhorfum okkar og hvernig við viljum taka á málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna, bæði þeim vanda sem þar er við að fást og ekki síður viðskiptum námsmanna við sjóðinn og hvernig að þeim verði búið til að tryggja jafnrétti til náms. Ég vil einnig leyfa mér að minna á að fyrrv. menntmrh. fjallaði um þessa þætti eins og raunar flesta þætti sem lúta að skólamálum í riti sem gefið var út af menntmrn. sl. vetur og ber heitið ,,Til nýrrar aldar``. Þar er fjallað um fjárhagsaðstoð til námsmanna í sérstökum kafla og bið ég forseta um leyfi til að vitna örstutt í þann kafla sem er 5.7 í þessu riti undir fyrirsögninni ,,Fjárhagsaðstoð til námsmanna``. Þar segir undir millifyrirsögninni Meginmarkmið: ,,Fyrirkomulag námsaðstoðar verði í meginatriðum óbreytt. Stefnt verði að því að einfalda útlánareglur og nýta fjármagn Lánasjóðs ísl. námsmanna betur en verið hefur. Þetta verði m.a. gert með því að flytja ákvarðanatöku og fjárhagslega ábyrgð í ríkari mæli til lánþega. Jafnframt verði stefnt að því að auka bein framlög ríkisins til sjóðsins á komandi árum, þannig að unnt verði að draga úr lántökum sjóðsins í náinni framtíð. Þannig verði sköpuð skilyrði til þess að framlag ríkisins geti minnkað síðar þegar endurgreiðslur námslána verða stærri hluti fjárþarfar sjóðsins.``
    Þetta er síðan rökstutt í framhaldinu og þar segir m.a.: ,,Í ljósi þess menntunar- og samfélagslega ávinnings sem núverandi fyrirkomulag námsaðstoðar veitir leggur ráðuneytið áherslu á að það haldist í meginatriðum óbreytt. Fjölgun lánþega getur þó skipt sköpum. Fjölgi þeim umfram 2,5% að meðaltali á ári verða stjórnvöld að endurskoða í grundvallaratriðum afstöðu sína til námslánakerfisins.``
    Hér er skýrt til orða tekið í þessum efnum. Þetta er sagt fyrir alþingiskosningar í riti sem er yfirferð á skólamálum í landinu, Horft til framtíðar, og gefið út á ábyrgð ráðherra sem allt eins gat reiknað með að halda um stjórnvölinn áfram eða eiga hlut að því í ríkisstjórn landsins að kosningum loknum og að þurfa að standa við þær yfirlýsingar og þá stefnumörkun sem þarna var dregin fram.
    Ég hefði óskað að núv. hæstv. menntmrh. hefði borið gæfu til að líta með svipuðum hætti á málin. Slíkt er kannski óskhyggjan einber að ætlast til þess því að hæstv. ráðherra ber fram eitt málið af öðru þar sem breytt er til í mjög mörgum atriðum frá þeirri stefnu sem ríkt hefur og þokkalegur friður hefur verið um í okkar skólamálum og sem orðið hefur til að kveikja elda sem ekki hafa verið slökktir og hætt er við að eigi eftir að bitna á skólakerfi okkar á komandi árum, jafnvel þó að svo giftusamlega færi að seta hæstv. ráðherra yrði styttri í stóli menntmrh. en óskir hans standa til um.
    Ég sé ekki ástæðu til, að þessu sinni, virðulegur forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv. nú, en mun e.t.v. síðar við umræðuna fjalla um fleiri atriði, m.a. í ljósi þess sem fram kann að koma hjá hæstv. ráðherra og talsmönnum meiri hluta menntmn.