Afleiðingar sumarlokunar sjúkrahúsa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:38:41 (5984)


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Því miður staðfesta svör hæstv. ráðherra illan grun okkar sem höfum verið að kynna okkur þessi mál að undanförnu, að í rauninni er ekki til nein yfirsýn yfir hvað þessar auknu lokanir, og ég ítreka, auknu lokanir, munu leiða af sér annað en lengri biðlista. Það þarf ekki að segja neinum. Bráðaþjónusta er því miður ekki það einasta sem er brýnt og þar af leiðandi hljóta auðvitað aðrar afleiðingar einnig að fylgja í kjölfarið.
    Varðandi það að sumarlokanir á einum stað muni ekki valda auknu álagi á öðrum stað þá skil ég í rauninni ekki þá yfirlýsingu. Ég hef heyrt það afskaplega skynsamlega um þetta fjallað hjá þeim sem eru að búa sig undir að mæta þessu aukna álagi að litið á það sem staðreynd og mér dettur ekki í hug annað en að trúa því fólki sem starfar í heilbrigðisþjónustunni, bæði þeim sem neyðast til að loka vegna hins flata niðurskurðar og einnig þeim sem búa sig undir að þurfa að mæta mjög auknu álagi. Það er ekki að ástæðulausu að það er að búa sig undir slíkt. Þess vegna er öllum þetta ljóst, nema e.t.v. þeim sem hafa tekið saman upplýsingar í þetta svar, að þetta þýðir aukið álag, lokun á einum stað þýðir aukið álag annars staðar. Það verður ekki allt leyst með lengingu biðlista en auðvitað gat ég þess í framsögu minni að ég gerði mér grein fyrir því svo að það væri áreiðanlega ekki hægt að vísa bara til þess að biðlistar mundu lengjast. Ég benti líka á hvað það hefur stundum haft í för með sér. Því miður hefur það gerst að fólk hefur dáið áður en það fær þá þjónustu sem það er að bíða eftir á þessum biðlistum.
    Ég hef í rauninni ekki fengið svar við því hvernig eigi að bregðast við lokunum þar sem þær taka til fæðinga. Ég veit að þegar gripið hefur verið til lokana, eins og nú er boðað í sex vikur á Fæðingarheimilinu, hefur það óhjákvæmilega leitt til mjög alvarlegs ástands á fæðingardeild Landspítalans þar sem er tekið við og ég heyri ekki að það sé neitt sem verði gert til þess að bæta úr því ófremdarástandi.
    Bæði þau svör sem ég fékk, þó rýr væru, og einnig þær spurningar sem ég fékk ekki svarað vekja miklar áhyggjur hjá mér og örugglega fleirum þannig að ég enn og aftur ítreka áhyggjur mínar vegna þess að það hefur fengist staðfest að það á ekkert að gera.