Sumarlokun á legudeild barna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:44:00 (5987)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Endur fyrir löngu flutti ég fsp. í tveimur liðum á þskj. 635 um sumarlokun á legudeild barna. Hún var svohljóðandi:
  ,,1. Hvaða rök eru fyrir því að loka í 13 vikur í sumar einu sérhæfðu legudeild landsins í geðlækningum barna?
    2. Með hvaða hætti verður séð fyrir meðferð og vistun þeirra barna, sem nú dveljast á deildinni eða eru á biðlista eftir plássi á deildinni, meðan á sumarlokuninni stendur?``
    Eins og ég sagði er orðið harla langt síðan að ég lagði þessa fsp. fram og að öllu eðlilegu hefði ég átt að fá svar við henni fyrir alllöngu síðan, a.m.k. fyrir páska, en það varð ekki, kannski vegna þess að þó að mönnum hefði tekist að rökfæra þessa lokun þá hefðu þeir átt erfitt með að réttlæta hana. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Það hefur verið lögð fram miðlunartillaga í kjaramálum og henni fylgdi yfirlýsing frá ríkisstjórninni þar sem segir m.a., með leyfi forseta, í 11. lið: ,,Barnageðdeild við Landspítalann verður áfram í eðlilegum rekstri.`` Það þurfti sem sagt alla verkalýðshreyfinguna í landinu, hvorki meira né minna, til þess að fá fram yfirlýsingu frá ríkisstjórninni um það að sex til sjö plássum á legudeildum barna yrði ekki lokað í sumar, ef ég skil þá þessa setningu rétt. Það er auðvitað fáranlegt að nota slíkt sem skiptimynt í kjarasamningum. Þetta er mál sem á að útkljá annars staðar en engu að síður hlýtur maður að fagna því að ríkisstjórnin skuli tilbúin eftir átök við alla verkalýðshreyfinguna að gefa slíka yfirlýsingu.
    En ég hlýt að spyrja: Hvað er átt við í þessari yfirlýsingu með ,,í eðlilegum rekstri``? Hvað er átt við með þessum orðum? Þýðir þetta að hætt verður við áform um breytt og verra vaktafyrirkomulag lækna sem takmarkar neyðarþjónustu eins og ráðgert hafði verið þarna? Þýðir þetta að ekki verður lokað í 13 vikur á legudeild barna eins og ráðgert hafði verið? Ef svo er og ég vona að ég fái skýra yfirlýsingu um það frá ráðherra, þá finnst mér ástæða til þess að láta það koma fram að starfsfólk á legudeildinni hefur ekki fengið nein skilaboð um að hún verði opin í sumar. Það hefur ekkert bréf borist til geðdeildar Landspítalans um að legudeildin verði höfð opin í sumar og starfsfólk er enn í algerri óvissu um hvernig störfum þeirra verður háttað í sumar og hver verða örlög þeirra barna sem inni á deildinni eru. Það er ekki til setunnar boðið að fara að vinda bráðan bug

að því að fara að lagfæra þetta vegna þess að það átti að loka deildinni 1. júní. Það er sem sagt tæpur mánuður til stefnu. Og þess vegna hlýt ég nú að spyrja að breyttu breytanda: Hvenær fá geðdeildirnar einhverjar nákvæmar upplýsingar um það hvort það eigi að vera opið eða ekki opið og hvernig það eigi að fjármagna þá opnun?