Sumarlokun á legudeild barna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:50:13 (5990)


     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. og staðgengli heilbrrh. fyrir svör hans hér áðan. Þau komu mér reyndar ekkert á óvart. Ég vissi svo sem um þessa yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að ég átti von á þessum svörum. En ráðherrann vildi ekki skýra orðin ,,í eðlilegum rekstri``, ég held hins vegar að þau þarfnist skýringa. Ég get út af fyrir sig skilið það að hann sé kannski ekki viðbúinn að svara því héðan úr pontunni þar sem þetta er venjulega ekki á hans málasviði. En ég held að þetta þarfnist útskýringar, hvað átt er við með ,,í eðlilegum rekstri`` og það væri þá eitt af því sem heilbrrn. þyrfti að gera Ríkisspítölunum grein fyrir, hvaða merkingu þeir leggja í þessi orð.
    Ég nefndi vaktafyrirkomulagið. Það er auðvitað eitt af því sem kemur hér inn í myndina vegna þess að breytt vaktafyrirkomulag á barna- og unglingageðdeild er vegna sparnaðar og það átti að fela í sér að bráðaþjónusta sérfræðinga við börn og unglinga leggist af og læknarnir séu sem sagt ekki tiltækir með sama hætti og verið hefur.

    Hvað varðar upplýsingar til starfsfólks þá fullyrði ég það eftir samtöl mín við starfsfólk í morgun að það hefur engar upplýsingar fengið, það hafa engin svör fengist um það hvort þeim beri að loka eða ekki frá þeirra yfirstjórnendum vegna þess að yfirstjórnendur þessa starfsfólks hafa ekki fengið bréf enn þá, að því er því er sagt, frá ráðuneytinu. Það er þá mikilvægt að vinda bráðan bug að því að senda út þetta bréf og kynna málin fyrir þeim sem hlut eiga að máli. Ég sem sagt óska eftir því að það verði gert nú hið fyrsta og ríkisstjórnin skýri út fyrir Ríkisspítölunum, yfirstjórnendum Ríkisspítalanna og starfsfólki, hvað átt er við með þessu. Þar að auki sagði ráðherra áðan að ekki væri unnt að afturkalla allar ráðstafanir að fullu og það þarf þá líka að liggja fyrir hvaða ráðstafanir það eru sem ekki er hægt að afturkalla.