Nefnd um framtíðarkönnun

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:07:00 (5996)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Þann 9. apríl 1984 skipaði þáv. hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, nefnd um framtíðarkönnun sem ætlað var að leggja á ráð um almenna könnun um framtíðarhorfur hér á landi. Verkefni þetta var nefnt ,,Ísland næsta aldarfjórðung``. Ætlunin var að fjallað yrði um framtíðarhorfur á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Við lestur gagna, sem þessu máli tengjast, kemur í ljós að hér var um að ræða afar metnaðarfullt starf. Hugur þeirra, sem að þessu stóðu, stóð til þess að tekist yrði á við gríðarlega mikið starf og ekki má lesa annað út úr þeim gögnum sem ég hef undir höndum og tengjast starfi nefndarinnar en að nefndin hafi ætlað sér að láta sér afar fátt mannlegt óviðkomandi.
    Ég nefni sem dæmi að um var að ræða starf þátttakenda í einum fimmtán starfshópum sem áttu að fjalla um mannfjöldaþróun, auðlindir landsins, landkosti, orkumál, heimsbúskapinn, utanríkismál, menningarmál, tæknimál, skólamál, þróun hagvaxtar, umhverfismál, heilbrigðismál, fjárhagsmál, fjármögnun landsins og stjórnskipun.
    Í þessum hópum sátu alls á milli 90 og 100 manns og það er óhætt að segja að þar var mikið mannval og vonandi voru þar á ferðinni afar brekkusæknir menn svo við notum hugtak sem mjög hefur verið í umræðunni upp á síðkastið.
    Nú hefur það gerst upp á síðkastið að um starfsemi þessarar miklu nefndar hefur verið afar hljótt, það hefur ekki farið hátt og fátt hefur spurst út af starfi hennar síðustu dægrin, síðustu mánuðina og jafnvel missirin. Því hef ég leyft mér að leggja eftirfarandi fimm spurningar fyrir hæstv. forsrh.:
  ,,1. Hvað líður störfum nefndar um framtíðarkönnun sem skipuð var af þáverandi forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni, 9. apríl 1984?
    2. Hvernig var staðið að þessari könnun og hvað hefur hún kostað skattgreiðendur til þessa?
    3. Eru allar skýrslur á vegum könnunarinnar komnar út?
    4. Hver annast nú um framkvæmd málsins?
    5. Hvað hyggst forsætisráðherra gera á grundvelli þess starfs sem unnið hefur verið við framkvæmd þessarar könnunar?``