Nefnd um framtíðarkönnun

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:15:22 (6000)



     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. afar greinargóð og skýr svör við þessum fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hann. Hv. 9. þm. Reykv. talaði um það að núv. ríkisstjórn ætlaði að hafa fortíðina að leiðarljósi. Það var nú einu sinni kveðið að að fortíð skyldi hyggja ef frumlegt skyldi byggja og það er auðvitað rétt að núv. ríkisstjórn hefur þetta m.a. að leiðarljósi. Hins vegar skil ég það vel að hv. þm., sem kemur úr þeim stjórnmálaflokki sem allir vita, óttist fortíðina og vill auðvitað ekki að hún sé rifjuð upp. Það skýrir mjög vel hans málflutning áðan.
    Það sem stendur auðvitað upp úr um starf þessarar nefndar er það að hún skilaði frá sér ritlingum sem mjög óljóst er auðvitað um raunverulega gagnsemi af. Ég get tekið undir það sjónarmið að það getur alltaf verið fróðlegt að reyna að átta sig á framtíðarþróuninni. Hins vegar hygg ég að það muni flestum reynast nokkuð erfitt vegna þess einfaldlega að þróunin inn í framtíðina er ekki alltaf bein og breið. Þótt menn reyni að rýna inn í hana á grundvelli þeirrar þekkingar sem menn hafa á hverjum tíma, þá er það einatt þannig að þjóðfélögin breytast mjög ört og þau breytast í margháttaðar áttir. Þær miklu breytingar sem t.d. hafa gengið yfir okkar land voru auðvitað ekki fyrir séðar á árinu 1984. Þó vissulega geti það verið gagnlegt að reyna að velta fyrir sér með almennum hætti hvert framtíðin sé að leiða okkur, og ég geri ekkert lítið úr því, þá er það samt sem áður svo að trú á slíka framtíðarvinnu getur líka verið afar bagaleg. Ég held að m.a. með því að skoða til baka þær vangaveltur sem menn voru með á árinu 1984, þá sjáum við, jafnvel þótt ekki séu liðin nema átta ár síðan þau orð voru fest á blað, þá blasir það samt sem áður við að það sem menn eru að velta fyrir sér í dag er á margan hátt allt aðrir hlutir en það sem var efst á baugi og virtist blasa við á árinu 1984. Niðurstaðan af þessu er sú að kostnaðurinn við gerð þessara ritlinga sem út komu var 19 millj. kr. Framkvæmd málsins er lokið og verkið mun ekki halda áfram. Ég tel að þetta sé afar eðlileg málsmeðferð hjá hæstv. ríkisstjórn og þakka fyrir þær upplýsingar.