Leiga á ökutækjum án ökumanns

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:40:17 (6010)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir þau ummæli hv. þm. að leiga á skráningarskyldum ökutækjum án ökumanns, ef það orðalag er notað, er há hér á landi. Við höfum vissulega áhyggjur af því og hafa komið fram hugmyndir um það hvort hægt sé að lækka leiguna fyrir erlenda ferðamenn en í því hefur ekki fundist niðurstaða.
    Að öðru leyti heyrir þessi spurning undir dómsmrh. og hefur mér borist svohljóðandi svar frá dóms- og kirkjumrn.:
    ,,Í 70. gr. umferðarlaga eru ákvæði um leigu ökutækja svohljóðandi:
    ,,Enginn má selja á leigu í atvinnuskyni skráningarskyld ökutæki án ökumanns, nema hann hafi fengið til þess leyfi lögreglustjóra.
    Dómsmálaráðherra setur reglur um leigu ökutækja án ökumanns og ákveður gjald fyrir leyfi. Í þeim reglum má ákveða að eigi þurfi leyfi til leigu á tilteknum flokkum ökutækja eða fyrir tiltekinni leigustarfsemi.````
    Síðan segir: ,,Eftir gildistöku umferðarlaganna 1. mars 1988 hafa ekki verið settar nýjar reglur um leigu ökutækja. Um leigu á skráningarskyldum ökutækjum til mannflutninga án ökumanns, gilda reglur sem settar voru 1960, með síðari breytingum. Eru þær reglur í gildi þar til annað verður ákveðið, samanber auglýsingu frá 26. febr. 1988 um gildi reglugerða samkvæmt eldri umferðarlögum.``
    Reglurnar frá 1960 taka til ökutækja til mannflutninga. Þær þarfnast í sjálfu sér endurskoðunar en sérstök áform í því efni eru ekki uppi eins og er.
    Tekið skal fram að ákvæði umferðarlaga áskilja að leyfi þurfi til að selja á leigu í atvinnuskyni skráningarskyld ökutæki án ökumanns. Jafnframt er heimilað að ákveða að ekki þurfi leyfi til tiltekinnar leigustarfsemi. Leiga ökutækja í atvinnuskyni er þannig annaðhvort frjáls eða bundin því að hlutaðeigandi hafi leyfi til þeirrar starfsemi.