Fíkniefnaneysla í landinu

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:46:00 (6013)

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. dómsmrh. um stefnumótun gagnvart því að uppræta fíkniefnaneyslu í landinu.
    Eitt hundrað ungmenni hvíla nú á kistubotni, hafa fallið fyrir þessum voða. Talið er að allt að 500 unglingar á aldrinum 13--19 ára séu djúpt sokknir í fíkniefnaneyslu. Fullyrt er að fjármagnið sem á ári hveru er varið til fíkniefnaviðskipta skipti hundruðum milljóna. Ég sá í einhverju blaði rætt um að það mundi verða hálfur milljarður á ári hverju. Eiturlyfjasala er því orðin ,,bisniss``. Sölumennirnir svo og neytendurnir verða illskeyttari með ári hverju. Hér duga engin vettlingatök. Þessa skelfingu verður að stöðva. Blikur eru á lofti og hættumerki. Ríkisstjórnin hefur skorið niður fjármagn til löggæslu. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á auknu atvinnuleysi á meðal ungs fólks. Líkur eru á að niðurskurður til skólamála þýði það að í haust verði stór hópur unglinga að hverfa frá námi.
    Í öllum löndum er fylgni á milli atvinnuleysis og neyslu á ávana- og fíkniefnum. Atvinnuleysið hefur þrefaldast hjá fólki á aldrinum 18 ára til tvítugs og fimmfaldast hjá þeim sem eru á aldrinum 20--24 ára gamlir. Reykingar aukast á ný meðal unglinga, ekki síst hjá stúlkum.
    Ég treysti hæstv. dómsmrh. til að móta stranga og skjótvirka stefnu til að uppræta fíkniefnaneyslu. Til þess þarf aukið fjármagn og herta löggjöf. Til þess þarf aukna fræðslu meðal foreldra og barna og unglinga. Íþróttir og tómstundastarf er ein besta trygging gegn þessari vá.
    Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir hertri löggjöf? Mun hann beita sér fyrir því að Alþingi staðfesti samning Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og skynvilluefni? Mun hæstv. ráðherra tryggja aukið fjármagn til þessarar varnarbaráttu sem er barátta upp á líf og dauða hjá fjölda ungmenna?