Eftirlit með veiðum erlendra skipa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:08:02 (6020)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni fyrir báðar þær fyrirspurnir sem hann ber fram til sjútvrh. Hvorutveggja fsp. er afar merk og tímabær. Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að við fylgjumst grannt með veiðum erlendra skipa fyrir utan 200 mílna fiskveiðilandhelgina, ekki síst í suðurátt frá Íslandi því samkvæmt hafréttarsáttmálanum eigum við mikilla hagsmuna að gæta þarna. Það er líka ljóst að á þessum svæðum er um að ræða mikið magn af hvers kyns fiski eins og miðsjávarfiskum sem lítið hafa verið kannaðir til þessa og þess vegna er mjög nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að kanna tegundasamsetningu, magn og útbreiðslu.
    Að því er varðar þá fiska sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason nefnir sérstaklega, búra og blálöngu, er rétt að greina frá því að nú berast fregnir um að menn séu að finna búra mjög víða. Erlendis eins og t.d. við Nýja-Sjáland veiða menn allt upp í 40 þús. tonn af búra á hverju ári. Það sem er merkilegast við þær veiðar er að þær eru allar teknar á 3--4 vikna tíma og ég leyfi mér þann munað að hugsa upphátt, hvílík búbót yrði það ekki fyrir verstöðvar hér á landi ef á jafnstuttu tímaskeiði væri hægt að afla þó ekki væri nema nokkurra þúsunda tonna af þessu.
    Að því er varðar fjárskort til frekari rannsókna, hafa auðvitað komið fram hugmyndir um það, ég bendi til að mynda á hinar ágætu tillögur í stefnuskrá Kvennalistans --- því miður er enginn kvennalistamaður í salnum, jú --- þar sem greint er frá því að rétt væri að láta til að mynda 20% allra veiðiheimilda renna í sérstakan veiðileyfasjóð og tekjunum af sölu þeirra heimilda yrði m.a. varið til rannsókna. Ég tek afskaplega vel undir þetta ákvæði í stefnuskrá Kvennalistans eins og ég hef áður gert í þessum sökum.