Eftirlit með veiðum erlendra skipa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:18:22 (6027)



     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það komin upp gamalkunn umræða. Þingmenn Alþfl. og Kvennalistans og nú Alþb. tala skýrt og skorinort um að það þurfi að koma á aflagjaldi og auðlindaskatti (Gripið fram í.) eins og við þekkjum í greininni. (Gripið fram í.) En mér er spurn --- og það væri æskilegt ef formaður þingflokks Alþfl., sem hér gjammar sýknt og heilagt fram í, vildi svara því: Hver á að greiða þetta aflagjald? Hver á að greiða þetta aflagjald þegar formaður Alþfl. hefur sýknt og heilagt barist fyrir því að þessari starfsgrein verði búin þau starfsskilyrði að rekstrargrundvöllurinn er mínus 10%? Hver á að borga þetta aflagjald?
    Það væri fróðlegt ef Kvennalistinn, Alþfl. eða Alþb. vildu svara því. ( ÖS: Þú verður að halda þig við efnið.) Efnið er það, hv. þm. og formaður Alþfl., að þér er nær að eyða þínum dýrmæta tíma í það skapa þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar starfsskilyrði, heldur en sýknt og heilagt að leggja á hana milljarða á milljarða ofan í nýjum sköttum.