Greiðslur til stuðningsfjölskyldna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:26:00 (6031)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði raunar gert ráð fyrir að tvær fsp. yrðu teknar á undan, en þakka fyrir að hafa fengið orðið.
    Virðulegi forseti. Það er mat ýmissa sem gerst þekkja til málefna fatlaðra að ekki hafi verið gefinn nægilegur gaumur að því að byggja upp þjónustu stuðningsfjölskyldna. Meðal þess sem gagnrýnt er er að of lítið fé fáist til málaflokksins í heild á sama tíma og

fjármagni er frekar beint til stofnana sem er oft mun lakari lausn og miklu dýrari. Það sem ég á ekki síst við er fyrir geðfatlaða og þroskahefta. Einnig vil ég nefna það að margir sem ekki eru á stofnunum þyrftu á þessari þjónustu að halda en fá ekki.
    Því miður heyrði ég það reyndar í morgun að ein svæðisstjórn a.m.k. yrði að hætta að nota þjónustu stuðningsfjölskyldna nú í maí vegna fjárskorts. Þetta er e.t.v. víðar raunin og er mjög miður.
    Í reglugerð um stuðningsfjölskyldur, nr. 345/1985, kemur fram hvert hlutverk stuðningsfjölskyldna á að vera og mig langar til þess að vitna lítið eitt í þessa reglugerð þar sem það kemur fram að það er ekkert smáhlutverk sem stuðingsfjölskyldum er ætlað. En í 1. gr. segir, með leyfi forseta:
    ,,Hlutverk stuðningsfjölskyldu er að taka fatlaðan einstakling í umsjá sína í sólarhringsvistun í skamman tíma, sbr. 4. gr., í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu hans. Slíkri umsjá fylgir ekki krafa um að stuðningsfjölskyldan láti í té sérstaka þjálfun eða hæfingu.``
    Og í 2. gr.: ,,Við val á stuðningsfjölskyldu skal svæðisstjórn kanna vandlega heimilishagi og aðstæður í þeim tilgangi að meta hæfni og möguleika viðkomandi fjölskyldu til að sinna hlutverki sínu. Tekið skal tillit til óska forráðamanna hins fatlaða við val á stuðningsfjölskyldu.
    Svæðisstjórn skal sjá til þess að stuðningsfjölskyldur fái nauðsynlegar upplýsingar um þann einstakling sem hann tekur í umsjá sína skv. 1. gr., m.a. með því að stuðla að kynnum milli fjölskyldu hins fatlaða og stuðingsfjölskyldu.``
    Mig langar einnig að grípa niður í 4. gr., þetta eru ekki greinarnar í heild, ég tek það fram, þar er talað um að gerðir séu samningar milli stuðningsfjölskyldna og svæðisstjórnar: ,,Hámark samfelldrar dvalar skal vera 3 sólarhringar að jafnaði í mánuði, en heimilt er að víkja frá því, enda fari dvöl ekki fram yfir 15 sólarhringa á 3ja mánaða tímabili.
    Eigi er heimilt að fela stuðningsfjölskyldu umsjón nema tveggja fatlaðra einstaklinga í senn, nema um sé að ræða systkini.``
    Ég læt lokið tilvitnun og ber fram fyrirspurnina, en hún er á þskj. 805:
  ,,1. Hve margar fjölskyldur eru stuðningsfjölskyldur fatlaðra einstaklinga hér á landi?
    2. Hve mikið fá stuðningsfjölskyldur greitt fyrir stuðninginn að meðaltali? Hver er hámarksgreiðsla til stuðningsfjölskyldu, hve margar stundir á viku er stuðningur þá veittur og hve margar fjölskyldur fá hámarksgreiðslu? Hver er lægsta greiðsla til stuðningsfjölskyldna, hve margar stundir á viku er stuðningur þá veittur og hve margar fjölskyldur fá lægstu greiðslu?``
    Ég tek það fram að ég geri ekki athugasemd þó byggt sé á mánuði í sambandi við svörin.