Greiðslur til stuðningsfjölskyldna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:30:15 (6032)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á grundvelli 6. gr. laga um málefni fatlaðra var á árinu 1985 sett reglugerð nr. 345/1985 um stuðningsfjölskyldur fatlaðra. Hlutverk stuðningsfjölskyldna er að taka fatlaðan einstakling í umsjón sína í sólarhringsvistun í skamman tíma í þeim tilgangi að létta álagi af fjölskyldu hans. Svæðisstjórnir fatlaðra hafa milligöngu um að finna stuðningsfjölskyldur og annast samningsgerð við þær um tilhögun dvalar og greiðslu.
    Fyrirspyrjandi spyr um fjölda þeirra fjölskyldna sem eru stuðningsfjölskyldur fatlaðra einstaklinga. Því er til að svara að núna eru 146 fjölskyldur stuðningsfjölskyldur fatlaðra einstaklinga. Á liðnum árum hefur orðið veruleg aukning á þessari þjónustu. Þannig voru um mitt ár 1990 tæplega 100 samningar við stuðningsfjölskyldur á móti 146 fjölskyldum núna.
    Varðandi síðari lið fsp., um greiðslur til stuðningsfjölskyldna, er í samningi við þær kveðið á um ákveðinn fjölda dvalarsólarhringa í mánuði. Í reglugerðinni um stuðningsfjölskyldur er kveðið á um að hámark samfelldrar dvalar skuli vera þrír sólarhringar í mánuði en heimilt sé að víkja frá því, enda fari dvöl ekki fram yfir 15 sólarhringa á þriggja

mánaða tímabili. Í samningum við stuðningsfjölskyldur er þannig samið um vistun frá tveim sólarhringum til fimm sólarhringa í mánuði. Af þeim 146 samningum sem nú eru í gildi eru 6 samingar um vistun í tvo sólarhringa í mánuði, 74 samningar um vistun í þrjá sólarhringa í mánuði, 5 samningar um vistun í fjóra sólarhringa í mánuði og 61 samningur um vistun í fimm sólarhringa í mánuði.
    Greiðslur til stuðningsfjölskyldna byggjast á sólarhringsgjaldi sem er 5,5% af launaflokki 227, 1. þrepi í kjarasamningum BSRB. Upphæð þessi er nú 2.393 kr. fyrir sólarhringinn. Miðað við vistun einstaklings í fimm sólarhringa í mánuði, sem er hámarksfjöldi dvalarsólarhringa, eru hæstu greiðslur til stuðningsfjölskyldu 11.965 kr. á mánuði. Lægstu greiðslur eru hins vegar, miðað við vistun einstaklings í tvo sólarhringa í mánuði, 4.786 kr. fyrir mánuðinn.