Greiðslur til stuðningsfjölskyldna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:32:44 (6033)


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka svör hæstv. ráðherra. Eins og fram kom í þeim upplýsingum sem hún veitti, er í fyrsta lagi mjög mikil sókn í þessa þjónustu. Einnig vekur það athygli mína að töluverður fjöldi nýtur heimildarákvæðis um mestu þjónustu og bendir það til þess að þrýstingur sé í þá átt.
    Í öðru lagi vil ég geta þess, sem þarf nú kannski ekki, að hér er um afskaplega lágar greiðslur að ræða fyrir það sem ég tel mjög mikla þjónustu. Til samanburðar má geta þess að séu þær upplýsingar réttar sem ég hef undir höndum er kostnaður við dvöl einstaklings á stofnun varla undir 8--10 þús. kr. á sólarhring. Þar er ekki verið að tala um þrjá eða fimm sólarhringa í mánuði heldur væntanlega allan mánuðinn með eðlilegum fríum ef þeim er til að dreifa. Ég vil geta þess að af þessari lágu upphæð þurfa stuðningsfjölskyldur nú samkvæmt nýjum reglum að greiða skatt. Það er út af fyrir sig eðlilegt, en ég veit ekki til þess að það standi til að hækka greiðslur til þeirra sem því nemur. En ég yrði að sjálfsögðu afskaplega glöð ef það yrði leiðrétt hér.
    Annað er það að með því að takmarka þjónustu sem hægt er að veita á þennan hátt, að ráða stuðningsfjölskyldur, er verið að hafna mjög góðum kosti fyrir marga fatlaða einstaklinga, bæði þá sem njóta einhverrar þjónustu núna og þá sem njóta lítillar þjónustu. Hér á ég ekki síst við þroskahefta einstaklinga og geðfatlaða. Nauðsynlegt væri að hægt yrði að nýta stuðningsfjölskyldur meira en gert er nú. Vandamálið er að fá fólk til starfa þegar svo lítið er greitt fyrir þetta og ekki er hægt að ætlast til þess, jafnvel þótt fólk vildi, að það taki svona erfitt hlutverk að sér nema að þokkalega sé greitt fyrir það og að heildarfjárhæð sem veitt er til þessa málaflokks sé sæmilega há.
    Fleira þarf að koma til, betri stuðningur við fjölskyldur fatlaðra og leiðsögn eins og fyrirhugað er annars staðar í málefnum fatlaðra eða því frv. sem nú liggur fyrir Alþingi. Það verður að ítreka að stofnanaþjónusta er dýr og að ýmissa mati nokkuð sem við erum að hverfa frá. Í sumum tilvikum, ekki mörgum, er hægt að sameina ódýra lausn og góða og ég tel að svo sé í þessu tilviki.