Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 13:34:00 (6038)

     Kristinn H. Gunnarsson (frh.) :
    Virðulegi forseti. Þar var komið í minni ræðu að ég hafði fjallað lítillega um þá stefnumörkun sem felst í þeirri ákvörðun stjórnarliðsins að leggja niður Skipaútgerð ríkisins. Ég vil nú halda áfram ræðu minni og þakka hæstv. fjmrh. fyrir að verða við óskum mínum um að vera viðstaddur það sem eftir er af ræðu minni. Ég vil nú leitast við að draga saman efnisatriði þannig að koma megi þessum atriðum til skila á sem skemmstum tíma.
    Ákvörðun um að leggja niður Skipaútgerð ríkisins er meira en ákvörðun um það mál, það er líka ákvörðun um að leggja af styrki til sjóflutninga. Ég hafði spurt hver stefna ríkisstjórnarinnar væri varðandi ferjur og flóabáta og vitna þar til fréttatilkynningar frá 24. sept. frá hæstv. samgrh. þar sem segir að óhjákvæmilegt sé að endurmeta hvernig staðið verði að slíkri þjónustu og í sumum tilvikum verði enn um sinn að styrkja rekstur flóabáta. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en það séu áform ríkisstjórnarinnar að draga úr stuðningi við rekstur flóabáta og leggja af ríkisstyrk til sumra þeirra. Orðalagið er þannig að það verður ekki öðruvísi skilið. Það er því ljóst að það er um stefnubreytingu að ræða en ég óska eftir að fá hana nánar útfærða en fram kemur í þessum fáu orðum.
    Hvað varðar það sem fram hefur komið um stefnu ríkisstjórnarinnar um styrki til sjóflutninga innan lands hvort heldur það er eigið fyrirtæki eða styrki til annarra, þá er vísað þar hvað í sína áttina. Ég vil rekja stuttlega það sem um það fjallar. Fyrst nefni ég atriði sem gefa það til kynna að það séu áform stjórnvalda að halda áfram að veita styrki til strandflutninga. Ég get vitnað til frhnál. fyrir 3. umr. fjárlaga 18. des. sl. þar sem segir svo, með leyfi forseta varðandi Skipaútgerð ríkisins:
    ,,Gert er ráð fyrir að fyrirtækið verði lagt niður á næsta ári og öðrum aðilum falið að sinna nauðsynlegri þjónustu eftir því sem stjórnvöld telja nauðsynlegt og ásættanlegt.`` Sú afstaða kemur skýrt fram í þessu nál. að stjórnvöld telji það sitt hlutverk að tryggja samgöngur á sjó og að semja beri við aðra aðila um að ná fram þeim markmiðum. Í fylgiriti með fjárlögum 1992 sem dreift hefur verið til þingmanna segir svo varðandi Skipaútgerð ríkisins, með leyfi forseta:
    ,,Gert er ráð fyrir að fyrirtækið verði lagt niður og eignir þess seldar. Rekstraráætlun er því lækkuð um nálega þriðjung og miðað við að hluta söluhagnaðar verði ráðstafað til að styrkja strandflutninga telji stjórnvöld það nauðsynlegt.`` Hér kemur það enn skýrt fram að miðað er við það að verja fé til að styrkja sjóflutninga við ströndina hér á landi telji stjórnvöld það nauðsynlegt. Og vissulega telja stjórnvöld það nauðsynlegt og nefni ég þar og vitna til fréttatilkynningar frá hæstv. samgrh. 30. des. sl. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Enn fremur hefur samgrh. ákveðið að í byrjun komandi árs verði hafnar viðræður við hagsmunaaðila í því skyni að tryggja áframhaldandi flutningaþjónustu til þeirra hafna sem ekki yrði þjónað með viðunandi hætti án sérstakra aðgerða er þjónusta Skipaútgerðar ríkisins leggst af.``
    Hér kemur það skýrt fram eins og í fyrri tilvitnunum að menn eru að tala um að ríkið telji það sína skyldu að sjá um að viðunandi þjónusta sé veitt og verja til þess fé ef með þarf. Hins vegar eru ekki öll plögg í þessa veru. Ég nefni fjárlögin sjálf. Í heimildargrein í fjárlögum, tölul. 424, 6. gr., segir, með leyfi forseta:
    ,,Fjmrh. er heimilt að selja eignir Skipaútgerðar ríkisins og verja andvirði þeirra til að greiða kostnað við rekstur útgerðarinnar á meðan hann varir og kostnað við að leggja fyrirtækið niður.``
    Í fjárlögunum er ekki orð um það að ráðherra sé heimilt að verja fé úr ríkissjóði til að styrkja strandflutninga þvert á það sem fram hefur komið í fylgiriti með fjárlögum, í nál. og yfirlýsingu samgrh. Og því vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Telur hann sér heimilt að verja fé úr ríkissjóði á þessu ári til að styrkja strandflutninga hér við land? Ég sé ekki út úr fjárlögunum eins og frá þeim er gengið að slík heimild sé fyrir hendi. Það þýðir ekki að ég sé andvígur því að slík heimild væri veitt ef eftir því væri leitað, fjarri því.
    Það er fleira sem styður þessa niðurstöðu fjárlaga. Þar vil ég vitna í fyrsta lagi til bréfs frá hæstv.

samgrh. til forsvarsmanns undirbúningshóps að stofnun hlutafélags sem taka ætlaði við af Skipaútgerð ríkisins og kaupa það fyrirtæki. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ráðuneytið hafnar tilboði yðar um þjónustusamning. Ráðuneytinu hafa þegar borist önnur erindi um fyrirspurnir og siglingar þar sem gert er ráð fyrir ríkisstyrk til einkaaðila með svipuðum hætti og reiknað er með í tilboði yðar. Þeim erindum hefur öllum verið hafnað.`` Enn fremur segir hæstv. samgrh. í þessu bréfi: ,,Ekki er gert ráð fyrir framlögum úr ríkissjóði vegna rekstrar Skipaútgerðar ríkisins á árinu 1992.``
    Ég vil enn fremur vitna til bréfs dags. 2. jan. á þessu ári frá fulltrúa samgrh. til talsmanns fyrrgreinds hóps. Þar kemur fram í 2. tölul. í því bréfi, með leyfi forseta: ,,Ekki verður um neinn ríkisstyrk að ræða né heldur greiðslur af hálfu ríkisins fyrir þjónustusamning. Þetta er í samræmi við fjárlög.``
    Enn vil ég vitna í bréf frá hæstv. samgrh. dags. 6. jan. 1992 til forsvarsmanns þess hóps sem ég nefndi áðan. Í 1. tölul. þess bréfs segir, með leyfi forseta:
    ,,Á fjárlögum er ekki gert ráð fyrir opinberum framlögum til strandsiglinga né til flutningaþjónustu við einstök byggðarlög ef undan er skilinn fjárlagaliður 10-322, Flóabátar og vöruflutningar. Gert er ráð fyrir að sala á eignum Skipaútgerðar ríkisins standi undir halla af rekstri hennar á þessu ári en það sem umfram er renni í ríkissjóð.``
    Í þeim bréfum sem ég hef vitnað til, tveimur frá hæstv. samgrh. og því þriðja frá fulltrúa hans kemur skýrt fram sá skilningur á fjárlögum að ekki verið veitt neinu fé til að styrkja strandsiglingar. Það gengur ekki saman við þann texta sem ég vitnaði fyrr til og er í fylgiriti með fjárlögum annars vegar og í frhnál. við 3. umr. fjárlaga hins vegar. Því spyr ég hæstv. ráðherra þeirrar spurningar sem ég gat um áðan: Telur hann sig hafa heimild til að verja fé úr ríkissjóði á þessu ári til að styrkja strandsiglingar?
    Ég vil enn fremur varpa fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. í tilefni af því sem ég vitnaði til úr fréttatilkynningu ráðherrans frá 30. des. sl. þar sem hann tilkynnir að ákveðið hafi verið að hefja viðræður við hagsmunaaðila til að tryggja áframhaldandi flutningaþjónustu og ég vil spyrja: Hafa þessar viðræður hafist og þá við hverja? Við hverja er hæstv. samgrh. að ræða til að tryggja flutningaþjónustu um landið?
    Ég vil, vegna þeirra fyrirspurna sem ég varpaði til hæstv. samgrh., vitna til viðtals við forstjóra Samskipa sem birtist í héraðsfréttablaði sem gefið er út við Húnaflóa. Þar segir forstjórinn að engar kvaðir af neinu tagi hafi fylgt samningum við samgrn. þegar Samskip keyptu hluta af eigum Skipaútgerðar ríkisins og ekki sé um að ræða neinar kvaðir eða skuldbindingar af hálfu Samskipa við að halda uppi þjónustu við einn eða neinn. Þar greinir hann enn fremur frá því í tilefni af fyrirspurn fréttamanns í því blaði um siglingar til Norðurfjarðar að það sé ljóst að Samskip geti ekki leyft sér að reka einstaka flutningaleiðir með tapi.
    Ég vil þá víkja að þriðja atriðinu í mínu máli sem er þjónustan í dag og hvert stefnir. Ég get verið stuttorður um þann þátt. Það er ljóst að veruleg samkeppni er í gangi milli þessara tveggja stóru skipafélaga, Eimskipafélagsins og Samskipa. Það er að mínu áliti tímabundið ástand sem varir meðan þessi tvö félög eru að keppa um að fá þá flutninga sem Skipaútgerð ríkisins áður hafði með höndum. Því er hvort skipafélag um sig um þessar mundir með þrjú skip í áætlunarsiglingum innan lands. Það er augljóst að a.m.k. fyrir alla þá sem eitthvað hafa komið nálægt þessum siglingum á ströndinni að útgerðin er rekin með tapi. Bæði þessi skipafélög munu að mínu viti draga úr sínum skipakosti þegar frá líður, eða við gætum orðað það eins og menn sem hafa mikla trú á markaðnum: þegar jafnvægi kemst á á markaðnum. Það er mín skoðun, byggð á þeirri reynslu sem ég hef af afskiptum af þessum málaflokki, að það muni draga úr þegar frá líður þeim skipakosti sem félögin hafa og það muni líka draga verulega úr þeirri þjónustu sem þau bjóða í dag vegna þess að skipafélögin eru að reka einstaka flutningaleiðir með tapi. Það munu þau félög auðvitað ekki gera til lengdar. Þrátt fyrir mikla samkeppni sem hefur þó haldið uppi merkilega háu þjónustustigi er staðan samt þannig að haldið er uppi reglulegum áætlunarsiglingum einu sinni eða tvisvar í viku. Það kalla ég áætlunarsiglingar sem nær því að það eru minna en tvær vikur á milli áætlunarferða. Í dag er slíkum siglingum haldið uppi á 24 hafnir í landinu. Um síðustu áramót, meðan Skipaútgerð ríkisins starfaði enn, var haldið uppi áætlunarsiglingum á 36 hafnir á landinu. Það hefur dregið úr þjónustu við nokkrar hafnir á landinu nú þegar með því að leggja af áætlunarsiglingar til þeirra staða. Þess í stað er boðið upp á af hálfu þessara tveggja skipafélaga að þau komi inn á þær hafnir ef flutningur er nægur fyrir hendi að þeirra mati. Það eru ekki áætlunarsiglingar.
    Ég geri athugasemdir við það sem fram kemur í greinargerð með frv. þar sem öðru er haldið fram um áætlunarsiglingar og að það séu 34 hafnir utan Reykjavíkur og Suðurnesja sem þeirra njóta í dag. Það kemur ekki heim og saman við mínar upplýsingar sem ég hef fengið, annars vegar frá Samskipum og hins vegar frá Eimskipafélagi Íslands.
    Meðal þeirra staða, sem í dag njóta ekki reglulegra siglinga eins og áður var, er hægt að nefna staði eins og Stöðvarfjörð, Breiðdalsvík, Bíldudal, Suðureyri, Bakkafjörð, Borgarfjörð eystri og Norðurfjörð. Norðurfjörður fellur ekki lengur undir þessa skilgreiningu því að Samskip sigla þangað á þriggja vikna fresti og tóku þá ákvörðun einungis til stutts tíma eða þriggja mánaða. Og allt óvíst um framhaldið þegar þeim tíma lýkur.
    Í greingargerð með frv. eru fleiri atriði sem ég hefði viljað gera athugasemdir við en ég læt þetta duga og vík að fjórða og síðasta lið í mínu máli. Það er niðurlagning fyrirtækisins. Ég vil í fyrsta lagi taka

fram vegna frv. eins og það er borið fram að Skipaútgerð ríkisins er enn með rekstur í gangi. Skipaútgerðin mun enn um sinn, og óvíst hve lengi, halda áfram að reka eitt skip sem Samskip hafa tekið á leigu en það er leigt með áhöfn og sú áhöfn er á launaskrá hjá Skipaútgerð ríkisins og verður svo þar til um annað semst. Fyrirtækið á líka enn eignir, fyrst og fremst vöruskemmu sem ekki hefur verið seld enn eftir því sem ég best veit. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að það er erfitt að leggja fyrirtæki niður sem er að hluta til í rekstri og á eignir án þess að kveða á um það hver eigi að fara með reyturnar. Hver á að hafa forræði, hvaða stofnun, hvaða ráðuneyti á að fara með það sem eftir stendur? Hver á að vera vinnuveitandi þeirra starfsmanna sem enn eru á launaskrá hjá Skipaútgerð ríkisins? Það þarf að mínu viti að kveða á um slíkt í frv. ef það er ætlun þingsins að ganga frá því á þessu þingi.
    Ég vil einnig gera athugasemdir við meðferð máls við sölu lausafjármuna. Þannig hefur verið að þessum málum staðið að sala eigna hefur farið fram undir forsjá samgrn. og án afskipta stjórnarnefnda. Í sjálfu sér ætla ég ekki að gera athugasemd við það en ég geri athugasemdir við einn samning sem okkur hefur verið kynntur án þess að við höfum séð hann. Það er sala á lausafjármunum til Samskipa. Sá samningur er þannig að lausafjármunirnir eru seldir fyrir tiltekið verð að viðbættum útskatti, að viðbættum virðisaukaskatti. Söluverðið er lánað til sex ára og afborgunarlaust fyrstu tvö árin. Með öðrum orðum er samgrn. að lána kaupandanum útskattinn til sex ára. Sami kaupandi kemur til ríkissjóðs bankar upp á hjá hæstv. fjmrh. innan tveggja mánaða og sækir innskattinn, 14 millj. kr. Eru þetta eðlilegir viðskiptahættir, hæstv. fjmrh.? Ég tel að svo sé ekki. Ég vil gjarnan fá álit ráðherrans á þessum samningi þar sem málið er formlega í hans forsjá.
    Ég vil svo að lokum, virðulegur forseti, nefna það sem ekki hefur verið til skila haldið af hálfu hæstv. samgrh. sem sífellt hefur klifað á hallarekstri Skipaútgerðar ríkisins og hefur varpað fram tölum um að sá hallarekstur hafi verið 3.100 millj. á síðustu tíu árum. Ég vil í fyrsta lagi segja um þann hallarekstur að það er ekki hallarekstur þegar það er ákvörðun þingsins og eigandans að reka fyrirtækið þannig að tekjur dugi ekki fyrir útgjöldum. Það er ekki hallarekstur að mínu viti þegar löggjafarsamkoman setur ríkisfyrirtæki tilteknar rekstrarforsendur.
    Ég vil í öðru lagi gera athugasemdir við þann útreikning sem ráðherrann hefur byggt sínar tölur á. Þær passa ekki við þær tölur sem við höfum reiknað út. Þótt frávik séu ekki stór þá eru þau samt umtalsverð í krónum talið.
    Ég vil í þriðja lagi láta það koma fram að fyrirtækið á verulegar eignir, upp á 450--500 millj. kr., sem er verið að selja. Auðvitað ber að draga þá tölu frá því sem menn kalla uppsafnaðan halla fyrirtækisins síðustu tíu ár.
    Í fjórða lagi þarf að taka tillit til þess hvernig mál hafa þróast á þessu tímabili. Fyrirtækið hefur verið, þrátt fyrir það að vera í ríkiseigu, í fararbroddi á sínu sviði, í fararbroddi á sínu sviði og hefur slegið þar einkaaðilum rækilega ref fyrir rass á mörgum sviðum, hvað varðar tækninýjugar og fleira.
    Að lokum, virðulegi forseti, varðandi ríkisstyrki. Eins og ég gat um rétt áðan er ríkisstyrkur, svo réttar tölur séu fram reiddar, um 2.400 millj. á tíu ára tímabili eða um 240 millj. á ári að meðaltali. En sá styrkur hefur farið lækkandi á þessu tímabili og útreikningar þeirra sem hugðust kaupa fyrirtækið með þjónustusamningi við ríkið voru þeir að það þyrfti 158 millj. til að reka fyrirtækið svo það veitti sömu þjónustu og Skipaútgerð ríkisins hefur veitt þar til það var lagt niður.