Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:02:52 (6043)



     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 5. þm. Vestf. beindi til mín tveimur fsp., sem ég mun leitast við að svara, og varða málefni Skipaútgerðar ríkisins. Önnur fsp. veit að málefni sem var til umræðu í andsvörum og svörum við andsvari. Hún er á þá leið hvort til greina komi að verja hluta af söluhagnaði vegna eigna Skipaútgerðarinnar til að styrkja strandflutninga. Hv. ræðumaður minnti á að á bls. 137 í fylgiriti með fjárlögum árið 1992 er sagt að rekstraráætlunin sé miðuð við að hluta söluhagnaðar verði varið til að styrkja strandflutninga telji stjórnvöld það nauðsynlegt. Ég tel, eftir að hafa skoðað þá texta sem lagðir voru fyrir Alþingi, ekki einungis í 6. gr. fjárlaga heldur einnig í nál. meiri hluta fjárln., að nauðsynlegt sé að leita heimildar Alþingis ef um það er að ræða að nota þetta fjármagn til að styrkja strandflutninga umfram það sem um getur í fjárlögum. Að sjálfsögðu eru heilmiklir fjármunir í fjárlögum sem fara til að styrkja ferjur, flóabáta og strandflutninga þar með. Það breytir hins vegar ekki því að áætlunin sem þarna var lögð til grundvallar getur hafa miðast við það að til þess þyrfti að koma og þá mundi það gerast að sjálfsögðu með því að lögð yrði fyrir Alþingi í fjáraukalögum tillaga þess efnis. Ég vil hins vegar geta þess að ég tel að engin ástæða sé til slíks. Enda segir hér um þessi sjónarmið, sem koma fram á bls. 137 í fylgiritinu, að aðeins verði gripið til slíks telji stjórnvöld það nauðsynlegt. Ég tel það engan veginn nauðsynlegt.
    Ég tel að reynslan af sölu Skipaútgerðarinnar sé ákaflega góð og sanni það satt að segja að þegar tveir aðilar keppa um strandsiglingar hafi það í sjálfu sér þau áhrif að verð lækki og að þjónustan núna sé síst lakari, kannski betri, en hún var þegar Skipaútgerðin var og hét. Og það veit ég að þeir sem eru búsettir í Bolungavík geta ekki kvartað. Ég skal endurtaka það vegna þess að mér er vel kunnugt um að þangað er nú siglt með slíkum hætti að Bolvíkingar eru jafnvel að tala um að nú megi spara siglinguna frá víkinni og inn Skutulsfjörðinn og keyra síðan varninginn til Ísfirðinganna. Þetta hef ég eftir bestu heimildarmönnum mínum á staðnum og ég veit að hv. þm. Kristinn Gunnarsson þekkir þá mjög vel.
    Ég held því að þegar á málið er litið sé ljóst að þessi aðgerð hefur heppnast eins og best verður á kosið og er dæmi um það hvað hægt er að gera. Það er auðvitað þannig að fólk hefur misst atvinnu sína og stjórnvöldum ber auðvitað að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi hljótist af. Hins vegar megum við ekki gleyma því að það var ekki tilgangur Skipaútgerðarinnar að halda uppi atvinnu fyrir fólk í Reykjavík. Tilgangurinn var að tryggja góða þjónustu við vissar hafnir á landinu. Og tilgangurinn með sölu Skipaútgerðarinnar var auðvitað að koma málum í það horf að það kostaði sem allra minnsta fjármuni fyrir ríkissjóð. Ég tel að vel hafi til tekist og vonast til að í framtíðinni veiti Samskip Eimskipum þá samkeppni sem nauðsynleg er og ég fagna því að mál hafa þróast í þá átt sem við nú þekkjum.
    Varðandi síðari fsp. um lausafjármunina, sölu þeirra og virðisaukaskatt af þeirri sölu, þá er það rétt sem kom fram hjá hv. ræðumanni að kaupandinn, Samskip, muni ekki greiða skatt til baka fyrr en síðar, þ.e. Samskip geta notið innskattsins strax en greiða síðan skuldabréfið til baka á þessum sex árum en með

6% vöxtum. Samkvæmt samkomulagi milli Ríkisskipa og Samskipa um sölu á ýmsu lausafé, aðallega gámum --- en söluverðið var 71--72 millj. kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, fór þessi sala fór þannig fram að söluverðið var greitt með skuldabréfi verðtryggðu til sex ára með 6% vöxtum eins og kom fram í ræðu hv. þm. Samkvæmt reglum um meðferð virðisaukaskatts af viðskiptum sem þessum þá fara þau þannig fram að Ríkisskip greiðir virðisaukaskattin til ríkissjóðs á næsta skiladegi en Samskip fá á móti sams konar innskatt sem dregst frá útskatti þess fyrirtækis á næsta degi eins og reyndar hefur komið fram. Ríkisskip hafa þegar gert þennan skatt upp við íslenska ríkið. Ég get hins vegar fallist á það sjónarmið sem lesa mátti út úr orðum hv. ræðumanns að það hefði verið betra ef skuldabréfið hefði aðeins náð til söluverðsins að frádregnum virðisaukaskattinum. Síðan hefði verið hugsanlegt að veita Samskipum bráðabirgðalán til að fjármagna innskatt fram að næsta skiladegi. Þetta yfirsást mönnum, bæði úr fjmrn. og samgrn. við framkvæmd málsins, en ég tel að þetta sé ekki stórmál enda eru þessir fjármunir verðtryggðir, skuldabréf vel tryggt og fjármunirnir á 6% vöxtum.
    Ég vona, virðulegi forseti, að þessi svör séu nægilega skýr til að koma til móts við óskir hv. þm. um frekari útlistun á þessu máli.