Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:27:34 (6050)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka síðasta ræðumanni fyrir skelegga ræðu og hlýjan hug til þessa málaflokks, eins og ég reyndar vissi fyrir að mundi verða raunin á. Ég kem aðeins upp til þess að árétta þann mun sem er á annars vegar stjórnarnefnd um Skipaútgerð ríksins og hins vegar á stjórn Menningarsjóðs eða menningarráðs eins og það heitir formlega. Munurinn er sá að það mál, sem varðaði Menningarsjóð, er bundið í lögum og því ekki á valdi framkvæmdarvaldsins að gera þar breytingar á en stjórnarnefnd Skipaútgerðar ríkisins vinnur undir forustu samgrh., lýtur yfirstjórn hans. Þeim sem þar sitja hverju sinni ber því að framfylgja þeirri stefnu sem ráðherra markar og hefur fengið samþykkt á Alþingi hverju sinni. Og í raun og veru hafði ráðherra þann bakstuðning hjá löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu sem hann þurfti þannig að lagaleg staða okkar í stjórnarnefnd Skipaútgerðar ríkisins var önnur en í menningarráði og því gátum við ekki gripið til sömu aðgerða og hægt var á þeim vettvangi.